23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3169 í B-deild Alþingistíðinda. (2731)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil hér og nú undirstrika að þær hugmyndir eru ekki frá ríkisstj. komnar að það eigi að fara að lækka niðurgreiðslur. Þær hugmyndir komu frá aðilum vinnumarkaðarins, en ég hygg að ég fari nokkuð rétt með þegar ég segi að þær hafi fremur komið frá atvinnurekendum en launþegum. Þó eru mjög skiptar skoðanir innan launþegahreyfing­arinnar á þessu atriði. En ég hygg einnig að ég fari rétt með að forseti Alþýðusambands Íslands hefur lagt til að þarna yrði fremur tekið af útflutningsbótum en niður­greiðslum.

En ég vænti þess að mér gefist kostur á að njóta fleiri kennslustunda í afurðum umhverfisins, stjórnmála­flokkunum, og fái skýrari skilning á því seinna meir hvers vegna foringjar Alþb. hafa eytt heilum degi í það að ráðast að forseta ASÍ. — Ég vil taka það fram að mér er fullkomlega ljóst hvers vegna hv. þm. Sighvatur Björgvinsson er reiður. Mér er líka fullkomlega ljóst hvers vegna hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er reiður og er búinn að vera miður sín þann tíma sem hann hefur verið á þingi í vetur. Það er skýrt í félagsfræðinni með einföldu orði. Það er kallað tignartap.