23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3139 í B-deild Alþingistíðinda. (2719)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjalla í máli mínu um það hvort rétt sé eða hafi verið rétt að ganga til þeirra kjarasamninga sem gerðir voru. Það er annarra hlutverk að fjalla um það og ákveða. Ég ætla ekki að hafa nein afskipti af því. Það er líka annarra hlutverk að meta hvort meira hefði verið hægt að fá en fékkst, t.d. með því að beðið hefði verið eftir niðurstöðum vinnudeilunnar í álverinu í Straumsvík. Það er líka annarra en mitt að meta það og ég ætla því ekki heldur að gera það. Það er líka annarra en mitt að meta hvort vilji sé til þess hjá félögum í verkalýðshreyf­ingunni að ganga til átaka eða ekki. Aðrir þekkja þar betur til en ég, aðrir eru færari til að meta það.

Ég leyfi mér hins vegar að varpa fram þeirri spurn­ingu hvort menn haldi að staðan verði betri eftir eitt ár í fátækt. Með kjarasamningunum fer ekki á milli mála að fátæktin á Íslandi hefur verið fest í sessi. Krafan um 15 þús. kr. lágmarkslaun fyrir dagvinnu náði ekki fram að ganga. Sama dag og borið var út til félagsmanna í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur félagsbréf með hjartnæmri forustugrein eftir formanninn um nauðsyn 15 þús. kr. lágmarkskröfunnar boðaði þessi sami for­maður félagsmenn sína til fundar. Á þessum fundi lagði hann til að forustugrein sín næði ekki fram að ganga en laun fyrir dagvinnu yrðu ákveðin 11 600–12 600 kr. á mánuði..Í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur eru skráðir rúmlega 10 þús. félagar. Af þessum 10 þúsund­um voru rösklega 70 mættir til þess að samþykkja till. formannsins. 0.7% félagsmanna í V.R. ákváðu að stórum hluta félagsmanna skyldi haldið næstu 14 mán­uði undir fátæktarmörkum. Þetta varpar talsverðu ljósi á ástandið í verkalýðs- og stjórnmálaumræðu á Íslandi í dag.

Ég ætla að rifja upp fyrir ykkur eina athyglisverða staðreynd sem ég minnist ekki að hafa heyrt menn ræða um fyrr. Í sjónvarpinu var skýrt frá því fyrir nokkrum dögum hver úrslit hefðu orðið í kjarakönnuninni sem gerð var að tilhlutan Kjararannsóknarnefndar. Munið þið eftir því að fréttamaður sjónvarpsins lýsti því þá yfir að honum hefði ekki tekist að fá neinn úr lægst launuðu hópunum til þess að koma fram og tjá sig? Þetta fólk þorir ekki einu sinni lengur að taka til máls. Það á ekki lengur neinn rétt. Þess rödd fær hvergi lengur að heyrast. Það er smánarblettur á okkar íslensku þjóð hvernig að þessu fólki er búið. Þegar það er beðið um að tjá sig um kjör sín, bregða hönd fyrir höfuð sér, vogar það sér ekki einu sinni fram á völlinn. Stjórnvöld kölluðu til blaðamannafundar undir for­sæti hæstv. forsrh. til að kynna þessa kjarakönnun. Til hvers? Hvaða boðskap höfðu þau að flytja? Hvert var svarið við niðurstöðum kjarakönnunarinnar sem stað­festu fátæktina á Íslandi? Ekkert. Forsrh. hafði ekkert að segja annað en að lýsa niðurstöðunni. Fátæka fólkið á Íslandi var virði einnar fjölmiðlamessu hjá hæstv. forsrh. Hann hafði ekkert annað til málanna að leggja en að skýra frá niðurstöðunni í fjölmiðlunum. Þar með var hann búinn að friða sína samvisku.

Fátæktin hefur verið fest í sessi með þessum samning­um. Hún er fest í sessi með því að ákveða að atvinnu­rekstur á Íslandi skuli miðast við að greiða ekki nema 11 600– 2 600 kr. í mánaðarlaun fyrir fullt starf. Samþykkt hefur verið að hærri kröfur skuli ekki vera gerðar til þeirrar atvinnustarfsemi sem á að eiga sér hér framtíð og tilverurétt. Hvers konar atvinnurekstur er það sem menn eru með þessu að festa í sessi. Það er atvinnurekstur sem grundvallar starfsemi sína á starfs­kröftum fátæks fólks. Það er atvinnurekstur sem stend­ur og fellur með því að fólkinu sé haldið neðan fátæktarmarka. Það er atvinnurekstur sem gera mun Ísland að láglaunasvæði til frambúðar, fái hann að þrífast.

Vissulega er rétt að reynt er að fela þessa skelfilegu niðurstöðu, úr ekki bara þessum samningum heldur mörgum kjarasamningum fyrri ára, með litskrúðugum umbúðum. Það er rétt að auk samninganna við vinnu­veitendur um launakjör á vinnumarkaðinum hefur verið samið, ekki við þessa ríkisstj. heldur margar ríkisstj. um aðgerðir á félagsmálasviði til nokkurra hagsbóta fyrir ákveðna og afmarkaða hópa láglauna­fólks. Um þessar aðgerðir nú er fátt eitt vitað, m.a. ekki hvaðan peningarnir eiga að koma. Samkomulagið virðist ekki vera betur frá gengið en svo að ríkisstj. getur hafa sagst hafa efnt fyrirheit sitt með því einfald­lega að flytja fjárupphæðir úr einum vasa í annan hjá einum og sama launamanninum.

Þessi fyrirheit um takmarkaðar úrlausnir eru síðan gjarnan notuð til þess að leggja ofan á þau laun sem samið er um að eigi að greiða fólki fyrir starfsframlag þess. Þannig reikna menn út að einhver tiltekinn láglaunamaður, sem fær ekki nema 11 500–12 500 kr. fyrir vinnuframlag sitt í þágu íslensku þjóðarinnar, hafi í rauninni allt að því tvöfaldar þær tekjur. En þá gleyma menn jafnan að geta þess að verulegur hluti slíkra bókfærðra gervigreiðslna er fenginn með tilfærslu frá öðru láglaunafólki eða einföldum flutningi á fjármun­um á milli vasa hjá einum og sama manninum.

Vissulega er þetta ekkert einsdæmi núna. Svona samningar hafa oft áður verið gerðir. En reynslan af slíkri samningagerð er sú að með slíkum gervitekjutil­búningi hafa hin raunverulegu launakjör láglaunafólks­ins í landinu, þ.e.a.s. það gjald sem fólkinu er ætlað að fá fyrir vinnu sína, stöðugt farið lækkandi. Hafa menn athugað það að sjaldan á umliðnum árum hefur það verið fjarlægara en nú að láglaunafólk geti lifað af launum sínum? Krafan um mannsæmandi laun fyrir dagvinnu hefur fallið einhvers staðar niður á vegferð verkalýðshreyfingarinnar og sú krafa á kannske aldrei eftir að rísa aftur.

Þessi aðferð, sem fólgin er í því að fela samninga um lág laun með millifærslum á milli vasa þessa sama launafólks, er meginskýringin á því að fátæktin hefur á ný haldið innreið sína á Íslandi og er nú að festa sig í sessi án þess að menn hafi gert sér það fyllilega ljóst. Örugglega gegn vilja þeirra sem um þessi mál hafa fjallað hefur þessi aðferð við samningagerð orðið til þess að búa til hér á landi jarðveg fyrir atvinnustarfsemi sem byggir á lágum launum. Væri samið um laun í kaupi en ekki um laun í millifærslu þannig að gerð væri sú krafa til atvinnufyrirtækja í landinu að þau borguðu mannsæmandi laun hefði þessi jarðvegur fátæktarverk­smiðjanna aldrei orðið til. Við höfum nóg annað að gera við starfskrafta okkar sjálfra og starfskrafta barna okkar og barnabarna en að ætla þessu fólki að stunda launuð störf hjá fyrirtækjum sem byggja á því að fólkið sé fátækt. Við höfum nóg önnur tækifæri en svo að við getum byggt okkar framtíð á slíku.

Herra forseti. Eitt dæmi í þessu sambandi vil ég nefna. Nýlega urðu forstjóraskipti við verksmiðju Sam­bands hraðfrystihúsa í Bandaríkjunum. Þangað réðist maður sem stjórnað hafði í Hampiðjunni hér á Íslandi, sem talið er eitt blómlegasta fyrirtæki í veiðarfæraiðnaði þó víðar væri leitað en hér. Sá maður hafði getið sér mjög gott orð fyrir stjórnun. Ef marka má blaðafregnir var hann ráðinn til Bandaríkjanna fyrir 7 millj. kr. árslaun. En á hvaða launum starfar fólkið í þessari fyrirmyndarverksmiðju? Það á nú von á að fá 11 600– 12 600 kr. á mánuði fyrir full störf. Er þetta til fyrirmyndar? Er það svona framtíð sem við viljum búa okkar þegnum? Er það framtíð þar sem reynt er að tosa fólkið upp að fátæktarmörkunum, ekki upp fyrir fá­tæktarmörkin heldur upp að fátæktarmörkunum, með hvers kyns greiðslum úr ríkissjóði vegna þess að at­vinnustarfsemin í landinu er byggð á því að atvinnufyrir­tæki þrífist hér og blómstri sem byggja á því að fólkið sé fátækt sem þar vinnur? Hafið þið hugleitt t.d. að svo undarlega vill til að sú krafa sem reist var um 15 þús. kr. laun fyrir fulla dagvinnu er ígildi um 500 bandaríkjadoll­ara og það eru þau mörk sem notuð eru til að skilja á milli þróaðra og vanþróaðra ríkja í fjölmörgum fjöl­þjóðastofnunum? Þau ríki þar sem menn hafa undir 500 dollurum í árstekjur eru talin vanþróuð en þau ríki þróuð þar sem menn hafa hærri tekjur. Svo undarlega vill til að baráttan fyrir mánaðarlaunum Íslendings var háð um markið sem sett er milli þróaðra og vanþróaðra ríkja í alþjóðastofnunum. Á þeim fátæktarmörkum er láglaunafólkið á Íslandi. Þó svo að í öðru tilvikinu sé talað um þjóðartekjur á mann og í hinu tilvikinu sé verið að tala um lágmarkstekjur á mánuði er þetta tilviljun, en undarleg tilviljun samt.

Herra forseti. Það er meira sem er nú í vændum en þegar er fram komið. Þann 1, mars n.k. á skv. lögum allt búvöruverð í landinu að hækka. Sú hækkun kemur nokkurn veginn jafnsnemma og fólkið fer að fá útborg­aðar þær 11 600–12 600 kr. í mánaðarlaun sem nú var samið um. Mér skilst að nú þegar liggi fyrir að grundvöllur búvöruverðsins muni hækka um 3.5% án áhrifa þeirra samninga sem nú hafa verið gerðir á vinnumarkaðinum. Áttið ykkur á einu. Þegar er farið að reikna inn í hið nýja landbúnaðarvöruverð þá samninga sem búið er að gera á hinum íslenska vinnu­markaði áður en frá þeim er gengið. Á þessum fáu dögum sem eftir lifa af febrúarmánuði verður sú launahækkun, sem búið er að semja um en ekki búið að afgreiða, innreiknuð ekki bara í verðlagsgrundvöll búvöru hvað varðar launalið bóndans heldur líka til aukins kostnaðar við alla milliliðastarfsemi sem þar kemur fram. Öllum milliliðunum, öllum dreifingaraðil­unum, öllum vinnslustöðvunum verður heimilt eftir nokkra daga að hækka búvöruverðið eða fá verðið á landbúnaðarvörunni hækkað þannig að búið verði að reikna inn í verðið. að fullu til viðbótar við aðrar kostnaðarhækkanir sem orðið hafa á undanförnum mánuðum og vikum allar kauphækkanir sem enn eru ófrágengnar þannig að fyrirsjáanlegt er að þegar um næstu mánaðamót munu búvörur hækka að meðaltali um a.m.k. 7%, jafnvel allt að 10%. Hvað skyldi þá vera orðið eftir að þeirri 5% launahækkun sem verið er nú að afgreiða til launafólks? Skyldi mikið verða eftir í launaumslaginu strax þann 1. mars n.k. þegar búvöru­verðið mun hækka um 7–10%?

Menn hafa rætt hér nokkuð um afstöðu hæstv. fjmrh. Menn hafa rætt um hvort þessi svokallaði rammi um ríkisfjárlögin sé sprunginn eða ekki. Það liggur að sjálfsögðu alveg fyrir hvað þar mun gerast. Launafor­sendur fjárlagafrv. eru ekki bara reistar á launum opinberra starfsmanna, launaforsendurnar eru ekki síður reistar á forsendum um almenn laun í landinu vegna þess að allar framkvæmdir ríkisins til að mynda eru meira og minna unnar af fólki sem starfar skv. hinum almennu launasamningum.

Ef ég man rétt eru grófustu tölur úr ríkisfjárlögunum þær að um 15 milljarðar fara þar til rekstrar og um 2.5 milljarðar til framkvæmda, eða alls 17.5 milljarðar. Laun munu vera um 5 milljarðar og almannatryggingar um 5 milljarðar í þessu dæmi. Sú launahækkun sem nú hefur verið samið um mun því auka útgjöld ríkissjóðs um ekki minna en 250 millj. kr. Þar á móti má gera ráð fyrir að aukning á tekjum ríkissjóðs vegna aukinnar einkaneyslu verði ekki meiri en um 150 millj. kr. Þannig er þegar fyrirsjáanlegt að hæstv. fjmrh. er kominn í halla á ríkissjóði út fyrir ramma fjárlaganna um a.m.k. 100 millj. kr. Ef menn telja að 100 millj. í halla sé ekki að fara út fyrir rammann þá er mikil teygja í þeim römmum sem notaðir eru á heimill hæstv. forsrh. og eins víst að þær myndir sem í slíkum römmum hanga geti orðið allundarlegar í lagi.

En ég vek athygli á því hvernig ákvörðun ríkisstj. var tekin um staðfestingu á því að brjóta niður þá stefnu sem hæstv. fjmrh. hefur verið að reyna að fylgja fram í sinni fjárlagagerð og síðan. Menn þurfa ekki að vera neitt að karpa um það hér eða vera með getsakir um hver sé vilji og hafi verið stefna fjmrh. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir. Menn geta sannfært sig um það með því að skoða umr. á Alþingi og lesa blöðin. Mér býður í grun að íslenska sjónvarpið geymi enn vel og vendilega viðtal sem tekið var við hæstv. fjmrh. þar sem hann m.a. spurði fréttamanninn: Hefur þú nokkurn tíma staðið mig að ósannindum?

Það lá alveg ljóst fyrir og hefur legið hver er afstaða og vilji hæstv. fjmrh. Ég ætla aðeins að koma með eina litla tilvitnun um þau mál til að taka af öll tvímæli. 2. febr. s.l. skýrðu blöðin fyrst frá því að hæstv. iðnrh. hefði lýst því yfir að hann teldi ekkert áhorfsmát þó að farið yrði u.þ.b. 2% út fyrir ramma fjárlaganna í sambandi við samningagerð og samið yrði upp á 6% í stað 4% og forsrh. tók umsvifalaust undir þá afstöðu. Daginn eftir, þann 3. febr., hafði Dagblaðið & Vísir viðtal við hæstv. fjmrh. Það viðtal birtist undir fyrir­ sögninni „Steingrímur er tækifærissinni“ og var það haft orðrétt eftir hæstv. fjmrh. Hæstv. fjmrh. sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„„Steingrímur Hermannsson er allt of mikill tækifær­issinni. Hann hefur sjálfur samþykkt fjárlögin og for­sendur þeirra sem gera ráð fyrir 4% launahækkunum en ekki 6%. Ég vil enga hentistefnu og ég get ekki skilið ummæli forsrh. á annan veg en þann að ég eigi að fara úr ríkisstj.“ sagði Albert Guðmundsson fjmrh. er hann var inntur álits á ummælum sem höfð voru eftir Steingrími Hermannssyni í DV í gær.“

Og ég held áfram beinni tilvitnun, með leyfi hæstv. forseta:

„Albert Guðmundsson sagði að honum bæri að fylgja þeirri stefnu sem mörkuð hefði verið með fjárlögunum. Fjárlögin hefðu sett launahækkunum þann ramma að þær yrðu ekki meiri en 4% og ef þessi rammi yrði sprengdur þá væri stefna ríkisstj. líka sprungin og hún ætti þá að fara frá.“

Ég efast ekki um að þetta sé rétt túlkun á afstöðu hæstv. fjmrh. enda er hægt að finna henni stað í fjölmörgum öðrum tilvikum. En hæstv. ráðh. skýrir líka frá því hér hvað gerðist raunverulega. Hann segir nefnilega orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég vil enga hentistefnu og ég get ekki skilið ummæli forsrh. á annan veg en þann að ég eigi að fara úr ríkisstj.

Það var nefnilega lóðið. Hvenær var þetta samkomu­lag gert sem um er rætt? Þegar hæstv. fjmrh. var fjarverandi utanlands. Var hann látinn af því vita? Nei, hann las það fyrst í blöðunum í flugvélinni á leiðinni heim, grunar mig, eða hefur kannske ekki fengið af því fregnir fyrr en flugvél lenti í Keflavík. Var haft samráð við hæstv. fjmrh. um þá lausn að lofa tilteknum fjárveitingum úr ríkissjóði? Nei, það var ekki gert.

Hæstv. forsrh. skýrði frá því áðan að þess hefði verið óskað af aðilum vinnumarkaðarins að fá að ræða um þessi mál við ríkisstj. og hann hefði orðið við þeim óskum. Tókuð þið eftir því hvern hæstv. ráðh. tók með sér á þann fund? Það var ekki hæstv. fjmrh. af þeirri einföldu ástæðu að hæstv. fjmrh. var erlendis. Var það þá aðstoðarmaður hans sem átti að sjá um að framfylgja stefnu ráðh. á meðan hann var fjarverandi? Var hann kallaður til að vera forsrh. til ráðuneytis og sitja fyrir svörum á fundinum gagnvart aðilum vinnumarkaðar­ins? Nei. Aðstoðarmaður fjmrh., Geir Haarde, var hvergi nærri. Var þá e.t.v. til kallaður sá ráðh. ríkisstj. sem gegndi fjmrh.-embættinu í forföllum hæstv. fjmrh., þ.e. hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason? Nei. Hann var ekki heldur sóttur. Var þá kannske sóttur einhver kollega hæstv. fjmrh. úr ríkisstj., einhver annar ráðh. Sjálfstfl., til að tala við aðila vinnumarkaðarins og ganga frá málunum? Nei. Hver var sóttur? Fyrsti vonbiðill Sjálfstfl. um ráðherrasæti, formaður flokks­ins. Aðilar vinnumarkaðarins báðu um að fá að ræða við ríkisstj. Hæstv. forsrh. svaraði játandi. Hann mætti og formaður Sjálfstfl. sem situr utan stjórnar og er næsti vonbiðill flokksins í ráðherraembætti.

Herra forseti. Þetta er hin einfalda skýring. Þetta er skýringin á því að ekkert var við fjmrh. talað. Matthías Bjarnason hefði talið það skyldu sína að gera það ef hann hefði verið til kvaddur, maðurinn sem gegndi embættinu í forföllum ráðh. Geir Haarde hefði talið það skyldu sína hefði hann verið til kallaður, maðurinn sem á að vera hægri hönd hæstv. ráðh. Kollegar hæstv. ráðh. í ríkisstj. frá Sjálfstfl. hefðu talið það skyldu sína við hæstv. ráðh. (Gripið fram í: Nei.) Ég held að þeir hefðu talið það skyldu sína við hæstv. ráðh. að láta hann ekki koma svo heim til landsins að hann vissi ekki um þetta.

En það var einn maður í flokknum sem taldi það ekki vera skyldu sína að sjá um að hæstv. ráð. vissi hvað um væri að vera. Það var formaðurinn. (Gripið fram í: Steingrímur var búinn að skipta um fjmrh.) Það var nefnilega lóðið. Hæstv. forsrh. var búinn að skipta um fjmrh. Það var rétt sem hæstv. fjmrh. sagði í viðtali við DV þann 3. febr. og ég vitnaði til hér áðan þar sem hæstv. ráðh. sagði orðrétt:

„Ég vil enga hentistefnu og ég get ekki skilið ummæli forsrh. á annan veg en þann að ég eigi að fara úr ríkisstj.

Það var einmitt þannig, herra forseti, sem hæstv. fjmrh. átti að skilja ummæli hæstv. forsrh. Þegar hann ekki skildi þau þegar þau voru mælt undir rós skyldi þannig frá málum gengið að hæstv. fjmrh. gæti ekki annað en verið það ljóst til hvers var af honum ætlast.

Herra forseti. Mér hefur alltaf verið vel við hv. þm. Albert Guðmundsson enda höfum við átt ágætt sam­starf í þinginu. Mér er ljóst eins og öðrum þm. að hann vinnur erfitt starf. Hins vegar veit ég satt að segja ekki ef ég á að ráða honum heilt hvort ég á að ráða honum að halda áfram í ríkisstj. eða hætta. En það er eins gott að honum sé alveg ljóst, sem ég held honum sé, hvað það er sem forsrh. hans vill og hvað það er sem flokks­bræður hans vilja.

Herra forseti. Þorsteinn bíður enn.