27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

1. mál, fjárlög 1984

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja þessa umr. mjög. Mig langar annars vegar til að fara fáeinum orðum um fjárlagafrv. og hins vegar um þá lánsfjáráætlun sem nú hefur verið lögð fram.

Ég vil segja það fyrst, að ég segi það fjmrh. til hróss að hann skuli hafa lagt fram lánsfjáráætlun strax við 1. umr. fjárlaga. Á þetta hefur skort á undanförnum árum og það hefur verið til mikils baga — reyndar til vansa. Það er því mikil framför að ráðh. skuli hafa séð til þess að við fengjum nú lánsfjáráætlun jafnframt því sem 1. umr. um fjárl. fer fram.

Það er ljóst að í þessu fjárlagafrv. er leitast við að gæta aðhalds á ýmsum sviðum, og ég held að allir séu meira og minna sammála um að eins og árar hjá okkur núna sé enn meiri nauðsyn en nokkru sinni fyrr að sýna aðhald í ríkisrekstrinum. En það er ekki sama hvernig það er gert og ekki nema von að menn deili um hvort sá niðurskurður sem framkvæmdur er sé með réttum hætti eða ekki vegna þess einfaldlega að við höfum á því mismunandi skoðanir.

Þm. Alþfl. hafa látið koma fram þau sjónarmið, m.a. kom það fram hjá Karvel Pálmasyni fyrr í þessari umr., þm. Alþfl. af Vestf., að við værum ekki sammála því hvernig aðhaldinu væri beitt. Ég held að það sé nauðsynlegt að aðhaldið byrji að ofan og að stjórnarstofnanir ríkisins sýni fordæmi um það aðhald sem beita þarf. Það á þá auðvitað við um stjórnarskrifstofurnar, þær sem standa næst ráðherrunum, en þess sjáum við lítinn stað.

Í frv. eru ýmsar veilur. Þær hafa verið raktar - bæði að það sé í rauninni fjárvöntun þannig að dæmið gangi ekki upp, en líka held ég að það séu veilur að því er varðar sumar hugmyndir um aðhald og niðurskurð. Það eru gefnar ákveðnar prósentur sem eiga að vera til aðhalds, 2.5% á launum og 5% á öðru. Þetta hefur verið reynt áður og framkvæmdin hefur, held ég, ævinlega farið úr böndunum. En það er mikill vandi að framkvæma þetta og ráðh. og ríkisstj. er mikill vandi á höndum að standa við þetta markmið. Það dugar ekki að setja þetta niður á pappírnum. Það verður að sjá til þess að framkvæmdaaðilar séu fyrir hendi, sem sjá til þess á hverjum tíma að þetta gerist, og að ábyrgðin hvíli á ákveðnum aðila, ef menn ætla að framkvæma niðurskurð af þessu tagi. Ég veit ekki nema sumt af þessu gæti reynst óraunhæft. Hjá sumum stofnunum er annar kostnaður kannske fyrst og fremst rafmagn og hiti og það getur reynst erfitt að skrúfa fyrir hitann eða loka fyrir rafmagnið. En þetta er auðvitað mál hæstv. fjmrh. Hann hefur ákveðið að hafa þetta svona og það verður fylgst með því hvernig gengur að framkvæma sparnaðinn. Annað atriði í fjárlagafrv. sem veldur mér sérstökum áhyggjum er sú áætlun sem þar birtist um tekjuskatt einstaklinga og að hann skuli hækka um 28% milli áranna meðan sagt er að meðaltalslaunahækkunin sé 14.5%. Þessi hækkun tekjuskatts hjá einstaklingum er langt umfram það sem gert er ráð fyrir hjá félögum. Ef menn eru inntir eftir því hvernig á þessu standi, hvort þetta muni ekki þýða aukna skattbyrði og þannig stangast á við það sem stendur í fjárlagafrv., þá segja menn m.a. að það séu svo miklar eftirstöðvar frá árinu 1983, sem muni koma til góða 1984. Ég held að við ættum að hyggja að því hvernig þær eftirstöðvar hafa orðið til. Þær hafa orðið til vegna þess að greiðslugeta hefur ekki verið fyrir hendi. Þær hafa orðið til m.a. vegna lagaákvæða sem voru samþykkt hér á síðasta þingi, ef ég man rétt, frekar heldur en næstsíðasta, samkv. till. frá núv. hæstv. fjmrh. um að ekki mætti taka nema 75% af launum upp í skatta. Þannig hefur myndast hali, en kannske hafa þessi 25% líka orðið til þess að menn gátu skrimt miðað við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu.

En úr því að þessar eftirstöðvar hafa orðið til með þessum hætti hljóta menn að spyrja: Verður auðveldara að greiða á næsta ári það sem menn gátu ekki greitt núna. Mun kaupmátturinn vaxa svo mikið á árinu 1984 að líklegt sé að menn geti borgað frekar þá? Það verður ekki lesið úr þeim gögnum sem fyrir okkur liggja, hvorki í þjóðhagsáætlun né öðrum þeim áætlunum eða ræðum sem hafa komið frá opinberum aðilum og ráðh. í þessu máli.

Það er líka sagt að þetta megi skýra að hluta til með launaskriði, það verði launaskrið. Ansi er ég hræddur um að það séu einmitt ekki þeir sem erfiðast eiga með að greiða skattana sem muni njóta þess launaskriðs. Ég held að það verði ekkert stórkostlegt launaskrið hjá ýmsum láglaunahópum. Það verður ekki launaskrið heldur hjá ýmsum opinberum starfsmönnum, sem hafa átt í vandræðum með þetta. Ég held að það sé sama hvernig litið er á málin, þetta dæmi gangi í rauninni ekki upp.

Ég veit að hæstv. fjmrh. vill standa við það heit sitt að auka ekki skattbyrði af tekjuskatti, auka ekki skattbyrði í landinu milli áranna, svo ég held að það væri ástæða til þess fyrir hann að líta sérstaklega vel á þetta. Það hefur áður komið fyrir ýmsa ágæta fjmrh. að þeir hafa reiknað vitlaust og þeirra embættismenn að því er varðaði skattálagningu, eins og sumir þm. hér vita.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um fjárlögin, en langar til að víkja eilítið að lánsfjáráætluninni, líta á lántökurnar og þá sérstaklega á erlend lán.

Í framsöguræðu sinni áðan sagði hæstv. fjmrh. að það kæmi ekki til greina við núverandi aðstæður að auka erlend lán. Í lánsfjáráætluninni er staðfest að endurgreiðslur af löngum lánum séu áætlaðar 3 160 millj. á árinu 1984. Ef við ætlum ekki að auka erlend lán tökum við ekki meira að láni en endurgreiðslum nemur af þeim lánum sem við erum með og þurfum að standa skil á. Á bls. 11 í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1984 segir einmitt að endurgreiðslurnar séu 3160 millj. kr. Við ættum þess vegna, til þess að halda það heit að auka ekki erlendar lántökur, að taka þessa sömu upphæð að láni. En upphæðin í lánsfjáráætlun er ekki 3 160 millj. Hún er 4 500 millj. Og hún hefur líklega hrokkið upp um 500 millj. einhvern síðustu dagana vegna þess að það var vitað — kom fram í ræðu hæstv. forsrh. og var áður komið fram með ýmsum hætti — að menn miðuðu við 4 000 millj. fyrir viku eða tveim vikum. Kannske eru þær þrjár. En það er ekki málið. Við gerðum svona lánsfjáráætlun í fyrra líka. Og þá var talað um að erlend lán ættu á þessu ári að verða 3 500 millj. Það er talið að þau fari 2 000 millj. fram úr áætlun, upp í 5 500 millj. Þessar lánsfjáráætlanir hafa yfirleitt.ekki staðist nógu vel. Það skyldi þó ekki vera hætta á því að það yrðu örlög þeirrar lánsfjáráætlunar sem við erum nú með að hrökkva upp þó ekki væri nema um 500 millj.? Þá væru erlendu lántökurnar komnar í 5 000 millj. Þá værum við komin 1 800 millj. rúmar fram úr því sem við eigum að standa í skilum með í endurgreiðslum af lánum. Hér væri um að ræða aukningu á erlendum lánum á sama tíma og menn keppast við hver um annan þveran að segja að erlend lán megi ekki aukast.

Það er athyglisvert líka að skoða í hvað þessi erlendu lán fara og hvernig stendur á þessari aukningu. Ef litið er á hinn opinbera geira, sem svo er nefndur, opinberar framkvæmdir, kemur í ljós að þar er um verulega aukningu að ræða. Erlendar lántökur eiga að aukast vegna hins opinbera geira um 610 millj. á milli áranna. Það er nálega 30% aukning. Það er ekki vegna sveitarfélaganna. Erlendar lántökur vegna þeirra eiga að minnka um 240 millj. kr. Það er ekki vegna fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs. Þau eiga nánast að standa í stað. Það er vegna ríkissjóðs sjálfs, eins og fram kemur á bls. 12 í lánsfjáráætlun. Það er ríkissjóður sjálfur sem er að auka erlendar lántökur, ekki bara um 610 millj. heldur til viðbótar um þær 200 sem þær minnka hjá sveitarfélögunum.

Þetta er mjög alvarleg þróun. Menn hafa talað um að ekki væri rétt að halda áfram að reka atvinnuvegina á erlendum lánum. Þess vegna verði að hætta því. En eigum við þá að taka upp þann skikk í staðinn að reka ríkissjóð á erlendum lánum? Þá vísbendingu fá menn í þessari lánsfjáráætlun að stefnubreytingin sé í því fólgin. Í staðinn fyrir að halda áfram að reka atvinnuvegina á erlendum lánum skuli nú ríkissjóður rekinn á erlendum lánum í auknum mæli.

Þriðja atriðið varðandi lánsfjárlögin, sem ég vildi líta á, kemur fram í yfirliti yfir fyrirhugaðar erlendar lántökur á bls. 11 í lánsfjáráætlun. Þar er gert ráð fyrir að erlend lán vegna atvinnufyrirtækja séu 1 000 millj. kr. Einn undirliðurinn undir þessum 1 000 millj. er upp á 530 millj. Það eru innflutt skip og endurbætur erlendis. Þetta munu að vísu ekki vera fiskiskip, eins og við höfum nú vanist á undanförnum árum, heldur flutningaskip. Og ég hlýt að spyrja: Ber mjög brýna nauðsyn til þess núna, þegar svona árar hjá okkur, að við tökum á okkur erlendar lántökur upp á yfir 500 millj. kr. á árinu 1984 vegna flutningaskipa? Ég veit að það er freistandi að endurbæta flutningaskipakostinn og ég hef líka heyrt í fréttum að SÍS hafi hug á að byggja mjög myndarlegt og nýstárlegt skip. Ég geri ráð fyrir að það sé m.a. þarna inni í. En á sama tíma og kreppt er að á öllum öðrum sviðum, kreppt er að almenningi með þeim hætti sem gert hefur verið, sýnist mér að það sé mikið umhugsunarefni hvort svo brýna nauðsyn beri til að bæta við flutningaskipakostinn þetta árið, hvort það geti ekki verið að okkur væri óhætt að fresta því þannig að við hefðum svolítið rýmra um okkur í þessari lánsfjáráætlun.

Sú áætlun sem hér er fyrir atvinnufyrirtæki er upp á 1 000 millj. kr., eins og ég gat um, fyrir árið 1984. Í fyrra ætluðu menn líka að vera nískir á þessari áætlun, og ég man eftir að ég gagnrýndi það í umr. um lánsfjárlögin á sínum tíma. Þá ætluðu menn að hafa það svo, á árinu 1983, að þessi upphæð yrði 590 millj. kr. En á miðju árinu 1983, þegar þetta áttu að vera 590 millj. kr., var upphæðin komin yfir milljarð og er enn á uppleið.

Það hefur að mínum dómi gætt mikillar tilhneigingar til að vanáætla einmitt þennan lið í lánsfjáráætlunum og ég óttast að svo sé enn. Þess vegna hafa þær m.a. farið úr böndunum. Sannleikurinn er sá, að ef menn ætla að beita aðhaldi í þessum efnum þurfa menn betri stjórntæki en þeir hafa núna. Þær reglur sem langlánanefnd t.d. hefur til þess að fara eftir um slíka lánaúthlutun eru þess eðlis að þær munu alls ekki veita það aðhald sem hér er gert ráð fyrir, þannig að þetta verði 1 000 millj. kr., frekar en að það markmið náðist á þessu ári að það yrði 590. Það dugar ekki að setja tölur á pappír ef menn hafa ekki stjórntækin til þess að framfylgja því markmiði sem sett er. Engu hefur verið breytt að því er varðar þetta stjórntæki hjá okkur enn þá. Kannske vilja menn ekki breyta þar, en þá þýðir ekki heldur að sýna tölur eins og þá sem hér er sýnd. En ef menn vilja breyta dugar ekki að breyta bara á pappírnum, heldur verður að breyta þeim reglum sem látnar eru gilda um erlendar lántökur.

Herra forseti. Það liggur við að mig langi til þess að halda sérstaka ræðu um síðasta liðinn sem ég vil gera hér að umræðuefni — ekki vegna þess að hún verði svo löng heldur vegna þess að efnispunkturinn sem slíkur verðskuldaði vel að verða gerður að sérstöku umræðuefni. Efnisatriðið er þetta: Það er ekki gagn að því að leggja fram lánsfjáráætlun ár eftir ár ef það fæst aldrei uppgjör eftir á á því hvernig áætlunin er haldin. Í þessu plaggi, sem er að mörgu leyti ágætt, finnst slíkt uppgjör ekki, frekar en það hefur verið fyrri ár. Það verður að vera mögulegt að fá samanburð á áætlun og raunveruleika jafnóðum. Ef lánsfjáráætlunin á að vera gagnlegt stjórnunarplagg dugar ekki að bera einungis saman við lánsfjáráætlun fyrra árs. Við verðum einhvern tíma að fá að sjá hvernig raunveruleikinn er.

Þær tölur sem ég hef nefnt hér varðandi raunveruleikann á árinu 1983 koma yfirleitt ekki fram í þessu plaggi. Þær hefur maður þurft að afla sér upplýsinga um annars staðar. Þess vegna beini ég því eindregið til hæstv. fjmrh., sem nú hefur stigið það spor sem hefði þurft að stíga fyrir löngu að leggja fram fjárfestingar- og lánsfjáráætlun á sama tíma og fjárlögin koma til umr., að leggja nú fyrir okkur áður en 2. umr. fer fram uppgjör, samanburð á áætluninni fyrir árið 1983 og því sem varð raunveruleikinn 1983, og síðan væri það tekið upp sem verklagsregla fjmrh. og yfirleitt hér í þinginu.