23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3114 í B-deild Alþingistíðinda. (2707)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Vissulega er þarft og nauðsynlegt að þessi umr. fari fram núna þannig að skýr svör fáist um afstöðu ríkisstj. í þeim kjaramálum sem nú eru til umfjöllunar í þjóðfélaginu. Vakið hefur athygli þm. að Alþýðusamband Íslands og Vinnuveit­endasamband Íslands gerðu samninga á forsendum varðandi skattalækkanir en jafnframt að forsrh. og m.a. formaður Sjálfstfl. hafa haft uppi yfirlýsingar um að til þess að staðið yrði við þessi fyrirheit yrðu öll verkalýðsfélög í landinu að samþykkja þau samnings­drög sem fyrir lægju. Er virkilega mögulegt að ríkisstj. hafi haft í huga að standa þannig að málum? Er ekki ljóst að Alþýðusamband Íslands getur ekki gefið loforð fyrir hönd verkalýðsfélaganna upp og ofan í landinu og er hér verið að leika einhvern ljótan leik gagnvart verkalýðshreyfingunni? Er það virkilega ekki meining ríkisstj. að standa við þau fyrirheit sem gefin hafa verið án tillits til þess hvernig fer um afstöðu verkalýðsfélag­anna í landinu, hvort það verða 10, 20, 30, 40 eða 90% þeirra sem samþykkja þessa samninga?

Ég tel að óhugsandi sé með öllu að ríkisstj. haldi á málum með þeim hætti sem yfirlýsingar forsrh. hafa gefið í skyn og sem reyndar hefur líka komið fram í máli formanns Sjálfstfl. þar sem hann talar um að hin einstöku félög megi ekki tefja framgang þessara ráð­stafana.

Í annan stað vil ég sérstaklega gera það að umræðu­efni hvernig það samrýmist hjá hæstv. ríkisstj. að greiða sérstaklega fyrir því að gerðir séu kjarasamningar upp á 5+2+3+3% við launþega innan Alþýðusambands Ís­lands en ætla ekki, ef marka má yfirlýsingar fjmrh., að bjóða launþegum opinberra starfsmanna samsvarandi hækkanir. Hvernig samrýmist það hjá ríkisstj.? Telur hún að opinberir starfsmenn séu annars flokks starfs­menn eða hefur ríkisstj. kannske ekki fjallað um málið? Ég vildi gjarnan beina því til hæstv. forsrh. hvort hann sé e.t.v. ekki sömu skoðunar og fram kemur í viðtali við hæstv. fjmrh. í dag um að ekki eigi að bjóða sömu samninga eins og ASÍ hefur boðið. Er það skoðun forsrh. að bjóða eigi Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja það sama eða er hann sömu skoðunar og fjmrh. um að opinberir starfsmenn verði að vera í einhverju öðru þrepi, einhverjir annars flokks limir í þessu þjóðfélagi? Ég held að ljóst sé að á undanförnum árum hafi það verið reglan að þessir aðilar, Alþýðusam­bandið og BSRB, fylgdust að og að ríkið hafi sætt sig við að bjóða Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja það sama og samið hefur verið um á hinum almenna vinnu­markaði hjá Alþýðusambandi Íslands. Er hugmynd ríkisstj. að víkja nú algerlega út af þeirri braut? Við því vildi ég gjarnan fá svör hjá hæstv. forsrh.

Um framkvæmdina hefur þegar verið spurt, hvaðan eigi að taka þetta fé. En líka má spyrja: Hvenær er hugmyndin að þetta komi til framkvæmda hjá ríkisstj.? Sumt af því tengist að vísu afgreiðslu skatta en annað ekki, t.d. að því er varðar gamla fólkið í landinu. Þá vil ég sérstaklega spyrja ríkisstj. að því hvort hún telji það sæmandi og hvort það sé virkilega ekki meining hennar að gera neitt meira fyrir gamla fólkið í landinu en fram hefur komið í þessum svokallaða samkomulagsgrund­velli. Ég minni á að kjör ellilífeyrisþega og öryrkja hafa rýrnað um 24–28% á seinustu 12–14 mánuðum. Telur ríkisstj. virkilega að það eina sem þurfi að gera í því sambandi sé að hækka tekjutryggingu um 10%? Það er nú lítill hluti af þeirri kjararýrnun sem þetta fólk hefur orðið fyrir.

Í annan stað vil ég minna ríkisstj. á að það er fjöldi af gömlu fólki sem nýtur sem betur fer greiðslna úr lífeyrissjóðum. Afkoma þessa fólks, sem er þá ekki á tekjutryggingu, hefur rýrnað jafnmikið og þeirra sem á tekjutryggingunni eru. Ellilífeyririnn sem greiddur er úr Tryggingastofnun ríkisins ætti einmitt að vera sá stuð­púði sem væri til þess að draga úr þessari kjararýrnun. En hann hefur rýrnað um þessi sömu 24–28%. Nú er ekkert minnst á hann. Er ekki meining ríkisstj. að koma til móts við þetta fólk líka og hækka ellilífeyrinn yfir línuna sem nemur þeirri kjaraskerðingu sem átt hefur sér stað? Ég verð að segja fyrir mína parta að ég get ekki skilið hvers gamla fólkið á að gjalda ef svo fer fram sem horfir.

Að lokum vil ég sérstaklega gera að umræðuefni það frv. sem nú hefur með miklum asa séð dagsins ljós um breytingar á vísitölugrundvellinum. Það er mikill asi á því einmitt núna. Er það hugmynd ríkisstj. að þetta mál eigi að afgreiða nú einmitt þegar verið er að fást við þessa kjarasamninga? Er hér um einhvers konar leyni­samkomulag að ræða innan ríkisstj. eða við einhverja aðila utan þings eða er hér hugmyndin að fela með einhverjum hætti það að tekið sé með annarri hendinni það sem gefið er með hinni? Vill hæstv. forsrh. gefa okkur skýringar á því hvers vegna einmitt nú sé ástæða til þess að afgreiða þetta frv., hvorki fyrr né síðar?

Að lokum, herra forseti, vildi ég sérstaklega spyrja að því hvort ríkisstj. telji það samkomulag sem hún hafi gert og ætli hugsanlega að standa við ekki vera afskipti af kjarasamningum. Ríkisstj. hefur talað mikið um það að undanförnu að aðilar vinnumarkaðarins ætli að koma sér saman og hún ætlaði ekki að hafa nein afskipti af því. Ég vil spyrja ríkisstj. hvort hún telji að þetta boðorð hafi verið haldið eða hver mörkin séu varðandi afskipti, ef þetta eru ekki afskipti af kjarasamningum, hvar mörkin liggi þá. Við þessu vildi ég gjarnan fá svör líka.