27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

1. mál, fjárlög 1984

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd. Hv. þm. Ragnar Arnalds sagði hér áðan að gert væri ráð fyrir í lánsfjáráætlun að taka erlend lán fyrir allri lánsfjárþörf til vegagerðar upp á 480 millj. kr. (RA: Ekki alveg allri.) Það er ekki rétt og þarf kannske ekki að eyða löngu máli í að leiðrétta það, en eins og ég gat um hér áðan, þá er það tvennt sem hefur breyst bókhaldslega í uppsetningu fjárlagafrv. að þessu sinni. Það er í fyrsta lagi það að byggðalínur eru nú færðar undir A-hluta. Til byggðalína hafa alltaf verið tekin erlend lán til þess að framlengja erlend lán og þess vegna skýrist erlend lántaka A-hluta að verulegu leyti af þessari tilfærslu.

Í annan stað hefur innlendri fjáröflun til A-hluta alltaf verið þannig háttað að hluta til að bankarnir hafa keypt bréf af ríkissjóði. Það var það sem ég átti við áðan, þegar ég var að benda á þetta atriði, að bankarnir hafa alltaf keypt bréf af ríkissjóði. Samkv. lánsfjárlögum í ár nemur þessi upphæð rúmum 100 millj. kr. Þetta er ekki gert núna heldur er gert ráð fyrir að bankarnir kaupi einungis beint af Framkvæmdasjóði. Ef þetta hefði verið fært bókhaldslega eins núna eins og er í lánsfjárlögum í ár, þá skýrir þetta tvennt nokkurn veginn alveg erlendar lántökur til A-hluta sem, eins og hér kemur fram í lánsfjáráætlun, eru 675 millj. kr.

Það er því ekki rétt að þessa fjár eigi að afla erlendis, 480 millj. kr. til vegagerðar. Það er kannske rétt að geta þess í leiðinni að í frv. er gert ráð fyrir sjöföldun á beinu framlagi ríkissjóðs til vegagerðar frá því sem það er í ár. Það má kannske til sanns vegar færa að einhver hluti af þessu sé til vegagerðar, en ég held að út af fyrir sig sé þetta deila um keisarans skegg. Aðalatriðið er það, að heildarlánsfjárþörf til A-hluta er 1620 millj. kr. og er allmiklu meiri en verið hefur, af ástæðum sem eru skýrðar hér í lánsfjáráætlun, m.a. vegna þess að þá þarf að greiða skyldusparnað frá árinu 1978, að ég hygg. Það þjónar í rauninni engum tilgangi að eyrnamerkja innlendar og erlendar lántökur á einhverjar ákveðnar framkvæmdir eða til einhverra ákveðinna þarfa. Aðalatriðið er það, að heildardæmið er erfiðara en það hefur verið og niðurstaðan er þessi, sem kemur fram í lánsfjáráætlun. Hana má alveg eins skýra með lánsfjárþörf til byggðalínu, til þess að framlengja byggðalínulán, eins og til einhverra annarra þarfa A-hlutans.