27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

1. mál, fjárlög 1984

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að lengja þessar umr. mjög. Hér hefur verið gerð ítarleg grein fyrir þeim málum sem eru á dagskrá, þ.e. fjárlagafrv. og raunar fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1984.

Ég vil byrja á því að geta þess út frá því síðasta sem kom fram hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, að ég get huggað hann með því og sagt honum að upplýsingarnar sem hann var að biðja um liggja fyrir og verða að sjálfsögðu lagðar fram í hv. fjh.- og viðskn. þeirrar deildar sem fær lánsfjárlagafrv. til meðferðar. Það er alveg hárrétt hjá honum að þessar upplýsingar hafa ekki legið fyrir áður, en á þessu sviði hafa verið tekin upp ný vinnubrögð eins og á ýmsum öðrum.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með því sem hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafa talað um í sambandi við þetta fjárlagafrv. og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir næsta ár. Það má í rauninni segja að þeim hafi meistaralega tekist að komast fram hjá því sem mér finnst kjarni málsins. Ég lít svo til, að það séu tvö meginatriði í stefnunni í ríkisfjármálum og fjárfestingar- og lánsfjármálum sem ber hæst.

Í fyrsta lagi: Það á að taka 2 200 millj. kr. minna í sköttum af þjóðarframleiðslunni á næsta ári en gert var á árinu 1982, ef miðað er við verðlag fjárlagafrv. Það samsvarar hvorki meira né minna en verðmæti 15 skuttogara. Þetta minna á að taka af fólkinu á næsta ári en gert var áður. Ef framfylgt væri þeirri stefnu, sem framfylgt var á árinu 1982, að taka 30.2% í sköttum af þjóðarframleiðslu á næsta ári, þá væri tekjutala fjárlagafrv. ekki 17.4 milljarðar, heldur 19.6 milljarðar. Þetta jafngildir því að hvorki meira né minna en 50 þús. kr. eru skildar eftir hjá almenningi, hjá heimilunum, og ríkið tekur þær ekki eins og ef framfylgt hefði verið sömu stefnu og 1982, sem er síðasta árið sem við höfum uppgjör yfir í ríkisfjármálum. Ríkið tekur ekki þessa peninga samkv. stefnu fjárlagafrv., heldur skilur þá eftir hjá almenningi, hjá fjölskyldum, hjá heimilum. Þetta gerist vegna þess að tekin hefur verið ákvörðun um tvennt: Í fyrsta lagi að lækka skatta og í öðru lagi að hætta umframeyðslu, að hætta innflutningi á varningi sem við höfum ekki efni á að flytja inn.

Þjóðarframleiðslan á næsta ári er metin á 64 milljarða 160 millj. kr. og tekjur fjárlagafrv. eru aðeins 26.8% af þessari tölu, en á árinu 1982 voru tekin 30.2% af þjóðarframleiðslunni í skatta. Þessa meginstaðreynd finnst mér — ég veit ekki hvort það er rétt hjá mér — að stjórnarandstaðan vilji sem allra best fela. En ég tel þetta meginatriði, og ekki síst að gera sér grein fyrir því að með þessu er að sjálfsögðu stefnt að því að ríkissjóður axli sínar byrðar, hann leggi nokkuð á sig í þeim stag, sem við stöndum nú öll í, viðureigninni við verðbólguna og að hætta eyðslu umfram efni.

Það er annað meginatriði, sem ber hæst í þessari stefnu, sem mér finnst að stjórnarandstöðunni hafi tekist meistaralega að forðast að minnast á. Það er að samkv. lánsfjáráætlun á að taka 3 650 millj. kr. minna að raungildi í nýjum erlendum lánum á næsta ári en gert var árið 1982.

Á árinu 1982 voru tekin gífurlega mikil erlend lán, m.a. vegna viðskiptahalla, vegna þess að við eyddum umfram efni. Viðskiptahallinn á því ári, metinn á meðalgengi ársins í ár, var hvorki meira né minna en 6 milljarðar kr.

Þessi tvö meginatriði, 2 200 millj. kr. minni skattaálögur og 3 650 millj. kr. minni lántökur, gera nálægt 6 milljarða. Hvað merkir það? Það merkir að til ráðstöfunar er til útgjalda á B-hluta ríkissjóðs, til útgjalda til orkumála, til þess að lána til húsnæðismála, til þess að sinna lánsfjárþörf atvinnuvegasjóða og svigrúm til að taka erlend lán til atvinnulífsins og einkaaðila, 5 850 millj. kr. minna en var 1982. Allt eru þetta raungildistölur og metnar á verðlagi fjárlagafrv. Við höfum þetta minna til skipta ef við ætlum að ná þeim markmiðum að minnka skattbyrði fólksins í landinu og hætta að taka erlend lán í þeim mæli sem við höfum gert. Þetta er kjarni málsins í allri þessari umr., en því miður sýnist mér að stjórnarandstaðan vilji sem minnst um þetta tala.

Við höfum til ráðstöfunar í allar þessar þarfir samkv. fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun 23.4 milljarða, en við hefðum sem næst 30 milljarða ef við fylgdum sömu stefnu og 1982.

Það er annars nokkuð athyglisvert að gera sér grein fyrir því, hvernig skattastefna ríkisstjórna hefur verið á undanförnum árum. Það er oftast litið svo á, að skásti mælikvarðinn á það sé að gera sér grein fyrir því hvað viðkomandi ríkisstjórnir taki mikinn hluta til sín í sköttum af þjóðarframleiðslu. 1977 voru tekin í ríkiskassann 25% af þjóðarframleiðslu, 1978 26.3%, 1979 27.6%, 1980 27%, 1981 28.8% og 1982 30.2%. Á þessum árum voru þjóðartekjur okkar Íslendinga vaxandi. Þjóðarframleiðslan óx ár frá ári, enda voru einhver bestu aflaár í sögu þjóðarinnar meðal þessara ára. Samt sem áður var alltaf tekinn meiri hluti af því sem fólkið aflaði í landinu í ríkiskassann. Nú er þeirri stefnu breytt. Ég sakna þess að það skuli ekki hafa komið fram fleiri ánægjuraddir meðal stjórnarandstöðunnar um þessa stefnu, einfaldlega vegna þess að ég veit að meðal talsmanna stjórnarandstöðunnar eru menn sem ég held að beri hag alþýðu fyrir brjósti, fólksins í landinu, og ég hélt það færi ekki fram hjá þeim að það ætti að ganga svona skemmra í því að fara ofan í vasa á fólkinu í landinu í rekstri ríkisins, eins og nú er ætlunin að gera.

Ég gat ekki orða bundist, herra forseti, um þessi aðalatriði, fyrst ég tók hér á annað borð til máls, en ég ætlaði einnig að fara nokkrum orðum um nokkuð það sem hér hefur komið fram í umr.

Ég vil lýsa ánægju minni yfir því að nokkrir, sem hér hafa talað, hafa hrósað því að lánsfjáráætlun liggur fyrir við þessa umr. Ég vil í sambandi við það sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson sagði áðan, þegar hann var að tala um að í ár hefðum við verið að taka ákvörðun um að takmarka erlend lán með samþykkt lánsfjárlaga, benda honum og þingheimi á að það var þegar fjórir mánuðir voru liðnir af þessu ári og þá lá engin lánsfjáráætlun fyrir. Þm. vissu í rauninni ekki hvað þeir voru að gera. Hæstv. fyrrv. ríkisstj. gafst upp á að leggja lánsfjáráætlun fyrir þingið. Hún fylgdi ekki fjárlagafrv. Það var sagt í því að hún kæmi eftir nokkrar vikur. Svo liðu vikurnar og mánuðirnir. Fjárlög voru afgreidd. Lánsfjáráætlun kom aldrei fram. Og hv. þm. voru að baksa við það, vil ég segja, að afgreiða lánsfjárlög og takmarka erlendar lántökur þegar fjórir mánuðir voru liðnir af því ári sem þau lánsfjárlög áttu að gilda fyrir. Þá var búið að taka ósköpin öll af ákvörðunum um að taka hin og þessi lán og þar á meðal erlend lán. Halda menn nú að svona vinnubrögð geti staðist? Ég er þeim mönnum alveg sammála sem hafa gagnrýnt þetta.

Nú er talað um að það sé teflt á tæpasta vað, við þurfum kannske meira en 4 500 millj. kr. af erlendum lánum á næsta ári. En er ekki meiri möguleiki til þess að hv. alþm. — með lánsfjárlögum sem yrðu afgreidd á haustdögum eða fyrir jól — gætu fremur náð tökum á því að takmarka erlend lán en ef lánsfjáráætlun lægi

ekki fyrir og kæmi ekki fyrir þingheim fyrr en einhvern tíma í vor? Þetta er eitt af því sem ég held að við hv. þm., og stjórnarandstaðan ekkert síður en stjórnarliðar, ættum að lýsa sérstakri ánægju yfir.

Hv. þm. hafa m.a. talað mikið um álagningu beinna skatta samkv. fjárlagafrv. Hv. þm. Ragnar Arnalds talaði um að þar væri um villandi og rangar upplýsingar að ræða, að mér skildist, í frv. Hv. þm. Kjartan Jóhannsson taldi að skattar mundu hækka um, ef ég man rétt, 28%, en launahækkun ætti ekki að vera nema 14.5% og hér ætti auðsjáanlega að hækka skatta. Blað fyrrv. hæstv. fjmrh. orðaði þetta smekklega skömmu eftir að frv. kom fram. Þar stóð í flennifyrirsögn: skattpíningunni á að halda áfram. Hæstv. fyrrv. fjmrh. var sem sagt skattpínandi samkv. hans eigin málgagni, Þjóðviljanum, píndi þjóðina með sköttum.

En við skulum svo athuga þetta mál aðeins. Fjvn. hefur beðið Þjóðhagsstofnun um frekari útlistun á þessu máli, þar sem það hefur orðið mönnum tilefni til umræðna. Og ég skal lesa úr grg. frá Þjóðhagsstofnun:

„Í þessari áætlun [þ.e. tekjuáætlun fjárlagafrv.] er gert ráð fyrir að álagning tekjuskatts hækki eins og tekjur milli áranna 1983 og 1984, þ.e. um 20% að viðbættri 1% fjölgun gjaldenda. Sömu forsendu er beitt um beitingu barnabóta og persónuafsláttar. Samkv. þessu hækkar álagður tekjuskattur nettó, þ.e. að frádregnum barnabótum og persónuafslætti, úr 1 milljarði 680 millj. kr. 1983 í 2 milljarða og 35 millj. kr. í frv. 1984, eða um 20% á mann. Á hinn bóginn er ljóst að eftirstöðvar frá fyrri árum fara vaxandi í hlutfatli við álagðan skatt á árinu og munu vega þyngra 1984 í þeirri heildarsummu sem er til innheimtu eða er kræf á árinu en á þessu ári. Þessi aukna þyngd eftirstöðvanna stafar eingöngu af því, að álagningin 1984 hækkar miklum mun minna samkv. frv. en undanfarin ár. Þetta veldur því jafnframt, að sé miðað við óbreytt innheimtuhlutfall milli áranna 1983 og 1984 hækkar innheimtur skattur meira en álagður skattur. Þetta kemur hins vegar aðeins fram hjá þeim sem skulda tekjuskatt frá fyrri árum, en hjá þeim sem eru í skilum hækkar innheimtan vitaskuld jafnt og álagningin og þar með jafnt og tekjur eftir forsendum frv.“

Ég vil líka biðja hv. þm. um að athuga það, að ef maður hefur kannske ekki greitt skatt í eitt ár eða tvö (GHelg: Já, svona eins og 13 millj.) og það tekst að innheimta af honum þennan skatt á næsta ári, þá er óhjákvæmilegt að skattbyrðin hlýtur að þyngjast á manninum, jafnvel þó að á öðrum væri hún kannske að léttast. Það skiptir því verulegu máli hvernig til tekst um innheimtuna og eins þetta, sem hér er meginatriði, að það er miklu minni hækkun milli ára á skattálagningu en áður hefur verið. Þess vegna vega eftirstöðvarnar þyngra í þessu dæmi.

Þannig hefur þetta alltaf verið gert upp. Ég minnist þess að í tíð fyrrv. fjmrh., hv. þm. Ragnars Arnalds, var jafnan svona komist að orði. Efndin var samt sem áður kannske önnur, og við skulum vona að hún verði ekki eins því hún var oftast þannig að skattbyrðin fór vaxandi milli ára, þrátt fyrir að í ýmsum frv. hans var talað svona um tekjuskattinn.

Hv. þm. Ragnar Arnalds talaði mikið um horfurnar á afkomu ríkissjóðs á árunum 1982 og 1983 og taldi að allur hallinn sem á árinu væri væri að kenna ráðstöfunum núv. hæstv. ríkisstj. Ég vil segja það, — ég hef oft sagt það áður, en ég vil endurtaka það einu sinni enn, — að ég tel það afskaplega auðvelt verk hjá fjmrh. að ná saman endum í rekstri ríkisins, jafnvel þó hann þenji ríkisbáknið út eins mikið og fyrrv. hæstv. ráðh. gerði, þegar aðferðin er sú að hækka sífellt skatta og ekki síst taka eyðslulán, flytja inn gífurlega mikinn varning sem er hátollaður og auka þannig veltuna í þjóðfélaginu. Það er nefnilega svo, að ríkissjóður lifir alltaf bestu lífi þegar eyðslan er mest og þá er ekkert spurt um hvort það er umfram efni eða ekki. Ríkissjóður hefur yfir 80% af tekjum sínum af óbeinum sköttum, sem flestir fara fyrst og fremst eftir því hvað eyðslan er mikil. Á árinu 1982 var 6 milljarða kr. halli á viðskiptum okkar við útlönd, en ríkissjóður naut góðs af. Það má segja að ríkissjóður hafi lifað á aðalsjúkdómseinkenni efnahagslífsins á því ári. Það held ég að sé ekki búskapur til að hæla sér af.

Árið 1983 lítur út fyrir að verði gífurlegur halli á ríkissjóði. Þegar núv. ríkisstj. tók við voru menn sammála um það, sem reyndu að spá fram í tímann um ríkisbúskapinn á árinu 1983, að ef ekkert yrði að gert, verðbólgan æddi áfram eins og hún gerði á miðju sumri, yrði hallinn á ríkissjóði ekki milljarður og ekki 1500 millj., heldur kannske nálægt 2000 millj.kr. að öllu óbreyttu, óbreyttum sköttum, óbreyttum útgjöldum og jafnvel því að halda því í sömu krónutölu sem hægt var að halda í sömu krónutölu í fjárlögum. Það er því heldur billegur málflutningur, finnst mér, hjá hv. þm. Ragnari Arnalds, fyrrv. hæstv. fjmrh., að tala hér um að ríkisreksturinn á þessu ári hallist á svig einvörðungu vegna ráðstafana núv. ríkisstj. og þá kannske fyrst og fremst vegna þeirra mildandi aðgerða sem ríkisstj. ákvað á sínum tíma.

Hv. þm. var annars afar úrillur út af þessum skattalækkunum og talaði um það - ég held ég hafi skrifað það orðrétt eftir honum — að skattur hefði verið afnuminn á skemmtiferðir til útlanda. (RA: Já.) Hv. þm. heldur sig við þetta. Út af fyrir sig má kannske líta svo á að allar ferðir Íslendinga séu skemmtiferðir. (RA: Nei.) Nei? Ekki það? En hvernig getur þá hæstv. ráðh. haldið því fram að þetta hafi verið skattur á skemmtiferðir til útlanda, ef allar ferðir Íslendinga til útlanda eru ekki skemmtiferðir? (Gripið fram í: Hann er nú hættur að vera ráðh.) — Fyrrv. ráðh. ætlaði ég að segja. Ég þakka þm. fyrir að minna mig á þetta.

Þarna er dæmi um að hv. þm. virðist vera mjög úrillur út af þessum skattalækkunum og talar um að ríkissjóður væri örugglega á sléttu ef ráðstafanir hefðu verið gerðar til að hækka skatta í staðinn fyrir þá sem hefðu verið lækkaðir eða útgjöld á móti strikuð út eða lækkuð. Það fór ekkert milli mála að honum fannst það alls ekki góður búskapur hjá hæstv. fjmrh. að lækka svona skattana á fólki. Mér finnst þetta út af fyrir sig nokkuð merkilegur málflutningur.

Hv. þm. talaði um að það væri raunverulegur 480 millj. kr. rekstrarhalli á ríkissjóði. Þar á hann við að útgjöld til vegamála eru ekki öll færð í 1. gr. frv. eða sem sagt 480 millj. kr. Þetta er skýrt tekið fram í fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun og er ekki ástæða til að draga neina fjöður yfir það. En ég vil benda á að hér er verið að tala um bókhaldsatriði. Það er rétt að þessi framlög hafa alltaf verið færð á A-hluta ríkissjóðs, en það eru líka önnur framlög færð á A-hluta ríkissjóðs núna sem ekki hafa verið það áður, þ.e. afborganir og vextir sem ríkissjóður stendur undir af byggðalínum. Þar er um að ræða 427 millj. kr., sem hefði verið í lófa lagið að færa á B-hluta, og þá hefði nú jöfnuðurinn orðið eitthvað svipaður og hann er núna — ég tala nú ekki um að það hefur verið venja í lánabreytingum að gera ráð fyrir að bankar keyptu skuldabréf af ríkissjóði. Það er ekki gert núna í þessu frv. og lánsfjáráætlun.

Fleira mætti tína til í þessu sambandi. En hér er sem sagt einvörðungu um bókhaldsatriði að ræða.

Hæstv. ráðh. talaði líka um að erlend lán væru í fyrsta skipti tekin til A-hluta ríkissjóðs. (Gripið fram í: Ég er enginn ráðh.) Hæstv. fyrrv. ráðh. (Gripið fram í: Já.) Ég var orðinn vanur að kalla hann hæstv. ráðh., en þetta fer að lagast.

Sama skýringin er á þessu, að í A-hluta ríkissjóðs núna eru færðar byggðalínurnar sem fyrrv. hæstv. ráðh. færði í B-hluta og voru þá lántökur til B-hluta. Hann veit náttúrlega allra manna best að alltaf hafa verið tekin erlend lán til að greiða afborganir og vexti af þessum lánum. Þeim hafði verið ýtt á undan sér. Það er gert enn þá, því miður. Það er ekki árferði til annars núna. En þetta er búskapur sem hann þekkir mætavel. Þetta var í hans tíð fært B-hlutamegin, en núna er það A-hlutamegin.

Ég vil svo aðeins minnast á eitt atriði hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni. Hann hefur, og þeir hv. þm. Alþfl. og raunar fleiri, talað mikið um prósentuhækkun á yfirstjórn rn. milli ára. Hv. þm. Guðmundur Bjarnason skýrði það mái raunar ágætlega vel. En hv. þm. Karvel Pálmason o. fl. hafa leyft sér að tala um að það sé 100% hækkun á yfirstjórn rn. á sama tíma sem fólk eigi að sætta sig við 4–6% kauphækkun. 4–6% kauphækkun er talað um frá því sem raunverulegt kaup verður nú um áramótin. Ef það ætti að bera þetta tvennt saman, hver launahækkunin verður og bera það saman á sanngjarnan hátt hver hækkunin verður á yfirstjórn rn. ætti að spanna sama tímabil og miða við sömu forsendur. Ég get fullvissað þessa ágætu þm. um að það er gert ráð fyrir minni kostnaðarhækkun á yfirstjórn rn., miðað við það sem þau kosta raunverulega nú í desember, samkv. frv. á næsta ári en verður launahækkunin hjá fólki. (Gripið fram í: Hvað með heimilin?) Ég er að tala um launahækkun hjá almenningi, hjá heimilunum. Hún er 4–6%, sagði hv. þm., á sama tíma sem gert er ráð fyrir 100% hækkun á rekstri á yfirstjórn rn. Það læðist sá grunur að mér að hv. þm. sé jafnvel ekki svo skyni skroppinn að hann viti ekki að hann er að fara þarna með óheiðarlegan málflutning og fullkomið fleipur.

Herra forseti. Ég get raunar lokið máli mínu. Ég vil þ6 aðeins segja nokkur orð að lokum um þá staðreynd sem við stöndum frammi fyrir að því er varðar erlendar lántökur og taka undir með þeim mönnum sem hér hafa talað um að það þurfi að spyrna við fótum.

Á árinu 1978 skulduðum við Íslendingar 33.8% af þjóðarframleiðslu í er!endum lánum. Það voru 15 milljarðar og 200 millj. kr. á árinu 1978. Árið 1979 hækkuðu þessi lán upp í 34.6%, eða lítillega, og svipað 1980. En eftir það, á árinu 1981, snarversnar þessi staða. Við skulduðum þá 36.6%, 1982 48.0% og nú er áætlað að við skuldum 60.3% af þjóðarframleiðslu eða 32 milljarða kr. á meðalgengi ársins í ár. Ef viðskiptahalli allra þessara ára er athugaður — áranna frá 1978 til 1983 — nemur hann á meðalgengi ársins í ár 12 300 millj. kr. Halli okkar á viðskiptum við útlönd, eyðslu skuldasöfnun, nemur á þessu tímabili 12 300 millj. kr. Ef við tökum hækkunina á skuldunum beint nemur hún á þessu tímabili 16 800 millj. kr. Skuldastaða okkar hefur versnað svo mikið vegna viðskiptahalla, vegna eyðslu umfram efni, enda sjáum við, ef við athugum hvað fjárfesting hefur verið mikil í landinu á þessum tíma, að hún hefur ekki aukist. Hún hefur verið tiltölulega jöfn. Þetta frá 26–27% af þjóðarframleiðslu á þessu tímabili. Það er því alveg ljóst að þessi skuldastaða, sem allir eru sammála um sem hafa kynnt sér þessi mál, er orðin stórhættuleg og getur í raun orðið til þess að erfitt sé að taka lán til arðbærra framkvæmda, þó að þar beri að skilja algerlega á milli. Að sjálfsögðu skiptir öllu máli að erlend lán séu tekin til arðbærra framkvæmda sem standa undir lánunum, en það er alveg ljóst að þessi skuldastaða er orðin slík vegna viðskiptahalla undanfarin ár, vegna þess að við höfum eytt umfram efni. Þeim mun nauðsynlegra er að gerbreyta um stefnu á þessu sviði.