23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3156 í B-deild Alþingistíðinda. (2723)

Umræður utan dagskrár

Kristjana Milla Thorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins segja hér nokkur orð vegna athugasemdar hv. 4. þm. Norðurl. e. og leiðrétta eitthvað af þeirri vanþekk­ingu og misskilningi sem kom fram í máli hans. Ég ætla að byrja á því að segja að hárskerar eru ekki í VSÍ og þess vegna tala ég ekki fyrir þeirra hönd. En það er rétt að hárgreiðslumeistarafélagið felldi þá samninga sem voru gerðir fyrir um það bil tveim árum að ég hygg. Í þeim var talað um að nemar í öllum iðngreinum fengju lágmarksdagvinnukaup fyrir allan sinn námstíma en það var þá tæpar 11 þús. kr. Þetta fannst hárgreiðslumeist­urum ekki aðgengilegt. Þeim fannst ekki rétt að nemi sem væri að hefja nám fengi sama kaup og nemi sem væri að taka sitt próf og væri fullnuma.

Það hefur alltaf verið þannig í hárgreiðslu, að samn­ingar við nema hafa verið gerðir eftir að samningar við sveina hafa verið gerðir. Þeir hafa fengið vissa prósentu af því sem sveinar hafa fengið. Undanfarin ár hefur hlutfallið verið þannig fyrir nema sem eru í starfsþjálfun jafnframt því að vera í skóla að þeir hafi fengið 70% af launum sveina fyrstu 6 mánuðina en hafa endað síðasta árið með 92% af launum sveina. Nemar verða sveinar og þeir eru í námi til þess að fá hærra kaup. Það væri kannske ráð að hækka heldur kaupið hjá sveinum því að þá fengju nemarnir hærri laun þegar þeir væru útlærðir. En hárgreiðslumeistarar hafa alltaf lítið á það, að nemarnir eru í námi þó að þeir séu í vinnu um leið. Þeir vinna náttúrlega sína vinnu, mæta á morgnana og eru skyldugir að vera á staðnum þegar þeir eru ekki í skóla. En það er mjög takmarkað sem hægt er að láta nema vinna. Þó að þeir séu jafnvel búnir að vera í verklegu námi í Iðnskólanum er ekki hægt að láta þá taka viðskiptavini og klippa þá og líta hár eða gera hvað sem er og taka fullt gjald fyrir.

Það er dálítið annað viðhorf í hárgreiðslu en ýmsum öðrum iðngreinum. Þegar verið er að sinna viðskipta­vini, þá er það gert fyrir framan hann en ekki á bak við kannske, eins og getur verið í öðrum iðngreinum. Ég tek bara trésmíði eða eitthvað annað til dæmis. Þá getur neminn verið á bak við og unnið kannske eitthvað og viðskiptavinurinn sér ekki hvað hann er að gera. En í hárgreiðslu og hárskeraiðn sér viðskiptavinurinn hvað er að gerast, svo að ég tali nú ekki um ef illa tekst til, þá sjá allir vinir og vandamenn og kunningjarnir og alheimur það líka og þá er nú ekki gott í efni. Og þó að hárgreiðslumeistararnir dragi það ekkert í efa að nemar þurfi að fá kaup eins og annað fólk, þá finnst mér þetta sýna lítilsvirðingu á þeirri kennslu sem nemum er veitt og virðingarleysi fyrir þeim tíma og fyrirhöfn sem meistarar leggja fram til þess að nemendur verði góðir sveinar. Og ekki nóg með það. Það þarf oft að nota ýmisleg efni til að þjálfa nemana. Hvergi kemur greiðsla fyrir það. En varðandi samningana, sem nú eru til umræðu í ýmsum félögum, get ég náttúrlega ekki svarað á neinn hátt til um þá. Í fyrsta lagi hefur ekki verið fundur í hárgreiðslumeistarafélaginu og auk þess hef ég alls ekki atkvæðisrétt þar svo að ég hef ekkert um þau mál að segja.

En herra forseti. Ég hef þá trú að þessi mál verði til lykta leidd þegar formaður Iðnnemasambandsins hættir að skipta sér af þeim, ég tala nú ekki um að koma með órökstuddar sögur og ýmsar fullyrðingar í blöðum sem hann þorir ekki að segja hvaðan eru komnar eða nefna nein nöfn í sambandi við. Ég held að ef hárgreiðslu­meistarar og hárgreiðslunemar fái að gera út um sín mál í friði, þá muni þetta enda með samkomulagi.