23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3134 í B-deild Alþingistíðinda. (2717)

Umræður utan dagskrár

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að verða ekki langorður. Mig langar aðeins til að leggja áherslu á fáein atriði sem hv. 4. landsk. þm. vék reyndar að hér áðan. Má segja að hann hafi gert þeim atriðum allgóð skil sem ég tel máli skipta.

Af því að minnst var á sögukennslu áðan langar mig til að rifja upp dálitla sögu. Kerfisflokkarnir fjórir, Sjálfstfl., Framsfl., Alþfl. og Alþb., urðu til í upphafi sem umbjóðendur ákveðinna afla í þjóðfélaginu. Í stórum dráttum skiptust umbjóðendur þeirra í atvinnu­rekendur, bændur og verkafólk. Skipting þessara hagsmunaafla milli flokkanna var nokkuð skýr í byrjun. Reytur hafa reyndar ruglast dálítið með árunum, helst á þann veg að Sjálfstfl. og Framsfl. hafa tengst innbyrðis í gegnum sameiginlega hagsmuni í sjávarútvegi, iðnaði og verslun. Einnig hafa þessir tveir flokkar eignast ítök í verkalýðshreyfingunni. Alþfl. og Alþb. hafa lítil sem engin ítök í atvinnurekstri og það sem kynlegast er: þeir virðast vera að missa ítök sín í verkalýðshreyfingunni.

Það er a.m.k. mjög erfitt að túlka niðurstöðu þeirra samninga sem nú er verið að gera á annan veg en þann, að verkalýðshreyfingin hafi hreint og beint hafnað málflutningi Alþfl. og Alþb. A.m.k. er mjög lítið samhengi milli orða forustumanna þessara flokka og þeirra samninga sem nú er verið að gera, samninga sem óneitanlega eru, eins og hv. 4. landsk. þm. vék að, hreint og beint opinbert samþykki verkalýðsforustunn­ar við aðgerðum ríkisstj. frá því í fyrra. Það er það sem í raun og veru vekur manni hvað mestan óhug. Annað­hvort stafar þetta af máttleysi og ónytjungsskap verka­lýðshreyfingarinnar, eða einfaldlega af því að það er sami rassinn undir þeim öllum þegar öllu er á botninn hvolft. Það er ómaksins vert að staldra hér við og skoða leikendurna í því stykki sem hér er sett á svið. Og þá á ég ekki við hér í þingsölum eingöngu, heldur líka úti á vinnumarkaðinum. Hverjir eru að semja við hvern? Hvaða stjórnmálaflokkar eru umbjóðendur VSÍ? Hve stórt er umboð Sjálfstfl. og Framsfl. í verkalýðshreyf­ingunni? Auðvitað geta þessir flokkar ekki annað en hlýtt þegar vinnuveitendur og Alþýðusambandið krefj­ast niðurgreiðslna á kjarasamninga.

En hve stór er hlutur Alþfl. og Alþb. í þessum samningum? Tengsl þeirra við verkalýðshreyfinguna eru óumdeilanleg. Verkalýðsforustan hefur lagt mikla áherslu á hlut og ábyrgð ríkisstj. sem beins aðila að þeim kjarasamningum sem nú er verið að gera. Ríkisstj. var reyndar aldrei alveg samkvæm sjálfri sér. Hún hafði stundum lýst því yfir að hún hefði engan áhuga á þátttöku eða íhlutun í frjálsa samninga, en annan daginn hét það eitthvað annað. Nú lýsir ríkisstj. yfir vilja sínum til að taka þátt í því að fylla upp í einhver af þeim götum sem á þessum samningum eru. Þar með er niðurstaðan orðin hin gamla og hefðbundna lausn, sem við þekkjum af langri reynslu, þ.e. óverulegar kjara­bætur í samningum og svo félagsmálapakki. Átökum á vinnumarkaði hefur verið forðað með samhjálp allra, kaupmáttur launa miðað við seinustu áramót hefur verið tryggður út árið, ef gengið helst óþreyju. Kjara­skerðingin hefur verið lögtekin af öllum aðilum vinnu­markaðarins og svo er klórað í bakkann með aðstoð ríkisvaldsins í málefnum hinna lægst launuðu. Ef maður skoðar, eins og ég sagði áðan, leikendurna í þessu stykki, þá þarf enginn að verða neitt hissa. Samtrygging þessa flokkakerfis hefur leitt til þess að eina hagstjórn­artækið á Íslandi eru launþegar upp til hópa. Og því verður ekki breytt nema þessir sömu launþegar fái þá aðstöðu að geta samið beint við þá aðila sem þeir vinna hjá.