23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3151 í B-deild Alþingistíðinda. (2722)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson hefur dregið saman á mjög skýran hátt meginniðurstöður þessara umr. hvað snertir hæstv. forsrh. og formann Sjálfstfl.

Ég ætla þess vegna ekki að víkja mörgum orðum að því heldur fjalla nokkuð um hina sérkennilegu ræðu hæstv. fjmrh. í dag. Ég vil þó áður ítreka það sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði að tvennt stendur upp úr málflutningi ráðh. og formanns Sjálfstfl., að þeir ætla að beita launafólk hótunum. Þeir hafa lýst því skýrt yfir að samþykkt ríkisstj. verði tekin til endurskoðunar ef öll verkalýðsfélög samþykkja ekki, sem þýðir í raun og veru að Þorsteinn Pálsson, kröfugerðarmaður fyrir hönd hins frjálsa markaðar, eins og hann var hér í gærkvöld, er nú orðinn kröfugerðarmaður um meira miðstjórnarvald í málefnum vinnumarkaðarins en hér hefur heyrst í langan tíma. Það er eins gott að þessir herrar miðstjórnar og ríkisvalds á vinnumarkaðinum komi til dyranna eins og þeir eru klæddir, miðstjórnar­drottnararnir, sem vilja í reynd svipta hin frjálsu félög samningsréttinum. Í öðru lagi er einnig ljóst að ráðh. útiloka alls ekki að launafólkið eigi sjálft að borga þessar bætur.

Ég verð að segja við hv. þm. Karl Steinar Guðnason að hann var ærið þunnur sá útreikningur sem hann flutti hér um — (Gripið fram í: Var Karl þunnur?) — vísitölubæturnar og um áhrif niðurgreiðslnanna á vísi­tölu. Ég held að rétt væri að hann og félagar hans sem eru að skoða þessi mál átti sig í fyrsta lagi á því að síðan vísitöluneyslukönnunin 1978–1979 var framkvæmd hefur orðið allveruleg breyting á kjörum fólks í landinu. Sú neyslukönnun var gerð þegar tekjurnar voru hvað hæstar og hvað bestar í þessu landi. En nú hefur orðið tekjuhrap um fjórðung sem þýðir að neysluvenjur venjulegs fólks hafa gjörbreyst, eins og allir vita hér í salnum, á þessum tíma.

Í öðru lagi eru í þessum grunni, sem hann er að vísa til, teknar alls konar fjölskyldur á alls konar tekjubilum með laxveiðiútgjöld og utanlandssiglingar. Að leggja það hlutfall til grundvallar í matinu sýnir best að menn vilja ekki skoða raunverulega áhrifin á láglaunafólkið í landinu. Ef þetta á að vera til grundvallar sér maður hvers vegna hæstv. ríkisstj. hefur núna flutt frv. um breytingar á vísitölugrundvellinum. Það er eingöngu til þess að svindla á fólkinu í landinu, að taka þennan grundvöll í notkun á þessum tímamótum til þess að geta birt álíka svindltölur um áhrifin og sá ágæti þm., Karl Steinar Guðnason, rakti áðan. Ég ætla bara að vona að í þeim viðræðum sem fara fram um þessi mál átti menn sig á þessu atriði.

Einnig er rétt að hann og aðrir hafi í huga að ráðh. fá miklu meira út úr þessum kjarasamningum ef þeir ganga yfir BSRB og þau kjör sem þm. og ráðh. taka mið af, heldur en láglaunafólkið. Ráðh. Steingrímur Hermannsson og ráðh. Albert Guðmundsson fá um það bil helmingi hærri upphæð í sinn vasa eftir þennan kjarasamning en lægst launaða fólkið. Það eru nú öll ósköpin, það eru nú láglaunasamningarnir og samning­arnir þar sem hinir verst settu eiga að sitja fyrir. Hæstv. forsrh. getur státað sig af því að fá mun meira í sinn vasa eftir þessa samninga en lægst launaða fólkið.

Hins vegar er rétt að lágtekjufólkið fær aðeins meira en ýmsir sem eru á miðlungs- og lægri tekjubilunum. En þegar borið er saman við hæstu tekjurnar í landinu er alveg ljóst að þeir fá mun meira í sinn hlut eftir þessum samningum en láglaunafólkið.

Það er því nokkuð ljóst eftir þessar umr. að fólk getur átt von á því að það verði að verulegu leyti látið borga sjálft þessar bætur og að ríkisstj. hefur tekið upp nýja miðstýrða hótunaraðferð gagnvart samtökum launa­fólks.

Einnig er ljóst í þriðja lagi að ríkisstj. hefur engin áform enn sem komið er um að láta elli- og örorkulíf­eyrisþega njóta nema lítils hluta af þeirri tekjuaukningu sem lægst launaða fólkið fær. Enn á að skerða hlutfalls­lega kjör elli- og örorkulífeyrisþega sjálfsagt skv. þeirri kenningu, sem hæstv. heilbr.- og trmrh. túlkaði hér í þingsalnum í gærkvöld, að það fólk hefði nóga peninga enda væri það að velkjast um veitingahúsin um helgar, svo að notuð séu hans óbreyttu orð. Þegar hann var að lýsa því góða ástandi sem ríkti hjá ellilífeyrisþegum og örorkulífeyrisþegum og andmæla fullyrðingum okkar um bág kjör þessa fólks taldi hann við hæfi að lýsa því að það fólk væri að velta sér um veitingastaðina um helgar.

Herra forseti. Sögð er sú saga af hæstv. fjmrh. Albert Guðmundssyni, þegar hann var formaður Knattspyrnu­sambands Íslands, að hann hefði alltaf verið að hætta. (AG: Og hætti.) Og hætti loks eftir margra ára yfirlýs­ingaferil um að nú ætlaði hann að fara að hætta. Líka er alkunna að í borgarstjórnartíð hæstv. ráðh. var hann líka alltaf við og við að hætta. Við sem fylgdumst með málefnum Útvegsbankans meðan hann var formaður bankaráðsins fylgdumst líka náið með því að hann var alltaf að hætta þegar málefni Útvegsbankans bar á góma: hætti um næstu áramót, hætti í vor, hætti í haust, alltaf að hætta. Við þekkjum þá sögu vel. Ég veit ekki hve oft hæstv. ráðh. tilkynnti mér að hann væri að reyna að hætta í Útvegsbankanum. Þess vegna má segja að þessi ég-hætti-stíll sé í raun og veru ekkert nýr hjá hæstv. ráðh. (Gripið fram í: Hann er alveg hættulaus.) Já, hann er nefnilega líka alveg hættulaus, það er alveg rétt sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson segir, og hann er líka merkingarlaus. Ekki ber að taka hann neitt alvarlega. Hæstv. ráðh. sannaði það svo rækilega í dag að allar þessar yfirlýsingar hans eru bara eintómt grín, þær eru lítilfjörlegur fjölmiðlaleikur, kannske í hæsta lagi ábending um hvernig liggur á ráðh. í það og það sinnið. En sem stjórnmálalegur veruleiki skipta þær engu máli. (Gripið fram í.) Auðvitað vita allir hér í salnum, eins og rakið hefur verið, að þessi rammi, sem hæstv. ráðh. var alltaf að tala um á undanförnum vikum, fólst í launahækkunum fjárlagafrv. Hann fólst ekkert í því hvort útgjaldahlið fjárlaganna sem slíkra mundi aukast eða minnka heldur eingöngu í 4% ramm­anum, hvað launahækkanir snertir.

Nú hefur hins vegar hæstv. ráðh. fundið það upp til þess að geta setið áfram í stólnum, að hann hafi alls ekki meint svoleiðis ramma heldur hafi hann meint það hvort nýjum útgjöldum væri hægt að finna form innan fjárlaganna án þess að halli myndaðist á fjárlögunum. Það er auðvitað allt annar rammi en sá sem ráðh. var að státa sér af. Kannske má segja að ráðh. hafi verið sniðugur að binda setu sína í ráðherrastól við þetta rammatal því að, eins og hið ágæta fyrirtæki Ramma­gerðin hefur sýnt, hægt er að búa til alls konar ramma. Hægt er að búa til kringlótta ramma, meira að segja er hægt að búa til ramma í þríhyrning, hægt er að búa til breiða og mjóa ramma, hægt er að búa til ramma úr plasti, ramma út gylltum viði, stálramma og alls konar ramma. Ef mönnum líkar ekki einn rammi er bara hægt að fara í annan ramma o. s. frv. eins og allir þeir vita sem labbað hafa inn í Rammagerðina og beðið um að eitthvert tiltekið verk sé rammað inn. Það er þessi allsherjar rammagerð á yfirlýsingum sem hæstv. ráðh. hefur komið sér upp.

Hann sagði líka hér: Ja, ég átti alls ekki við ASÍ og VSÍ. Ég hef aldrei skipt mér af því, segir hæstv. ráðh. orðrétt. Ég hef ekki sagt orð um hinn frjálsa markað, hann kemur mér ekki við, sagði hæstv. ráðh. orðrétt. Hann kemur mér ekki við, hinn frjálsi markaður. Í sömu ræðunni var hann svo ægilega rogginn yfir því að forsrh. hefði falið honum að útfæra samkomulagið sem hinn frjálsi markaður hefði gert við ríkisstj., þetta sem ráðh. kemur ekki við.

Auðvitað var yfirlýsing hans um 4% tengd samning­um á hinum frjálsa markaði, það bera orðaskipti hans við iðnrh. og forsrh. skýrt vitni um. Þegar ráðh. sagði í Dagblaðinu og Morgunblaðinu að þeir væru að reka sig úr ríkisstj. átti hann ekki við BSRB-samningana, það var alveg skýrt. Hann átti við ASÍ- og VSÍ-samningana. Nú koma þeir honum allt í einu ekki við. Eða ber kannske að skilja þessa yfirlýsingu núna, þennan allra nýjasta ramma, svo að hann eigi við BSRB-samning­ana? Eða átti þessi 4% launarammi ríkisstj. bara ekki við neina samninga yfir höfuð?

Ef taka á það sem ráðh. sagði á einum stað í ræðu sinni mátti skilja það á þann veg að hann hefði neglt þessi 4% aftan í BSRB-samningana. Ef BSRB-samn­ingarnir færu út fyrir 4% rammann væri það gegn stefnu ríkisstj., þá segði hann af sér ef ríkisstj. segði ekki af sér. Og auðvitað fer ráðh. fram úr þessum 4% í BSRB-­samningunum. Það vitum við öll hér. Geir Haarde og Þorsteinn Pálsson og allt það lið verður búið að sannfæra hann á morgun, kannske í kvöld, um að það verði allt í lagi. Það samræmist þessum nýja hallaramma á fjárlögunum innan ramma fjárlaganna, þess vegna sé í lagi að samþykkja það. Ráðh. kemur hér upp og túlkar það eftir nokkra daga að þessir nýju samningar hafi nú ekki skapað halla á útgjaldaramma fjárlaganna og þess vegna sé í lagi að hann sitji áfram því að ríkisstj. muni þá geta staðið við hinn almenna efnahagsramma sem hún hafi sett hér.

Staðreyndin er nefnilega sú að ekkert mun gerast við ráðherraferil Alberts Guðmundssonar. Hann situr auðvitað áfram. (Fjmrh.: Það er ekkert annað, hvað sem verður.) Nei, það er alveg rétt. Það var mesti misskilningur hjá ráðh. að ég hafi eitthvað sérstaklega óskað eftir því að hann væri að fara úr þessari ríkisstj. Auðvitað vil ég helst að ríkisstj. fari öll frá. En að við berum í brjósti einhverja sérstaka ósk um að ráðh. fari, það er misskilningur.

En ráðh. var ekki búinn. Hann kom og sagði hér orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Samþykkt ríkisstj.“ — og þar átti hann við samþykktina sem forsrh. og Þorsteinn Pálsson gerðu — „er mjög mikið á móti mínu skapi.“ Hann sagði einnig að samningar þar sem ríkið tæki að sér að niðurgreiða laun atvinnurekenda væri orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, „á móti minni lífs­skoðun“. Þessi undarlegi ráðh. kemur og lýsir því yfir að grundvallaryfirlýsing ríkisstj. í kjaramálum sé á móti hans lífsskoðun. En auðvitað ætlaði hann að sitja áfram. Hvað er lífsskoðun á móti einum ráðherrastól? Samþykkt og stefna ríkisstj. er á móti skapi hans, móti lífsskoðun hans, móti grundvallarhugsjónum hans, en stóllinn er í samræmi við þetta allt saman og ráðh. situr áfram því að ráðh. er gersamlega stefnulaus. Þetta er bara eitt allsherjar blaður. Þessi ríkisstj. er með blaður­forsrh. og blaður-fjmrh.

Fljótlega kom í ljós á ráðherraferli hæstv. forsrh. á undanförnum árum að yfirlýsingar hans frá einum mánuði til annars og einu misseri til annars eru alger­lega marklaust plagg. Það sama er nákvæmlega að gerast með hæstv. fjmrh., að tæplega einu ári frá því að hann tekur við embætti er hann búinn að gefa svo mikið af yfirlýsingum, mótsagnakenndum og fjarstæðukennd­um, að niðurstaðan verður sú að almenningur hættir gersamlega að taka mark á því sem ráðh. segir. Ég tel þess vegna að það liggi alveg ljóst fyrir eftir þessa umr. að Albert Guðmundsson segir ekki af sér og þessi orðaleikur hans hér í ræðustól var eingöngu orðalag til að viðhalda smáspennu í fjölmiðlunum. Það var til að bakka hægt og bítandi út úr þessum miklu yfirlýsingum fyrri vikna.

Hæstv. ráðh. sagði fleira. Hann sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Það er illa komið fyrir íslensku þjóðfélagi ef fyrirtækin hafa ekki fyrir launakostnaði.“ Þetta er dómur hæstv. fjmrh. yfir þeirri launastefnu sem ríkisstj. staðfestir með samþykkt sinni 21. febr., að hún lýsti því að illa væri komið fyrir íslensku þjóðfélagi. (SalÞ: Var það ekki ef?) Nei, það var nefnilega ekkert ef, hv. þm. Salome Þorkelsdóttir. Það er skiljanlegt að þm. detti það í hug. (Gripið fram í.) Nei, það var ekkert ef. Hann sagði í fyrsta lagi: „Samþykkt ríkisstj. er mjög á móti mínu skapi.“ Hann sagði í öðru lagi að hér væri verið að niðurgreiða laun fyrirtækjanna. Hann sagði í þriðja lagi: „Það er illa komið fyrir íslensku þjóðfélagi, ef fyrirtækin hafa ekki fyrir launakostnaði.“ (Gripið fram í: Ef.) Ef, já, það vita allir að þeir hafa ekki fyrir því í þessu samhengi. Það er ekkert ef. Það er illa komið ef o.s.frv. Og það er staðfest í yfirlýsingu ríkisstj. Því hefur verið lýst hér í dag. Það eru mæðralaun og feðralaun og barnabætur og allt þetta sem má bæta við. Þm. er væntanlega kunnugt um það. Ef ekki er hægt að afhenda þm. yfirlýsingu um það sem ríkisstj. hefur staðfest.

Formaður Sjálfstfl., Þorsteinn Pálsson, sem hv. þm. Salome Þorkelsdóttir er í, hældi sér af því hér í salnum í gær að ríkisstj. hefði gert þetta. Hann sagði í dag að þetta markaði tímamót. En hæstv. fjmrh. segir að þetta lýsi því hvað illa er komið fyrir íslensku þjóðfélagi. Það er nefnilega nokkuð til í því að þessi samþykkt og þessir kjarasamningar staðfesta þá skoðun — og fjmrh. er nægilega heiðarlegur á þessum augnablikum í ræðu sinni til að viðurkenna það — að hér er verið að segja að svo illa sé komið fyrir atvinnulífinu í landinu eftir 9 mánaða valdaferil Sjálfstfl. og Framsfl. að þau geti ekki borgað launakostnaðinn í landinu.

Hæstv. fjmrh. sagði fleira í þessari makalausu ræðu. Hann sagðist ekki vera sammála forsrh. um það að vegna þess að einhver árangur hefði náðst í baráttunni gegn verðbólgunni væri núna í lagi að samþykkja aðgerðir sem ykju verðbólguna eitthvað, jafnvel þótt lítið væri. Hann er sem sagt ósammála þessu líka en hann ætlar engu að síður að sitja áfram.

Ég gæti haldið svona áfram, herra forseti, en ég tel ekki þörf á því því að í þessari ræðu hæstv. fjmrh. var fjöldinn allur af yfirlýsingum um að það sem ríkisstj. væri að gera væri á móti lífsskoðun hans. Því sem forsrh. væri að segja og gera og snertir grundvallarstefnu ríkisstj. væri fjmrh. algerlega á móti. Eitt væri svo andstætt hans skapi að hann gæti ekki staðið að því og þannig mætti lengi telja. Ráðh. sem tekur sjálfan sig alvarlega og segir það sem hæstv. ráðh. sagði í dag segir auðvitað af sér strax í dag. Hvernig á nokkur maður að geta verið í ríkisstj. sem er andstæð lífsskoðun hans, þegar forsrh. lýsir grundvallarstefnu ríkisstj. á þann veg að fjmrh. segir að hann sé algerlega ósammála. Hvernig er þetta hægt? Jú, þetta er hægt á þann einn veg að menn meta stólana meira en sannfæringu sína. Þess vegna er það nú þannig, hæstv. fjmrh. Albert Guð­mundsson, að það sannaðist sem ég sagði á miðvikudag í síðustu viku en hæstv. fjmrh. mótmælti svo digur­barkalega og ég vitnaði til í upphafi þessarar umr. í dag. Stóllinn reyndist nefnilega mjúkur og þægilegur og það skorti kjark til að standa við stóru orðin. Þessi mikla staðfesta, sem átti að vera á við allan þingheim, reyndist einfaldlega ekki fyrir hendi. Öll stóru orðin sem voru flutt í þessum sal s.l. miðvikudagskvöld í fyrri viku hafa reynst marklaus. Að þessu leyti hefur þessi umr. þjónað þeim ágæta tilgangi að allar þær yfirlýsing­ar sem hæstv. fjmrh. hefur gefið, tölusetningar tengdar setu hans í ráðherrastól, eru marklausar, hvort sem það eru 60% um erlendu skuldirnar, skuldirnar við Seðla bankann, 4% launahækkunarramminn eða útgjalda­rammi fjárlaganna.

Það er vissulega nokkuð mikill áfangi í þingsögunni að menn skuli ekki lengur þurfa að hlaupa upp til handa og fóta þó að þessi hæstv. fjmrh. láti frá sér fara slíkar yfirlýsingar. Menn geta bara byrjað rólega á að yppta öxlum og láta eins og ekkert sé vegna þess að þessi ferill ráðh., yfirlýsingaferill, er einfaldlega stormur í vatns­glasi, ekkert sem máli skiptir, ekkert sem neinar afleið­ingar hefur. Þess vegna held ég að hv. þm. Þorsteinn Pálsson verði að bíða lengi eftir því að fjmrh. Albert Guðmundsson fari úr ráðherrastól því að ræða hans í dag sýnir og sannar að ekki er til það stefnumál sem hæstv. ráðh. er svo mikilvægt að hann sé reiðubúinn að fórna ráðherrastólnum fyrir það.