24.02.1984
Neðri deild: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3186 í B-deild Alþingistíðinda. (2745)

183. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 327, ásamt hv. þm. Guðrúnu Agnars­dóttur, Guðrúnu Helgadóttur, Jóni Baldvin Hanni­balssyni, Kristínu Halldórsdóttur og Guðmundi J. Guð­mundssyni, að flytja frv. til l. um breyt. á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

Þetta er í þriðja sinn sem þetta frv. er lagt fram hér á hv. Alþingi, en áður var það til umfjöllunar á 104. og 105. löggjafarþingi. Þó að þetta frv. hafi verið flutt tvívegis áður hér á hv. Alþingi er ég engu nær um afstöðu þm. til þessa frv. eða hvort það eigi yfirleitt hljómgrunn á hv. Alþingi.

Í byrjun þings 1981 er frv. fyrst lagt fram og mælt fyrir því 19. okt. Urðu engar umr. um málið utan framsögu og lá frv. allt þetta þing, haustið og veturinn, í nefnd án þess að nefndin, sem var fjh.- og viðskn., sæi ástæðu til að afgreiða málið á einn eða annan hátt úr nefndinni. Síðan er frv. lagt fram aftur fljótlega á s.l. þingi, en fær aftur alveg sömu meðferð. Framsögu­ræðan er flutt, engar umr. verða og síðan liggur frv. allt þingið í fjh.- og viðskn. án þess að málið fái þar afgreiðslu.

Ég vil nú freista þess, herra forseti, ásamt nokkrum öðrum þm. að leggja fram málið á nýjan leik í von um að það fái nú aðra og betri meðferð en á undanförnum þingum. Nú er hér ekki um að ræða flókið mál, sem vefjast ætti fyrir þm. að taka afstöðu til, né heldur er um að ræða frv. sem hefur aukin útgjöld í för með sér. Hér er eingöngu um að ræða að tilraun er gerð til að leita nýrra leið til að fá fram úttekt á tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu, reyna að grisja þann frumskóg sem öll kjaramálin og tekjuskiptingin eru komin í í okkar þjóðfélagi. Það er allt og sumt. Ekki virðist veita af þegar kjaramálin eru komin í þá sjálfheldu og þann hnút að niðurgreiða þarf úr ríkissjóði stóran hluta af kjarabótum til láglaunafólks og það fullvinnandi fólks sem skilar sínu dagsverki ekki síður en þeir betur settu. Það er auðvitað fráleitt og þjóðfélaginu til skammar að atvinnureksturinn hagnist á þessu fyrirkomulagi á kostnað fullvinnandi láglaunafólks.

Efni frv. er að greiða fyrir kjararannsóknum á þann hátt að Kjararannsóknarnefnd fái aðgang að upplýsing­um úr skattframtölum, sem að mati okkar flm. er auðveldasta og fljótvirkasta leiðin til að fá fram gleggri upplýsingar en nú er raunin um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu. — Frv. felur raunar í sér tvennt:

Í fyrsta lagi að Kjararannsóknarnefnd fái aðgang að upplýsingum um kjaramál úr skattframtölum, en samkv. núgildandi lögum hafa Hagstofan og Þjóðhags­stofnun aðgang að þessum upplýsingum.

Í öðru lagi, sem er það mikilvægasta, að Kjararann­sóknarnefnd hafi áhrif á í samráði við ríkisskattstjóra með hvaða hætti öskað yrði ítarlegri upplýsinga um launagreiðslur og vinnutíma á launaseðlum en nú er gert. Með því að ríkisskattstjóri ákvæði í samráði við Kjararannsóknarnefnd hvernig atvinnurekendur skuli sundurliða upplýsingar um launakjör á launamiðum sem sendir eru ríkisskattstjóra opnuðust nýir mögu­leikar til kjararannsókna og upplýsinga, en eins og nú er er einungis unnt að fá úr skattframtölum upplýsingar um heildarlaunagreiðslur, en ekki sundurgreindar upp­lýsingar um laun fyrir dagvinnu, yfirvinnu, bónus­greiðslur fyrir vaktavinnu, greiðslur fyrir ákvæðisvinnu, greiðslur í veikinda- og slysatilvikum eða sérstakar greiðslur sem ekki falla undir neitt af því sem ég rakti, svo sem yfirborganir og þess háttar.

Þó að kjararannsóknir með úrvinnslu úr skattfram­tölum hafi vissulega sína galla, þar sem margir hafa aðstöðu til að gefa ekki upp allar sínar tekjur, er þó ljóst að með þeirri leið sem hér er stungið upp á opnuðust nýir möguleikar til að afla mun ítarlegri og sundurliðaðri upplýsinga um tekjur einstaklinga og uppruna þeirra en nú er gert og er það m.a. tilgangur þeirrar breytingar sem hér er lögð til. Ég tel óhætt að fullyrða að enginn þekkir í raun þann frumskóg sem kjaramálin eru í. Hvað eru yfirborganirnar, kaupaukarnir, ómælda yfirvinnan, bílastyrkir og duldu greiðslurnar á vinnumarkaðinum mikill hluti af raun­verulegri tekjuskiptingu í þjóðfélaginu? Hver er hlutur láglaunahópanna í því sem greitt er fram hjá kjarasamn­ingum? Er það ekki í raun orðið þannig að það eru að stærstum hluta til ófaglærða verkafólkið og konurnar sem sitja eftir á töxtunum og hlutdeild þeirra í yfirborg­ununum og kaupaukunum sé lítil? Um þetta veit enginn nákvæmlega. Og hvernig er hægt að fá botn í tekju­skiptinguna í þjóðfélaginu? Hvað er sanngjörn tekju­skipting og hvað er eðlileg tekjuskipting? Hvernig á að koma í veg fyrir launamisrétti kynjanna t.d. eða leiðrétta og auka hlut láglaunahópanna í tekjuskipting­unni ef aldrei er hægt að fá upp á borðið hvernig tekjuskiptingin í þjóðfélaginu er — sú tekjuskipting sem fram fer utan við kjarasamningana, utan við launataxtana?

Við vitum t.d. um það að launamisrétti kynjanna ríkir á vinnumarkaðinum, en við vitum ekki nákvæm­lega um hvað það er mikið og hvernig það skiptist innbyrðis milli starfsstétta. Ef bæta á hlut láglaunahóp­anna í þjóðfélaginu á sanngjarnan hátt og uppræta launamisrétti kynjanna verðum við að vita með allgóðri vissu hvernig hin eiginlega tekjuskipting er, hvernig undirheimur kjaramálanna og kaupaukanna er, sem ekki kemur fram í kauptöxtum og kjarasamningum. Þessi undirheimur kjaramálanna virðist ekki þola dags­birtu og erfitt hefur reynst að ná fram samstöðu milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins til að opna dyr undirheima kjaramálanna, sem er forsenda þess að hægt sé að koma á sanngjarnri tekjuskiptingu hér í þjóðfélaginu. Við verðum að fá fram hlutföll hinna ýmsu launakerfa í launakjörum almennt, þannig að hægt sé að sjá hvaða þáttur launakerfa sé mest ákvarð­andi um launatekjur hverrar starfsstéttar, svo sem dagvinnutekjur, yfirvinnutaxtar, afkastahvetjandi launataxtar, yfirborganir og aðrar duldar greiðslur eða kjaraþættir. Þetta er forsenda þess að hægt sé að skipta því sem til skiptanna er á sanngjarnan og eðlilegan hátt. Miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja um kjara­málin er ekki hægt að draga réttmætar og sanngjarnar ályktanir af þróun launa- og kjaramála undanfarna áratugi, en forsenda þess að hægt sé að beita raunhæf­um aðgerðum til að bæta kjör þeirra verst settu er að fá fram upplýsingar nm tekjuskiptinguna, auk þess sem þekking á frumskógi kjaramálanna er alger forsenda fyrir því að efnahags- og kjaramálum verði stjórnað af einhverri skynsemi og sanngirni með einhverjum ár­angri og án alvarlegra árekstra.

En nú kynni einhver að spyrja: Af hverju eiga stjórnvöld að vera að vasast í þessu? Á þetta ekki að vera verkefni aðila vinnumarkaðarins? Svarið við því er að aðilum vinnumarkaðarins hefur ekki tekist að koma á sanngjarnri tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Ástæða þess er einkum sú, að kauptaxtarnir, sem ávallt er um deilt í kjarasamningum, segja okkur aðeins til um raunveruleg kjör láglaunahópanna í þjóðfélaginu. Og staðreyndin er einnig sú, sem við verðum að horfast í augu við og taka á, að atvinnurekendur hafa í gegnum árin komist upp með að ráða einhliða meira og meira um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu. Þegar svo er komið hlýtur það að vera hlutverk stjórnvalda að upplýsa eins og kostur er um staðreyndir í málinu, beita sér fyrir því með rannsóknum og könnunum að fá upp á borðið hina raunverulegu tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Það er ekki lengur hægt að horfa upp á hvernig teknar eru handa­hófskenndar ákvarðanir, sem í raun bitna á þeim lakast settu því að allar forsendur vantar, þekkingu og yfirsýn yfir þann frumskóg sem kjaramálin og launamálin almennt eru.

Á s.l. Alþingi, þegar frv. þetta var til meðferðar í fjh.- og viðskn., var það sent til umsagnar Kjara­rannsóknarnefndar, en eins og þm. vita eru aðilar að Kjararannsóknarnefnd Alþýðusamband Íslands, Vinnuveitendasamband Íslands og Vinnumálasamband samvinnufélaganna. Kjararannsóknarnefnd treysti sér ekki til að gefa út sameiginlega umsögn um málið, en þess í stað kom umsögn frá ASÍ sérstaklega og frá Vinnuveitendasambandinu. ASÍ lýsti stuðningi sínum við frv. og taldi að það mundi greiða fyrir kjararann­sóknum. Aftur á móti mælti Vinnuveitendasambandið gegn samþykkt frv., en í umsögn þess sagði m.a., með leyfi forseta:

„Kjararannsóknarnefnd er sjálfstæður samstarfsvett­vangur Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumála­sambands samvinnufélaganna annars vegar og Alþýðu­sambands Íslands hins vegar. Nefndin er með öllu óháð stjórnvöldum og um hana gilda engar lagalegar reglur aðrar en bráðabirgðaákvæði laga um atvinnuleysis­tryggingar, að því er varðar kostnað af starfsemi hennar. Meðan aðilar hata ekki gert með sér frekara samkomulag um starfsemi nefndarinnar mælir Vinnu­veitendasambandið gegn hvers konar lagasetningu er nefndina varðar“.

Herra forseti. Þetta eru auðvitað furðuleg viðbrögð hjá Vinnuveitendasambandi Íslands, sem erfitt er að átta sig á, því með samþykkt frv. væri Kjararannsóknar­nefnd ekki beitt lögþvingunum á neinn hátt varðandi starfsemi sína, heldur væri þvert á móti opnuð ný leið til að auðvelda kjararannsóknir ef Kjararannsóknarnefnd vildi notfæra sér þá leið. Enginn skyldar hana til að notfæra sér þá leið, heldur er með þessu frv. opnuð hagkvæm og fljótvirk leið til kjararannsókna — og kjararannsóknir eru hlutverk Kjararannsóknarnefndar.

Í þessu frv. felst engis að auðvelda kjararannsókn­ir og ekkert annað. Því er furðulegt að Vinnuveitenda­sambandið, sem er aðili að Kjararannsóknarnefnd, skuli hafna því að fá fram lagasetningu sem greiða á fyrir kjararannsóknum hér á landi, sem ég trúi ekki að nokkur mæli á móti að stórlega þurfi að auka og bæta verulega. Hafi Vinnuveitendasambandið önnur úrræði til að fá fram á fljótvirkan og hagkvæman hátt frekari upplýsingar um kjararannsóknir en við höfum, þá á Vinnuveitendasambandið auðvitað að láta slíkt koma fram en hafna ekki alfarið leið sem stungið er upp á til úrbóta í þessu máli.

Ég vil benda nm. í fjh.- og viðskn. á, að ef ekki tekst eining um að opna fyrir Kjararannsóknarnefnd slíkan möguleika mætti hugsa sér að áætlunardeild Fram­kvæmdastofnunar ríkisins, sem s.l. þrjú ár hefur gefið út rit um vinnumarkaðinn með upplýsingum sem byggðar eru á sérstakri úrvinnslu upplýsinga sem eru á launamiðum og eigendaframtölum, fengi slíka laga­heimild til að auðvelda þær kjararannsóknir sem Fram­kvæmdastofnunin hefur staðið fyrir um vinnumarkað­inn á undanförnum árum. En eins og áður er getið, er mjög takmarkaðar upplýsingar hægt að fá úr skatt­framtölum um sundurliðun á heildarlaunagreiðslum og sundurliðun á vinnutíma og kjörum launþega á vinnu­markaðinum almennt.

Það má einnig benda á að með samþykkt frv. væri löggjafarvaldið fyrst og fremst að auðvelda fram­kvæmdavaldinu að fara að vilja Alþingis, sem fram kom þegar Alþingi samþykkti þáltill. um kannanir á tekju­skiptingu og launakjörum fyrir 3–4 árum sem enn hefur ekki komist til framkvæmda. Till. þessi var margþætt og yfirgripsmikil og laut að upplýsingaöflun og úrvinnslu fjölmargra þátta er snerta kaup og kjör í landinu. Í þeirri till. var bent á að Kjararannsóknar­nefnd í tengslum við Þjóðhagsstofnun ynni það verk sem var gert ráð fyrir í till.

Má einnig benda á í þessu sambandi að umsagnir aðila vinnumarkaðarins og Kjararannsóknarnefndar voru mjög jákvæðar gagnvart till. Og ég vil benda á, herra forseti, í því sambandi að Vinnuveitendasam­bandið virðist hafna því að Kjararannsóknarnefnd fái aðgang að úrvinnslu skattframtala og að einnig hefur það hafnað því að Kjararannsóknarnefnd fái að hafa hönd í bagga með hvernig upplýsingar eru sundurliðað­ar í skattframtölum, að í till. sem ég hef hér getið og Vinnuveitendasambandið stóð að umsögn um þar sem mælt var með samþykkt till. fólst að upplýsingar sem aflað yrði samkv. þeirri till. yrðu fengnar einmitt frá skattstofum m.a. og þar með úr skattframtölum. Ég vil einnig benda á, herra forseti, að í þeirri umsögn, sem var sameiginleg umsögn ASÍ, VSÍ og Vinnumálasam­bandsins, kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Undirrituð samtök eru eindregið sammála því að brýna nauðsyn beri til að efla starfsemi á þessu viði. Jafnframt vilja samtökin minna á það starf sem á þeirra vegum hefur verið unnið á þessum vettvangi um leið og þau ítreka þá skoðun að nauðsynlegt sé að starfsemi af þessu tagi njóti fyllsta trausts aðila vinnumarkaðarins og því sé æskilegast að þær kannanir, sem ályktunin gerir ráð fyrir, fari fram á þeirra vegum. Þær stofnanir sem átt er við eru annars vegar Kjararannsóknarnefnd og hins vegar hagdeildir samtakanna.“

Með öðrum orðum: Í þessari umsögn mælir Vinnu­veitendasambandið með að könnun og úttekt á launa­kjörum og tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu fari fram. Í þeirri till. fólst m.a. að leitað yrði upplýsinga úr skattframtölum til þess að fá fram tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu. En þegar kemur fram frv. á hv. Alþingi sem auðvelda á Kjararannsóknarnefnd þessa leið og raunar að fara eftir því sem stóð í till. sem Vinnuveit­endasambandið gaf jákvæða umsögn um, þá kemur annað hljóð í strokkinn og VSÍ hafnar þessari till. og mælir gegn því að hún verði samþykkt og að Kjararann­sóknarnefnd fái aðgang að upplýsingum úr skattfram­tölum.

Hér er mikill tvískinnungur á ferðinni hjá Vinnuveit­endasambandinu og undarleg þversögn fólgin í þessari afstóðu. En væri sú leið farin sem lögð er til í þessu frv., sem ég undirstrika að hvergi skyldar Kjararannsóknar­nefnd í starfi, heldur fyrst og fremst auðveldar henni starf og upplýsingaöflun, mundi slíkt fyrirkomulag í úrvinnslu, sem hér er lagt til, tryggja að þeir hagsmunir, sem helstu samtök atvinnurekenda og launþega eiga að gæta í þessum efnum, væru að fullu tryggðir.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar um þetta frv. við 1. umr. þessa máls nema tilefni gefist til. Ég vildi þó mega vænta þess að þetta frv. fái aðra og betri meðferð en það hefur fengið á undanförnum þingum og að hv. fjh.- og viðskn., sem fær þetta mál til meðferðar, afgreiði nú málið úr nefnd þannig að þm. gefist kostur á að taka afstöðu til þessa frv. um nýjar og bættar leiðir til kjararannsókna, sem ekki virðist veita af í okkar þjóðfélagi, eða þá að fram komi aðrar hugmyndir sem mundu ná sama markmiði.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.