27.02.1984
Efri deild: 55. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3209 í B-deild Alþingistíðinda. (2761)

197. mál, virðisaukaskattur

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Eins og hæstv. fjmrh. sagði er þetta umfangsmikið frv. sem þarf mikla umfjöllun í n. og ég ætla ekki að hafa mörg orð um það hér þar sem ég á sæti í þeirri n. sem fær frv. til meðferðar. En mig langar samt hér og nú til að leyfa mér að efast um að eins og nú háttar málum sé rétti tíminn að taka upp það fyrirkomulag á skattheimtu sem hér er lagt til.

Ljóst er að virðisaukaskattur mun hafa áhrif á verðlag í landinu. Að vísu er mjög erfitt að reikna það út og það er e.t.v. eitt af megineinkennum þessa frv. hversu óútreiknanlegt það er. Það er út af fyrir sig spurning hvort það sé verjanlegt að fara fram með jafnstórt mál sem er jafnóljóst og það er á þessari stundu. Það er annað mál. Hins vegar er ljóst, þrátt fyrir þessa erfiðleika í útreikningi, að matvörur koma til með að hækka um 18–19%. Þetta er ákaflega við­kvæmur neysluþáttur og ekki síst í dag ef við tökum mið að þeirri kaupgjaldsþróun sem orðið hefur á undan­förnum misserum. Frá mínum bæjardyrum séð er því mjög varhugavert að fara af stað með skattafyrirkomu­lag sem eykur þyngd þessa þáttar enn.

Hæstv. fjmrh. bað menn að skoða aðrar leiðir til þess að reyna að vega á móti þessu og til þess er ég vitaskuld tilbúin en þá jafnhliða umfjöllun um virðisaukaskatt en ekki eftir að hann hefur verið settur á. Það er margt annað í þessu frv. sem þarf að athuga en ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri við þessa umr.