23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3157 í B-deild Alþingistíðinda. (2724)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Til mín hefur verið beint örfáum spurningum sem ég vil svara. Í fyrsta lagi spurði hv. þm. Kristín Halldórsdóttir hvort ríkisstj. hefði fjallað um jafnræði með konum og körlum. Já, ríkisstj. hefur gert það og m.a. samþykkt að hæstv. félmrh. flytji frv. um jafna stöðu karla og kvenna. Það mun mjög fljótlega verða lagt fram á Alþingi. Ef ég man rétt, þá hygg ég að það sé í 4. gr. þess frv. sem enn er undirstrikað að konur skuli fá sömu greiðslu fyrir sambærilega vinnu.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson spurði um gamla fólkið. Ég taldi mig hafa svarað því: Eins og ég sagði mun ríkisstj. að sjálfsögðu ekki gleyma gamla fólkinu. Ég fullvissa hv. þm. um að það fær sambærilega hækkun við þá sem aðrir fá í félagsmálapakkanum. Hvort endanleg útkoma verður nákvæmlega 15.5% skal ég ekki um segja. Allar þessar hugmyndir á eftir að vinna töluvert nánar en þær liggja fyrir núna.

Ég ætla ekki að eyða hér mörgum orðum í að svara hv. þm. Svavari Gestssyni og enn síður hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. Þó vil ég segja það um hinn fyrrnefnda að ég starfaði með hv. þm. í ríkisstj. í rúm fjögur ár og líkaði það að mörgu leyti vel. Mér fannst maðurinn að mörgu leyti vænn og vilja sinna sínum málum og vilja leysa efnahagsmálin, koma verðbólg­unni niður. Mér líkaði satt að segja vel það samstarf. Ég verð að segja að það olli náttúrlega miklum vonbrigð­um að hv. þm. fór aftur og aftur bónleiður til búðar til sinna herra og kom aftur með skottið á milli lappanna og gat ekki gert það sem hann sjálfur vildi gera í viðureigninni við verðbólguna. Vitanlega þótti manni leitt að horfa upp á þann ræfildóm. En ég verð að segja það, að sá maður sem talar hér aftur og aftur eins og hann talar er allt annar maður. Ég hef aldrei kynnst slíkum geðklofa. Hér rís hann upp og talar þvert um það sem hann hefur talað í 4–5 ár. Mætti rekja það í langri ræðu. Ég held að slíkt atferli geti ekki verið hollt fyrir heilsu þessa hv. þm.

En hann beindi til mín örfáum spurningum. Hann spurði hvort ég héldi því fram að Alþýðusamband Íslands hefði samþykkt hinn nýja vísitölugrundvöll. Það sagði ég aldrei. Ég sagði að nýr vísitölugrundvöllur hefði verið kynntur fyrir kauplagsnefnd, þar sem ASÍ á fulltrúa, og mér er kunnugt um að hann var ræddur á formannafundi. Mér er líka kunnugt um að fulltrúi ASÍ í kauplagsnefnd gerði athugasemdir og þær voru teknar til greina. En á formlega samþykkt hef ég aldrei minnst.

Hann spurði einnig hvort ég teldi að ASÍ og VSÍ muni fallast á lækkun niðurgreiðslna. Engin ákvörðun hefur út af fyrir sig verið tekin um það og verður fjallað um það í samráði sem ég nefndi hér áðan. En því er ekki að neita að á þeim fundi sem ég sat með fulltrúum og reyndar allri samninganefnd þessara aðila kom þetta fram frá VSÍ og var ekki andmælt af ASÍ. En ég skal ekkert segja um það hver endanleg niðurstaða verður þegar um þetta verður rætt.

Hv. þm. las úr dagblaði um útfærslu á þessum hugmyndum og talaði þar um grautinn minn. En það vill nú svo vel til að hann var að lesa það sem ég fékk í hendurnar frá ASÍ og VSÍ orðrétt. Þetta er nákvæmlega orðrétt það sem mér var afhent á umræddum fundi og hefur birst þannig í blaðinu. Það er ekki stafur þar í sem er frá mér kominn. Þetta var okkur afhent og við féllumst á að athuga þessa útfærslu og það er nú í gangi. Það er verið að athuga það svo að hann verður að tala við sinn fyrrv., finnst mér nú eiginlega að ég verði að segja, samstarfsmann Ásmund Stefánsson um þessi mál, því að ég fæ ekki skilið þær ræður sem hér hafa verið haldnar af hv. Alþb.-mönnum nema sem árásir á þann mann. Ég fæ ekki skilið þær öðruvísi.

Hv. þm. sagði réttilega að við sem erum í háum launaflokkum fengjum miklu meiri krónutöluhækkun en þeir sem eru lágt launaðir. Já, því miður. Þessir samningar eru alls ekki eins og ég hefði skrifað þá ef ég hefði ráðið. Ég hefði viljað hafa þak á svona samning­um, enga hækkun yfir ákveðnum launum og beina því þá miklu meira til láglaunafólks. En því miður hefur ekki verið hljómgrunnur fyrir slíku í þeim frjálsu samningum sem fram hafa farið. Ég skal ekkert fullyrða hvar það hefur strandað en því miður hefur það ekki orðið svo og er vissulega til umhugsunar.

Ég vona, herra forseti, að ég hafi svarað þeim spurningum sem fram hafa komið til mín.