23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3158 í B-deild Alþingistíðinda. (2725)

Umræður utan dagskrár

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Út af um­mælum hæstv. forsrh. áðan um hv. 3. þm. Reykv., um að hann væri nú allur annar maður en hann hefði þekkt hann áður, nánast umhverfður, þá verð ég nú að segja að í mínum augum er annar maður hér á þinginu miklu meiri hamskiptingur en hv. 3. þm. Reykv. Það er maðurinn Steingrímur „allt er betra en íhaldið“ Her­mannsson, sem einu sinni var, og er nú forsrh. einhverr­ar verstu íhalds- og afturhaldsstjórnar síðari tíma. (Forsrh.: Það sést af því að það er íhald víða, hv. þm.) Hann er hamskiptingur, sá maður. (Gripið fram í.) Það eiga kjósendur einnig eftir að koma honum í skilning um að þessi hamskipti hafi ekki farið fram hjá þeim. Hvort það líði einhverjir mánuðir eða nokkur ár þangað til, það verður sagan að leiða í ljós.

Úr því að maður er kominn að þessum íhaldsmönnum á annað borð er best að afgreiða annan í leiðinni. Sá er hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson. Hann kemur stundum hér upp í ræðustól og fær þar flog nokkur og gusar í allar áttir úr skálum reiði sinnar yfir þessa og hina, hverja sem fyrir verða í það og það skiptið, og einu sinni sem oftar urðum það við Alþb.-menn í dag. Þá rifjaðist upp fyrir mér að sá ágæti hv. þm. ætlaði sér að verða formaður Sjálfstfl. hér á einni tíð og þá flutti hann auðvitað eins og aðrir kandídatar framboðsræðu. Hún var reyndar ekki betri en það að hann fékk hina háðulegustu útreið og varð eins og allir vita hvorki formaður né varaformaður þess flokks. (SalÞ.: Þetta er ósmekklegt.) Talandi um ósmekklegheit ætla ég, herra forseti, með leyfi þínu, að lesa upp úr ræðu hv. þm. og sjálfstæðismanns Birgis Ísl. Gunnarssonar:

„Alþb. ætlar sér með öllum tiltækum ráðum að koma þessari ríkisstj. frá sem fyrst“, sagði hann þar og áfram: „Alþb. hafði mikil völd hér í þessu þjóðfélagi s.l. 5 ár. Því fundust völdin góð og það naut þess að geta komið sínu fólki fyrir í kerfinu og að geta spillt fyrir eins og í stóriðju og orkumálum. Ég held hins vegar að það hafi komið glöggt í ljós í stjórnartíð Alþb. og í öllum viðbrögðum nú eftir kosningar þar sem nánast er snúið við blaðinu í öllum málum á einni nóttu. Ég tel að þetta hafi leitt í ljós að Alþb. er siðspilltasta stjórnmálaaflið á Íslandi. Þar fara menn sem einskis svífast. Á þeim bæ er ekki skeytt um skömm né heiður. Mannorð, hamingja, einkalíf eru þeim framandi hugtök þegar pólitískir andstæðingar eru annars vegar. Engir brosa gleiðar þegar svo ber undir, en engir hafa rýtinginn í erminni jafnvel brýndan og forustumennirnir í Alþb. Öll þeirra saga sýnir að tilgangurinn helgar meðalið. Við sjálf­stæðismenn hljótum að bægja þeim frá valdastólunum um ókomna framtíð.“

Ég held, herra forseti, að ég láti þennan lestur nægja úr áðurnefndri framboðsræðu hv. þm. Birgis Ísl. Gunn­arssonar. Og það hefur þegar verið rætt um ósmekkleg­heit hér á þinginu. Ég þarf engu við það að bæta.

Ég vil þá segja vegna ummæla hans hér um að við hefðum engan rétt til þess að vera að tjá skoðun okkar á þeim kjarasamningum sem hér stendur til að staðfesta eða fella og þeim ráðstöfunum sem ríkisstj. lætur þeim fylgja: Ég sem maður sem er alinn upp í sveit og hef frá blautu barnsbeini unnið margvísleg störf, verkamanna­vinnu, við landbúnað, stundað sjósókn, ekið vörubíl o.s.frv., tel mig hafa fullt eins mikinn rétt til þess og hver annar að tjá mig og lýsa minni skoðun á þessum málum, þó svo ég hafi álpast í háskóla og tekið þar próf í jarðfræði og reyndar ekki íþróttamennsku eins og hv. þm. fór hér með ranglega, en það skiptir ekki öllu máli.

Við hljótum, úr hvaða stétt sem við erum, við hvað sem við höfum unnið, að hafa leyfi til þess í þessari stofnun að lýsa skoðun okkar á þessum samningum og þeim ráðstöfunum sem ríkisstj. ætlar að láta fylgja þeim.

Að síðustu vil ég fara nokkrum orðum um ræðu hv. 2. þm. Reykn. Kristjönu Millu Thorsteinsson, sem hér stóð upp og hélt uppi nokkrum vörnum fyrir félag hárgreiðslumeistara.

Í fyrsta lagi vil ég víkja að þeirri undarlegu staðhæf­ingu hennar að þetta verði nú allt í lagi ef formaður Iðnnemasambandsins hætti að skipta sér af þeim mál­um. Hvað eiga nú svona ummæli að þýða á hinu háa Alþingi? Formaður Iðnnemasambandsins má ekki skipta sér af málum þess fólks, hverra réttindi hann á að passa upp á og hverra samninga hann á að reyna að tryggja. Þetta eru furðuleg ummæli. Hverjum ber að hafa afskipti af þessum málum ef ekki einmitt fagfélagi þessa fólks? En ég veit hvað að baki liggur. Ég get getið mér til um hvað að baki liggur, að hárgreiðslumeistarar vilji einir og sér, hver á sinni stofu, horfandi framan í nemann titrandi á beinunum, hóta honum uppsögn, semja við hann um kaup og kjör. Það er einmitt þannig sem það hefur gerst. Það er meinið. Væri betur að stéttarvitund þessa hóps væri þannig, að þetta hefði ekki verið svona á undanförnum árum. Þá hefði ég trú á því að kjör þessa hóps væru nokkru betri er þau hafa verið undanfarið.

Það skiptir kannske ekki öllu máli að rífast hér um hvaða kostnað og ekki kostnað meistarar hafa af því að hafa þetta fólk í starfi hjá sér og vera að kenna því. Þó merkilegt kunni að virðast, þá fer ég einstöku sinnum til hárskera. Ég læt að vísu sjaldan greiða mér á slíkum stofnunum, en til hárskera fer ég þó og þar hef ég grun um að ég hafi verið klipptur af nemum sem ekki hafi verið komnir allt of langt í sínu fagi, og ég hef greitt fyrir það fullt verð.(Gripið fram í: Þú hefðir átt að fá afslátt.) Það er alveg rétt. En það var ekki um það að ræða í þessu tilfelli, enda fór ég ekki fram á slíkt.

En það sem mestu máli skiptir er þó það, að þessu fólki hefur verið boðið upp á að reyna að draga fram lífið jafnvel á innan við 5 þúsund kr. á mánuði undanfarna mánuði. Og svo vitum við að leiga á einni íbúð hér í höfuðstaðnum kostar kannske 7–8 þús. og þetta fólk hefur í sárafáum tilfellum, að því er best er vitað, nokkra möguleika á því að afla sér tekna annars staðar. Það er um það sem þetta snýst. Þetta fólk hefur ekki haft það framfæri sem Lánasjóður ísl. námsmanna býður sínu fólki og er margfalt hærra en þessu fólki er ætlað að lifa á.

Það var sagt hér að mjög lítið væri hægt að nota þetta fólk, það væri ekki hægt að láta það klippa af því að menn horfðu þar á verk þess strax og þeir stæðu upp og fengju spegilinn í hendur eða í síðasta lagi yrði hlegið að því þegar það kæmi heim. Þetta er ekki í samræmi við þá reynslu sem þeir menn hafa sem hafa skipt við slíkar stofnanir. Það hafa að vísu farið einhverjar sögur af því að nemar séu settir í að sópa fyrstu mánuðina, en þeir eru alla vega þarna í störfum. Og ef meistarafélagið getur ekki gert betur við nemana er eitthvað að gjaldskrá þessara manna. Það er ósköp einfaldlega það. Þá er eitthvað að gjaldskránni. Það þarf að fara ofan í saumana á því hvort það sé virkilega svo að þeir geti ekki greitt hærra kaup.

En vegna þess að launamál kvenna hafa verið mikið til umr. hér á Alþingi í dag og í öllu þjóðlífinu undanfarið er rétt að rifja það upp að í miklum meiri hluta er um konur að ræða í þeim hópi sem um er rætt. Og hér er um dæmigerðan kyngreindan láglaunahóp að ræða. Ég skora á þær konur sem hér eru inni og sitja á þingi að kynna sér kjör þessa hóps, því skv. upplýsing­um frá áðurnefndu Iðnnemasambandi eru í þessum hópi upp undir 150 konur, en einungis um 15 karlar. Hér er því verðugt verkefni fyrir það kvenfólk sem er að halda uppi merki jafnréttislaunastefnunnar fyrir hönd kvenna. Og ekki skal standa á mér að leggja þeim það lið sem ég má.

Ég vil að síðustu segja það við hv. 2. þm. Reykn., Kristjönu Millu, að það mun verða fylgst grannt með því að gefnu tilefni hvaða meðferð þessi samningur, sem nú hefur verið undirritaður og til stendur að greiða atkvæði um, fær hjá félagi hárgreiðslumeistara. Það skal ég sjá um ef ekki verða aðrir til þess.