23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3124 í B-deild Alþingistíðinda. (2714)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Mér hefur borist til eyrna að hv. 7. þm. Reykv. og líklega líka virðulegur 3. þm. Reykv. hafi saknað mín mikið þessa þrjá virku daga sem ég hef verið fjarver­andi og þykir mér vænt um það. Ég veit þá að konan mín var ekki ein um það. (Gripið fram í: En Lucy?) Já, líklega Lucy. — Við skulum ekki móðga dýrið með því að bendla það of mikið við þá þm..sem ég gat um áðan. (Gripið fram í: Eða konuangann.)

Alþb. er nú farið að fara nokkuð út fyrir umr. með frammískotum eins og þessu, en það er ekkert fyrir neðan virðingu þeirra svo að ég tek það ekki nærri mér. Hitt er svo annað mál hvað farseta finnst um slík frammíköll.

En það er það furðulegasta að Alþb. hefur í dag eins og oft áður, og ég vitna í myndatökur og ummæli sem birst hafa í Þjóðviljanum, málgagni Alþb., kynnt sig sem samtök sem tala máli verkalýðs. Er það rétt? Er Alþb. opinberlega sá aðili sem kemur fram fyrir hönd verkalýðssamtakanna í baráttumálum þeirra? Ef ekki, hvers vegna haga Alþb.-menn sér eins og sjálfskipaðir forustumenn verkalýðssamtakanna í launamálum?

Nú vitum við öll að verkalýðshreyfingin samanstend­ur af fólki úr öllum stjórnmálaflokkum. Það hlýtur að vera nokkurn veginn sama hlutfall innan verkalýðs­hreyfingarinnar eins og dreifist almennt á stjórnmála­flokkana. Það væri gaman að fá um það yfirlýsingu frá formanni Alþb., hv. 3. þm. Reykv., hvort fullyrðing­arnar sem eftir honum hafa verið hafðar eru réttar eða ekki. Er viðurkennt að Alþb. komi fram fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar á Alþingi og annars staðar sem málsvari hennar?

Ég heyrði fyrst núna af öllum þeim yfirlýsingum sem hafa verið gefnar í ríkisfjölmiðlum frá því á föstudags­kvöld fram til dagsins í dag. Ég veit ekki hvaða yfirlýsingar hafa verið gefnar af ríkisstj. Ég veit ekki annað en það sem hefur komið hér fram og forsrh. hefur kynnt sem samþykkt ríkisstj. En þar kemur fram svar við einni spurningu frá hv. 7. þm. Reykv.: Hvernig hyggst ríkisstj. fjármagna tilfærslur þær sem væntan­legur samningur ASÍ og VSÍ gera ráð fyrir, en það eru 306 – 330 millj.? Ég vona að ég hafi tekið rétt eftir að þetta væri fyrsta spurningin sem til mín var beint. Þá verð ég, með leyfi forseta, að fá að lesa upp samþykkt ríkisstj. þó að hún hafi þegar verið lesin upp áður af hæstv. forsrh., en hún hljóðar svo:

Ríkisstj. er í meginatriðum sammála Alþýðusam­bandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands um úrbætur fyrir þá sem við lökust kjör búa, dags. 21. febrúar 1984, og er tilbúin til viðræðna um sérstaka tilfærslu fjármuna innan ramma fjárlaga í þessu skyni.“

Ég sé ekki annað en að ríkisstj. hafi í fjarveru minni skammtað mér sem fjmrh. það hlutverk að færa til innan ramma fjárlaga það sem þarf til að mæta óskum verkalýðssamtakanna, þ.e. ASÍ, og vinnuveitenda líka. Ef það tekst ekki og sá árangur sem ríkisstj. hefur náð í baráttunni við verðbólguna er brotin á bak aftur og verðbólgan tekur sína gömlu stefnu, þá tel ég að stefna ríkisstj. hafi mistekist og ríkisstj. beri a3 láta fólkið í landinu ráða því, ekki einstaka æsingamenn, heldur fólkið í landinu, hvort það vill heldur að ríkisstj. haldi stefnuföst áfram baráttu sinni gegn verðbólgunni, vonandi með þeim árangri sem hún hefur náð hingað til, eða hvort fólkið í landinu vill aftur snúa á þá braut sem var farin undir forustu Alþb., þ.e. fara verðbólgu leiðina. Þetta verður fólk að mínu mati að velja um.

Mitt mat er að það á að kjósa ef stefna ríkisstj. heldur ekki.

Næsta spurning held ég að hafi verið um niður­greiðslur, hvað mjólk mundi hækka og hvort ég sem fjmrh. mundi vilja lýsa yfir að ráðagerðir hefðu ekki áhrif til hækkunar á matvælum. Var það ekki? (Gripið fram í.) Já, eða vöruverði almennt. Það segir sig sjálft. — Við skulum ekki blekkja hvert annað. Ef sú leið verður farin að nota hluta af niðurgreiðslum, kannske 1/3 af niðurgreiðslu á vöruverði landbúnaðarafurða, hlýtur það að þýða tekjutap fyrir framleiðendur búvara, fyrir bændur. Það getur vel verið að það þýði auknar útflutningsbætur. Það getur vel verið að það komi krafa um að bæta upp það sem ekki selst vegna þess að að sjálfsögðu hlýtur vöruverð að hækka. Þá er stefna ríkisstj. í mikilli hættu. Það hlýtur að vera blindur maður sem ekki sér það.

En það er annað verra. Þessa svokölluðu frjálsu samninga, og þá svara ég því sem kom í 2. spurningu, þessa samninga milli ASÍ og VSÍ álít ég ekki hafa verið eins frjálsa og stefna ríkisstj. gaf tilefni til að ætla að þeir yrðu vegna afskipta ríkisstj. að ósk viðsemjenda. Ég held að það hafi verið feill ríkisstj. að taka þátt í þeim á þann hátt sem gert var.

Þá kem ég að öðru, sem er kannske enn þá alvar­legra, að ég lít á þátttöku ríkisins í þessum samningum sem niðurgreiðslu á launum atvinnurekenda til fólksins. Það er á móti minni lífsskoðun. Við erum að taka af fjárlögum, af niðurgreiðslum til bænda, peninga til að auðvelda samninga milli verkalýðshreyfingarinnar og VSÍ. Það er ekkert annað en að taka á sig hluta af launagreiðslum sem atvinnureksturinn á að geta staðið undir og á að geta staðið undir þeim mun betur vegna aðgerða ríkisstj., vegna lækkandi tilkostnaðar almennt í rekstri fyrirtækja, með lækkandi vöxtum og lækkandi verðbólgu.

Ég get ekki, vegna þess að ég hef ekki tekið þátt í neinum teljandi umr. um þessa samninga, staðfest eitt eða annað um hvort samningarnir gildi fyrir þau verkalýðsfélög sem ekki samþykkja þessa samninga. Ég get því miður ekki svarað þeirri spurningu.

Nú er spurt og mikið talað um þessi 4%, ef kjara­samningar fara yfir 4% mark eigi ríkisstj. að segja af sér. Nú var þetta 4% mark sett um áramót við gerð fjárlaga, þannig að eftir því sem tíminn líður og ekkert skeður hækkar þessi prósenta kannske þó að hún jafnist út yfir árið. En ég hef lítið þannig á, að þegar hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh. töluðu um 6% hækkun í staðinn fyrir þau 4 %, sem er í forsendum fjárlaga, hafi þeir verið að tala um hinn frjálsa markað. Ég hef ekki látið eitt einasta orð falla um hinn frjálsa markað. Mér kemur hann ekkert við samkv. yfirlýstri stefnu ríkisstj. Ef hinn almenni markaður, í þessu tilfelli ASÍ og VSÍ, semur um meira er það hans mál svo lengi sem ríkissjóður eða breyting á fjárlögum kemur ekki þar inn í. Það virðist samt ætla að ske.

Það er orðið nokkuð reglulegt að virðulegur 7. þm. Reykv. kallar á afsögn mína af óþolinmæði. Ég verð að hryggja hann enn þá einu sinni í dag. Líklega verður hann hryggur í allan dag. Ef mér tækist nú það sem ríkisstj. hefur samþykkt, að færa til innan þess ramma sem fjárlögin gera ráð fyrir þannig að við þurfum ekki að grípa til yfirdráttar í Seðlabanka þess vegna, við þurfum ekki að auka prósentutölu erlendra lána í hlutfalli af þjóðarframleiðslu og við þurfum ekki að leggja nýja skatta á fólkið í landinu, ef við getum orðið við samningum ASÍ og VSÍ án þessara tilfærslna, án þess að verðbólgan fari af stað í öfuga átt við það sem hún hefur verið síðan ríkisstj. tók við, þá lít ég ekki svo á að ramminn sé sprunginn. — En þegar ég fer úr þessum stól, sem gæti hugsanlega orðið mjög bráðlega, vona ég að sá aðalmaður sem virðulegur 7. þm. Reykv. situr fyrir verði kominn til þings. Þá gætum við kannske labbað niður og tekið skák til að dreifa huganum.

Það var spurt hvort ég mundi bjóða BSRB sömu samninga og náðst hafa milli ASÍ og VSÍ. Ég get ekki gert það. Ég get ekki á þessu augnabliki gert það. Ég þarf að fara eftir samkomulagi innan ríkisstj. og við ASÍ og Vinnuveitendasambandið og sjá hvort ég get það, hvort ég get komið slíku boði inn í ramma efnahagsmál­anna. Ég veit ekkert um það í dag. Þetta verður að skoðast og það getur enginn ætlast til þess að einn ráðh. hlaupi til og svari slíkum spurningum fyrirvaralaust. Það þarf mikla vinnu fagmanna. Ég er ekki fagmaður á því sviði. Ég þarf að fá þá fagmenn sem hafa með þessi mál að gera til að kanna þau miklu betur áður en ég get svarað. Það getur vel verið að það mundi kæta virðu­legan 7. þm. Reykv. ef næsti ráðh. svaraði, ég skal ekkert um það segja.

Auðvitað eru í fyrirtæki, hvort sem það heitir íslensk þjóð og þjóðfélag eða er einkafyrirtæki, tengsl á milli tekna og útgjalda. Hvernig í ósköpunum ætlar virðu­legur 7. þm. Reykv. að reka nokkurn skapaðan hlut með útgjöldunum einum saman? Það væri gaman að sjá hann gera það. Ég veit það ekki, en mér var að detta í hug hvort það gæti leyst eitthvert sérstakt heimilis­vandamál Alþb. ef ég færi sem fyrst. En þeir verða að bíða í nokkra daga. (SvG: Ég hygg, hæstv. ráðh., að það mundi leysa heimilisvandamál hjá öðrum flokkum.) Það er hugsanlegt. En ekki hjá Sjálfstfl., ef þú ert með hann í huga. (SvG: Mér datt það nú í hug.) Já, ég hélt mig lesa það úr andlitinu.

Ég vil taka það fram að hinn margumtalaði rammi fjárlaga verður skoðaður og það sem innan hans er og reynt að athuga hvort hægt er að mæta BSRB, ASÍ og VSÍ á þann hátt sem ríkisstj. hefur samþykkt þó að sú samþykkt ,.sé mjög mikið á móti mínu skapi. Ég undirstrika að slík tilfærsla, vegna samkomulags milli atvinnurekenda annars vegar og verkalýðshreyfingar­innar hins vegar, er ekkert annað en niðurgreiðsla á launakostnaði fyrirtækjanna. Það er illa komið fyrir íslensku þjóðfélagi ef sú staðreynd blasir við að fyrir­tækin hafi ekki fyrir launakostnaði starfsmanna.

Hvar á að taka það fé sem verður notað til slíkra niðurgreiðslna? Ég vildi gjarnan fá svar við þeirri spurningu líka. Ég hef ekki sem fjmrh. það fé undir höndum. Og ég tek undir það með þm., þ.e. 3. þm. Reykn. og öðrum sem hér hafa tekið til máls, að auðvitað þurfum við að gera meira fyrir elli- og örorkulífeyrisþega en við höfum hingað til gert. Það er okkur til háborinnar skammar að gera það ekki. Ég tek undir það. En það er jafnmikið til skammar að í hvert skipti sem rætt er um launamál og allir syngja þennan sama söng „fyrir elli-, öryrkja- og lífeyrisþega“ þá skuli alltaf vera sterkari fylking með því að hækka jafnt eða hlutfallslega meira fyrir aðra. Það er aldrei hægt að koma þeim skilningi inn í íslenskt þjóðfélag, hvorki hér á Alþingi né annars staðar, þ6 mikið sé um það talað, að hækka minna ... (Gripið fram í.) Fyrirgefðu. (KÓ: Ætlar þú þá að standa að því að elli- og örorkulífeyris­þegarnir fái bara helminginn af þessum 15.5%?) Ég er ekki farinn að skoða dæmið það vel að ég geti svarað þessu núna. En ég skal gera það mjög bráðlega. En það næst aldrei samkomulag um að hækka minna eða ekki neitt hjá þeim sem hafa það betra. Sjónarmiðið er alltaf það sama hjá þér og hjá mér og hjá öllum: Það er sjálfsagt að gera ráðstafanir, en þær mega bara ekki snerta mig. — Þetta er sjónarmið sem kemur í veg fyrir að við getum gert meira fyrir þá sem þurfa virkilega á hækkunum að halda til að lifa eðlilegu lífi heldur en hina.

Ég er t.d. alls ekki sammála hæstv. forsrh. um það að vegna þess að árangurinn af störfum ríkisstj. er betri en við var búist, verðbólgan hefur lækkað meira en við áætluðum, sé hægt að gefa eftir í baráttunni gegn verðbólgunni. Ég mundi segja: Það á að herða róður­inn. Það á að herða róðurinn og við eigum að vinna bug á ekki bara verðbólguvandanum, heldur á vandamálum þjóðarinnar yfirleitt með hliðstæðum samtaka átökum og við höfum beitt gegn verðbólgu. En að það sé réttlætanlegt að fara aftur í verðbólguátt bara af því að við erum komnir lengra en við gerðum ráð fyrir, því er ég alls ekki sammála.

Ég held að ég hafi svarað þeim spurningum sem til mín var beint. Er það ekki rétt, virðulegi 7. þm. Reykv.? (ÓRG: Gjarnan má ráðh. tala áfram.) Já, já, ég veit það. En það var mikill söknuður í aths. formanns Alþb. áðan. Honum fannst dragast of lengi að ég kæmi upp í ræðustólinn. Ég veit að margt af því sem ég hef sagt er áreiðanlega nýtt, en þó mjög í þeim anda sem virðulegur 7. þm. Reykv. segir stundum þegar hann talar af viti. En það verður að vera svigrúm fyrir okkur, hvar sem við erum annars í flokki, til þess að viðurkenna að andstæðingurinn getur stundum haft nokkuð til síns máls.