23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3146 í B-deild Alþingistíðinda. (2721)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þessar umr. hafa nú staðið nokkuð lengi og fer að ljúka, þannig að ég ætla að stytta mál mitt frekar.

Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í að svara hv. síðasta ræðumanni, hv. 4. þm. Reykv. Hann spilaði gamla plötu sem er birt daglega í subbudálki Morgun­blaðsins sem heitir Staksteinar, árásir svívirðilegar á Alþb. og talsmenn og forustumenn þess. Þar hefur verið reynt, svo lengi sem ég man og tengur, að halda þeirri kenningu fram að Alþb. væri klofið í frumeindir og jafnvel smærri hluta og einkum og sér í lagi þó annars vegar í menntamenn og hins vegar verkalýðsfor­ustu.

Í þetta skiptið, eins og yfirleitt áður, gekk þessi kenning svartasta íhaldsins, sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson er fulltrúi fyrir hér á Alþingi og var hegnt fyrir sem slíkum á landsfundi Sjálfstfl., ekki upp. Í þetta skipti hefði hann orðið að hafa Guðmund J. Guð­mundsson, hv. 7. þm. Reykv., í hinum verri hópnum, menntamannahópnum sem svo er kallaður stundum. Staðreyndin er sú, að það hefur verið eitur í beinum íhaldsins á undanförnum árum og áratugum hvað Alþb. hefur verið sterkt.

Það eru ekki nema 15 ár liðin síðan því var lýst yfir í tveimur forustugreinum Morgunblaðsins að nú væri sú stund upp runnin að Alþb. yrði brátt úr sögunni. Þessi spádómur hefur síðan verið endurtekinn nokkrum sinn­um en það er engu að síður ljóst að Alþb. er verulegt stjórnmálaafl á Íslandi og ofstækisummæli hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar og hrakyrði hv. þm. um Alþb. geta þar engu breytt um.

Þessi umr. er auðvitað fyrst og fremst hafin vegna þess að það er verið að spyrja hæstv. ríkisstj. um tiltekin atriði varðandi kjaramálin. Auðvitað stendur íhaldið með atvinnurekendum í þessu máli. Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og Þorsteinn Pálsson eru auðvitað með umboð fyrst og fremst fyrir atvinnurekendavaldið í landinu. Auðvitað eru þeir í þessu máli eins og alltaf andvígir hagsmunum hins vinnandi fólks. Og það er sorglegt til þess að vita að fjöldi fólks í þessu landi, launafólks, hefur kosið þann stjórnmálaflokk sem þess­ir menn eru fulltrúar fyrir. Ég er hins vegar sannfærður um að sú kemur tíð að fólk áttar sig á því að Sjálfstfl. er ekkert annað en hagsmunagæsluaðili fyrir þrönga klíku fjármálavalds í þessu landi, sem launafólk á enga samleið með, ekki nokkra, enda verður launafólk og verkamenn hér í þessu landi að sitja langtímum saman og hlýða á hrakyrði íhaldsforustunnar, t.d. um há­launamennina í Straumsvík sem fá greiddar 14 400 kr. á mánuði fyrir venjulega 8 tíma vinnu. Þetta fólk liggur undir stöðugum árásum íhaldsins í landinu.

Það er eðlilegt að þessir bandingjar fjármálavaldsins og Vinnuveitendasambandsins skuli reyna að gera sjálfa sig dýrlega með árásum á Alþb., eins og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson gerði áðan. Og fyrir hverja eru þessir menn svo að tala hér í dag? Þeir eru spurðir tveggja spurninga. Hæstv. forsrh., sem er í vinnu hjá íhaldinu þessa dagana, er spurður: Fær launafólk þær félagslegu umbætur sem lofað hefur verið í yfirlýsingum ríkisstj. ef eitt verkalýðsfélag fellir samninginn? Og hvað segir forsrh.? Hann segir nei. Þá verður að endurskoða afstöðu ríkisstj.Forsrh., sem ásamt íhaldinu beitti sér fyrir því að svipta launafólk frjálsum samningsrétti með ofbeldislögum á s.l. ári, sem aldrei kom í ljós að væri þingmeirihluti fyrir, segir nú: Ef þið ekki samþykkið nákvæmlega þann samning sem hefur verið skrifaður upp milli Vinnuveitendasambandsins og forustu Alþýðusambandsins fáið þið ekki neitt. Hækk­un tekjutryggingarinnar um 10% verður af ykkur tekin, segir hæstv. forsrh. Hækkun vasapeninga aldraðra og öryrkja á stofnunum, sem er í yfirlýsingunni, verður af ykkur tekin. Hækkun mæðralauna verður af ykkur tekin. Hér hefur forsrh. Íslands komið fram með þvílíkum hroka, þvílíku hótunarvaldi gagnvart verka­fólki þessa lands að ég fullyrði að það hefur aldrei áður gerst að forsrh. landsins hafi hagað sér með þessum hætti. Og þetta er endurtekið af sérstökum hjálpar­manni og aðstoðarmanni hæstv. forsrh. í þessu máli, Þorsteini Pálssyni. Hann tekur undir og hefur forustu um þessar ósæmilegu hótanir í garð verkalýðssamtak­anna. Þetta eru sömu mennirnir og alltaf eru að tala um frelsi. Allt skal vera svo frjálst, markaðurinn svo frjáls, verkalýðshreyfingin svo frjáls og frjálsir samningar skulu það vera. En þegar fólk hugsanlega kæmist að annarri niðurstöðu en tilvonandi fjmrh. Þorsteini Pálssyni og hæstv. forsrh. þóknast, þá á að rífa af gamla fólkinu hækkun á elli- og örorkulífeyri, þá á að rífa af þessu fólki hækkun á vasapeningum, þá á að rífa af því fólki sem þarna er um að ræða hækkun á mæðra­launum. Ég fullyrði að aldrei hefur forsrh. á Íslandi reynt að storka verkalýðshreyfingunni eins og Steingrímur Hermannsson hefur gert, hæstv. forsrh. Aldrei hefur nokkur forsrh. hagað sér þannig í garð íslenskra launamannasamtaka. Og það gerir hann auðvitað í trausti þess að með honum standi gervallt hið stéttarlega vald afturhaldsins í landinu sameinað í Vinnuveitendasambandinu, Sjálfstfl., Morgunblaðinu og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Verslun­arráðinu og þessum valdaklíkum fjármagnsins sem ríkisstj. hossar og hampar.

Ég tel að þessi storkun hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar í garð verkafólks sé af því tagi að annað sé alveg óhjákvæmilegt, herra forseti, en að vekja mjög rækilega athygli á henni. Það hef ég gert nú og ég vona að sem allra flestir launamenn í þessu landi taki eftir þeim hroka SÍS — Verslunarráðs — valdaklíkunnar sem þarna kemur fram í ummælum hæstv. forsrh. Ég vona að launafólk taki sem flest eftir því að það er verið að segja: Þið eigið ekki að hafa vald til þess að hafa sjálfstæða skoðun, taka lýðræðislega afstöðu í þessu máli. Þið skuluð þegja og hlýða. — Það er það sem samvinnuleiðtoginn er að segja við Íslendinga þessa dagana.

Í öðru lagi var spurt um hvernig ætti að kosta þessar ráðstafanir. Hæstv. fjmrh. fór marga hringi í kringum sjálfan sig í þeim efnum í ræðunni sem hann flutti og endaði með því að spyrja þingheim: Hvernig á að kosta þetta, hvernig á að kosta þessar ráðstafanir? Hæstv. fjmrh. hafði engin svör í þeim efnum, vegna þess að afgreiðsla þessara mála fór fram meðan hann var í útlöndum meira og minna. Hann er svo lítilþægur að hann lætur formann ungra sjálfstæðismanna og aðra embættismenn í fjmrn. skammta sér þessa aðgerð þegar hann kemur heim og segir: Mér er úthlutað að færa til á milli fjárlagaliða debet og kredit. Reisn er yfir þessum manni, sem sagði framan í þjóðina í sjónvarpinu á dögunum: Ég stend alltaf við það sem ég segi. — Og stendur hann við það sem hann segir? Hvernig horfa þau mál nú? Hvað er það sem hæstv. fjmrh. ætlar að gera? Hvað er það sem fjmrh. ætlar að gera í þessari stöðu? Hvernig ætlar fjmrh. að ljúka þeim grínþætti sem hann hefur sett á svið fyrir þjóðina að undanförnu? Ætlar hann að hætta eða ætlar hann ekki að hætta? Fjmrh. ætlar örugglega að sjá til hvernig hlutirnir ganga til á næstunni og hann ætlar að hóta því á hverjum degi, í hverjum fréttatíma Ríkisútvarpsins og sjónvarpsins helst líka að hann sé að hugsa um að hætta. Hann ætlar aldrei að standa við það að hætta. Hann ætlar að hafa svona tvö, þrjú, fjögur mál undir í þessu efni. Hann ætlar að hafa kauprammann undir. Hann ætlar að segja: Ef launaramminn springur er ég farinn, ef verðbólgan byrjar aftur er ég farinn, ef hallinn á ríkissjóði eykst frá því sem nú er er ég farinn.

Hæstv. fjmrh. hefur núna nýlega sett met í halla­rekstri á ríkissjóði: 1 milljarður 157 millj. 31. janúar s.l. gagnvart Seðlabankanum. Það er ljótasta tala sem þar hefur sést um árabil. Hæstv. fjmrh. ætlar að segja: Hún má ekki hækka um krónu, þessi tala, þá er ég farinn. (Gripið fram í: Ert þú að bjarga Seðlabankan­um?) Og síðan er hæstv. fjmrh. búinn að finna eina tölu enn sem er sú, að fari erlendar skuldir upp í 60% af þjóðarframleiðslunni hætti hann. Nú eru erlendu skuld­irnar komnar upp í 59.6 eða 7% samkv. yfirlýsingu sem við höfum í fjh.- og viðskn. Nd. frá Seðlabankanum. Allt þetta ætlar fjmrh. að hafa undir og úr þessum tölum býr hann til ramma sem er eins og fótboltablaðra, svo ég nefni nokkuð sem hæstv. ráðh. er hugstætt og kunnugt. (Gripið fram í.) Ég þekki það vel. En hæstv. fjmrh. ætlar sér að haga seglum eftir vindi í þessum efnum og það er alveg bersýnilegt að hann ætlar enn um sinn að láta forsrh. skammta sér stefnuna á næstunni. Hann ætlar að láta forsrh. komast upp með að storka sér með þeim yfirlýsingum sem fram hafa komið frá honum og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vitnaði til áðan. Það er greinilegt að Steingrímur Hermannsson forsrh. er að reyna að reka hæstv. fjmrh. úr ríkisstj. Hann rembist við það eins og rjúpan við staurinn. Hæstv. fjmrh. segir á hverjum degi að hann sé að hugsa um að fara og veltir því fyrir sér aftur og fram hvort hann eigi nú að fara. Niðurstaða í þeim gamanþætti þessara hæstv. ráðh. liggur ekki fyrir, en einn maður bíður eftir stól og hann heitir Þorsteinn Pálsson. (Fjmrh.: Þú ert samherji forsrh.) Hæstv. ráðh. Albert Guðmundsson. Satt best að segja held ég að ekki væri viðkunnanlegt að ég gæfi ítarlega skýrslu um hvaða skoðun ég hef á þessu vandamáli eins og sakir standa, en það gæti ég gert síðar ef þörf krefur.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og fleiri spurðu áðan: Hvernig á að borga félagsmálapakkann sem hér er verið að tala um, félagslegar aðgerðir? Það hafa engin svör komið frá hæstv. fjmrh. En það kemur fram hjá hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni að það er verið að reikna eitthvað út hjá ASÍ og VSÍ. Og það er bersýni­legt að í fjmrn. og víðar er verið að reikna út að lækka niðurgreiðslur, að láta fólkið borga þær breytingar á tryggingabótum sem hér er um að ræða. Ég vil spyrja hv. þm. Stefán Valgeirsson, formann landbn. Nd.: Hefur Framsfl. samþykkt þá lækkun á niðurgreiðslum sem hér er á dagskrá? Er það ætlun þeirra framsóknar­manna að standa að því að hér verði um stórfellda hækkun að ræða á búvörum? Það er nauðsynlegt að þetta liggi líka fyrir.

Í þriðja lagi, herra forseti, ætlaði ég rétt að víkja að því að í ræðum sínum reyndu bæði forsrh. og Þorsteinn Pálsson að kenna Alþýðusambandinu um tvö tiltekin atriði í sambandi við þessa kjaramálaumr. Annars vegar var það, að í raun og veru bæri Alþýðusambandið fulla ábyrgð á hinum nýja vísitölugrundvelli og að hann væri tekinn hér inn. Ég vil spyrja hæstv. forsrh.: Lítur hann svo á að Alþýðusambandið hafi samþykkt hinn nýja vísitölugrundvöll?

Það kom einnig fram í máli hv. þm. Þorsteins Pálssonar að hann telur að aðilar vinnumarkaðarins eigi hlut að máli þar sem um er að ræða lækkun niður­greiðslnanna. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvort hann lítur svo á að Alþýðusambandið og Vinnuveitendasam­bandið muni við útfærslu þessara mála, eins og sakir standa nú, fallast á lækkun niðurgreiðslna.

Fjórða og síðasta atriðið, herra forseti, sem ég ætlaði að benda á í sambandi við þessa samninga er sú hörmulega staðreynd hvernig ýmsir hópar í þjóðfé­laginu fara sýnilega lakar út úr samningunum þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Þessir hópar eru í fyrsta lagi aldraðir, sem hv. þm. Kjartan Ólafsson spurði um áðan. Það er ætlunin að hækka elli- og örorkulífeyri um 8–9% meðan talað er um að lægsta kaupið hækki um 15.5%. Það er sem sagt aðeins helmingurinn sem á að ganga til gamla fólksins. Og ég spyr hæstv. forsrh. aftur þeirrar spurningar sem hv. þm. Kjartan Ólafsson spurði áðan: Er þetta rétt að ríkisstj. ætli að láta þessa viðskiptamenn trygginganna, verst setta fólkið í landinu, elli- og örorkulífeyrisþega, aðeins hafa 8–9% hækkun meðan aðrir eru með 15.5% í hinum lægstu launaflokkum?

Ég vek einnig athygli á því, að sú breyting sem gerð er á kjarasamningum samkv. niðurstöðum ASÍ og VSÍ með hinni miklu hækkun svokallaðrar tekjutryggingar án breytingar á viðmiðunartölum t.d. fyrir bónustaxta hefur í för með sér mun lakari stöðu kvenna á vinnu­markaði en verið hefur. Það kemur fram í viðtali við konur í frystihúsi í Þjóðviljanum í dag að þær eru að jafnaði eina viku að vinna sig upp í tekjutrygginguna áður en bónusinn fer að skila nokkrum sérstökum tekjum. Með þessu móti er verið að setja konur, fjölmennasta hóp launafólks í frystiiðnaðinum í landinu, í mun lakari stöðu gagnvart því að mörgu leyti slæma launakerfi sem bónusinn er. Það er hraklegt til þess að vita að þetta skuli gerast á sama tíma og umr. um launamál kvenna hefur verið háværari, sem betur fer, að undanförnu en nokkru sinni fyrr. Það er greinilegt að því miður hafa menn kosið að skella skollaeyrunum við þeirri umr. og láta sem ekkert sé. Af því verða konur auðvitað að draga þá ályktun að þær baráttuaðferðir, sem þær hafa beitt til þessa með fundum og aftur fundum og ráðstefnum og aftur ráðstefnum, duga ekki. Það þarf að efna til miklu víðtækari baráttu þar sem það kemur fram að konur, einkum í útflutningsatvinnugreinunum, ráða úrslitum um hvort þær greinar eru til og þar með hvort þessi þjóð lifir eða ekki.

En það er einnig athyglisvert, herra forseti, að horfa framan í að í þessum kjarasamningum skuli það fyrst gerast að það er verið að lækka kaupið á unglingunum, á unga fólkinu. Fólk á aldrinum 16 og 17 ára á ekki að fá það sem kallað hefur verið fullorðinskaup í þessu landi og við þekkjum — mörg okkar a.m.k. Hér er verið að stíga 40–50 ár aftur í tímann.

Ég harma að það skuli vera hægt að benda á þessi þrjú einkenni þessara aðgerða, þ.e. gamla fólkið, konurnar og unga fólkið, sem með sérstökum aðgerð­um er sett til hliðar og látið gjalda þeirra ákvarðana sem hér er verið að taka, að ekki sé minnst á naglaskapinn gagnvart námsmönnum sem kemur fram hjá ríkisstj. Það er sérstaklega tekið fram að þeir og atvinnurekend­ur megi alls ekki fá þann tekjutengda barnabótavið­auka, svo ég tali tungumál fjmrn., sem hér er um að ræða. Þeir leggja sérstaka lykkju á leið sína í þessum graut hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar, yfirlýs­ingunni sem dagsett er 21. febr., þessum vellingi. Þar leggja þeir sérstaka lykkju á leið sína og segja: „Barna­bótaaukinn verði útfærður þannig, að þeir skatt­greiðendur fái hann ekki sem hafa möguleika á fram­færslu með öðrum hætti, svo sem vegna vinnu við eigin atvinnurekstur, af eignum eða námslánum.“ — Eða námslánum! Það þurfti með öðrum orðum að tryggja alveg sérstaklega að þeir sem eru að læra og mennta sig og þurfa að lifa af námslánum vegna þess að þeir hafa ekki aðrar tekjur fái þetta alls ekki, að sú ósvinna sé stöðvuð að þetta fólk fái þennan tekjutengda barna­bótaauka hæstv. forsrh. úr þeim vellingi sem þessi yfirlýsing er.

Niðurstaða umr. fram að þessu er sú, herra forseti, að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hafa ekki neitað því, það sé hugsanlegt, að fólk verði að verulegu leyti látið borga sjálft með minnkandi niðurgreiðslum þær umbæt­ur í félagslegum efnum sem heitið er í yfirlýsingu ríkisstj. Og í öðru lagi stendur hótunin: Ef ekki samþykkja allir fær enginn neitt. Og það er nákvæm­lega rétt, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur bent á bæði hér í dag og í gærkvöld, að það er verið að taka verst setta fólkið í landinu í gíslingu. Það er það sem samvinnuleiðtogarnir og afturhaldið í ríkisstj. eru að gera.