23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3123 í B-deild Alþingistíðinda. (2711)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka þátt í mjög almennum umr. um þau efni sem hér hafa verið rædd í dag, heldur bera fram fsp. um eitt ákveðið og að mínu viti mjög mikilvægt atriði. Ég get þó ekki stillt mig um að segja nokkur orð vegna ummæla hv. þm. Þorsteins Pálssonar, formanns Sjálfstfl., sem talaði rétt áðan, þar sem hann lætur orð falla um að full ástæða sé til að taka til endurskoðunar þá yfirlýsingu sem ríkisstj. gaf um mjög takmarkaðar aðgerðir til úrbóta fyrir þá lægst launuðu í landinu, að þetta verði tekið til endurskoðunar, voru hans orð, ef eitthvað af verkalýðsfélögum sætti sig ekki við þá samninga sem gerðir hafa verið. Þetta er að mínu viti mjög alvarleg yfirlýsing. Ég held að ekki sé hægt að orða það öðruvísi en svo að þarna sé haft í hótunum við þau verkalýðsfé­lög sem eru að halda sína fundi þessa daga. Væri kannske gaman að vita, vegna fólksins sem myndar Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og hefur fengið þau svör sem það hefur fengið frá hæstv. fjmrh.: Á kannske líka að draga yfirlýsingu ríkisstj. til baka ef þetta fólk neitar að fallast á þá kosti sem hæstv. fjmrh. hefur boðið því.

En það er annað sem ég vildi spyrja um og það varðar þann hóp í landinu sem hefur sér til lífsframfæris ellilífeyri með tekjutryggingu og í sumum tilvikum heimilisuppbót. Ég hygg að fsp. ætti að réttu lagi að komast til eyrna hæstv. heilbr.- og trmrh. Ég sé hann ekki hér í salnum, en ég tek fram að ég get ósköp vel sætt mig við að spurningunni verði þá svarað af hálfu forsrh. eða fjmrh., sem öðrum spurningum hefur verið beint til.

Það hefur komið fram að í þeim kjarasamningum sem nú hafa verið gerðir er gert ráð fyrir að tekjutrygging til hinna allra lægst launuðu á vinnumarkaðinum hækki um 15.5%. Við vitum að það kom fram í könnun á kjörum láglaunafólks, sem birt var á vegum kjara­rannsóknanefndar fyrir fáum vikum, að sá hópur á vinnumarkaðinum sem tekjutrygging hefur náð til er ákaflega lítill. Hann verður að vísu eitthvað aðeins stærri nú þegar 15.5% hækkunin kemur til, en samt sem áður aðeins örlítið brot af fólkinu í verkalýðsfélögunum yfir landið í heild. En það er annar hópur í þessu landi sem líka lifir á tekjutryggingu. Það er sú tekjutrygging sem ekki er borguð af atvinnurekendum í landinu, heldur úr þeim sjóði sem hæstv. fjmrh. Albert Guð­mundsson hefur í vörslu sinni og telur sig vilja passa ákaflega vel. Þetta fólk hefur ekki haft mikið fé sér til lífsviðurværis að undanförnu ekki einu sinni þær tæplega 11 þús. kr. á mánuði sem nú er verið að hækka um 15.5% hjá láglaunafólki á vinnumarkaðnum og mátti ekki minna vera. Þetta fólk hefur haft sér til lífsviður­væris á undanförnum mánuðum aðeins liðlega 8 þús. kr., ellilífeyri + tekjutryggingu + heimilisuppbót, og ekkert annað. Kjör þessa fólks hafa á síðasta tæpa ári síðan hæstv. núv. ríkisstj. tók við versnað mjög alvar­lega. Það er öllum kunnugt. Og hvað á að gera fyrir þetta fólk nú? Á það að fá lágmarkshækkun upp á 15.5%, eða eiga þessir verst settu viðskiptavinir ríkisstj. og þá sérstaklega hæstv. fjmrh. Alberts Guðmunds­sonar bara að fá helminginn af þessum 15.5%? Ef hægt er að taka það sem stendur í Morgunblaðinu í gær eins og það er skrifað, þá er greinilegt að þetta fólk á ekki að fá nema rétt í kringum 8% í hækkun á þeirri heildar­greiðslu sem það hefur fengið frá Tryggingastofnun ríkisins, þ.e. 5% á ellilífeyrinn, 10% á tekjutrygging­una, 10% á heimilisuppbótina, það er samtals um 8% á heildargreiðsluna.

Hæstv. forsrh. sagði úr ræðustól áðan að þó sé alveg öruggt að ríkisstj. muni nú ekki gleyma gamla fólkinu. Hæstv. forsrh. hefur viðhaft svipuð ummæli á undan­förnum mánuðum meðan kjör þessara verst settu þegna þjóðfélagsins hafa verið að fara niður úr öllu valdi, þannig að það hefur varla fyrir salti út á þann marg­fræga graut sem hæstv. forsrh. hefur talið fullgott að það hefði til matar. Og spurning mín er þessi: Er hæstv. trmrh. eða, eftir atvikum, hæstv. forsrh. tilbúinn til þess að gefa um það yfirlýsingu hér að þetta fólk, elli- og örorkulífeyrisþegar sem njóta tekjutryggingar og heim­ilisuppbótar, fái nú þegar samhliða verkafólkinu á lægstu laununum alla kjaraskerðinguna bætta, eins og hv. þm. Kjartan Jóhannsson minntist hérna á áðan? Ég væri að vísu fylgjandi því. En ég skal fara vægar í sakirnar og ég spyr bara um þetta eitt: Er hægt að fá yfirlýsingu um að þetta fólk, sem úr minnstu hefur að spila, fái nú þegar 15.5% ofan á þær greiðslur sem það nýtur nú frá Tryggingastofnun ríkisins?