24.02.1984
Neðri deild: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3185 í B-deild Alþingistíðinda. (2742)

176. mál, skipan opinberra framkvæmda

Einar Kr. Guðfinnsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með þeim hv. þm. sem hér hafa talað, að það ber brýna nauðsyn til að efla mjög útboð frá því sem nú er. Það leikur ekki á tveimur tungum að útboð hafa í rauninni orðið til þess að lækka kostnað við fjölmargar framkvæmdir og hafa gert það að verkum að unnt hefur verið að ráðast í fleiri og stórvirkari framkvæmdir en ella hefði verið. Þetta hefur komið fram t.d. við fyrri umr. um sambærileg frv., sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og hv. þm. Friðrik Sophusson hafa flutt áður eins og fram kemur í grg. þessa frv., og þetta hefur líka komið fram við annan samanburð og kom ræki­legast fram í sumar við framkvæmdir undir Ólafsvíkur­enni. Þess vegna leikur ekki á tveimur tungum að útboð er í eðli sínu þannig að þau koma sérstaklega því fólki til góða sem býr heima í héruðunum og þarf á að halda þeim þjóðnauðsynlegu framkvæmdum sem verið er að vinna að.

Ég held að það sé misskilningur, sem stundum kemur fram, en kom sem betur fer ekki fram í þessum umr., að útboð mæti andstöðu manna heima í héraði. Ég hygg að málin hafi skipast þannig að heima í héruðum séu menn almennt á þeirri skoðun að brýnt sé að auka útboðin. Menn hafa séð það svart á hvítu á undanförnum árum að útboðin verða til þess að lækka framkvæmdakostnað og auka möguleika á auknum framkvæmdum. Og þetta er auðvitað hagur fólksins heima í héraði.

Útboðin hafa gert fleira. Þau hafa beinlínis orðið til þess að styrkja atvinnustarfsemina í hinum dreifðu byggðum. Ég vil minna á að mjög verulega hefur færst í vöxt að útboð eigi sér stað við ýmsar byggingarfram­kvæmdir hins opinbera. Til að byrja með býst ég við að ekki hafi verið mjög óalgengt að stórir og sterkir verktakar sunnan úr Reykjavík hafi átt mjög drjúgan hlut að máli við slíkar byggingar, en nú hefur þetta snúist við. Verktakar heima í héraði hafa orðið að vera samkeppnishæfir. Þeir hafa orðið að byggja sig upp með tækjum og vélum og verkkunnáttu til að geta einmitt tekist á við þessi verkefni. Þar af leiðandi hafa útboðin beinlíms orðið til þess að efla verktakastarf­semina og renna þannig fleiri stoðum undir atvinnulífið heima í héraði. Fyrir vikið eru útboðin í eðli sínu æskileg og jákvæð byggðastefna. Og við verðum að horfa á að heimamenn hafa alltaf ákveðna yfirburði hvað þetta snertir. Það er dýrt að halda úti vinnuflokk­um, það er erfitt fyrir byggingarmeistara og aðra verktaka að fylgjast með verkum fjarri sínum höfuð­stöðvum og ég býst við að það hafi orðið reynsla fjölmargra stórra verktaka að sá kostnaður sem var því fylgjandi að vinna að verkum fjarri höfuðstöðvunum hafi reynst meiri en þeir bjuggust við í upphafi. Af þessu stafa vitaskuld yfirburðir heimamanna hvað þetta snertir. Og ef útboð munu færast í vöxt á öðrum sviðum, eins og t.d. varðandi vegagerð og annað, mun það leiða til nákvæmlega þess sama. Verktakar á því sviði heima í héraði verða að bregðast við því ástandi, munu vinna meira saman en þeir hafa gert og þar af leiðandi munu þeir eflast í starfsemi sinni. Ég vil þess vegna taka undir þau sjónarmið, sem hér hafa komið fram, að ástæða er til að fagna öllum röddum sem hvetja til þess að efla útboð og útboðsstarfsemi í landinu.