27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

1. mál, fjárlög 1984

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég skal nú reyna að svara hv. 10. landsk. þm. nokkrum orðum. Spurningarnar sem hún bar til mín voru stuttar og hnitmiðaðar og ég skal reyna að svara í sama dúr. Ég tel ekki ástæðu til að svara því hvort það er gott eða vont að halda tvöfalt bókhald eða bókhald í tveimur dálkum. Ég held að það sé gott.

Önnur spurning. Það er ekki sama hvernig tekjum er varið. Ég er sammála henni með það. Ég tel að tekjum sé betur varið á fjárlögum 1984 heldur en á fjárlögum 1983.

Hverjum ætlar hann að gera til hæfis, þ.e. fjmrh. Ég reikna ekki með að fjmrh. í ár geri nokkrum manni til hæfis. Ég held að allir þeir sem hafa rætt við fjmrh. hingað til um gerð þessara fjárlaga hafi verið meira og minna óánægðir.

Þá er það fjórði liðurinn. Aukafjárveitingavald fjmrh. er óþingræðislegt. Ég held mig við þá fullyrðingu. Ég var ekki búinn að vera lengi í embætti fjmrh. þegar mér fannst það óþægilegt að vera að gera ný fjárlög frá degi til dags, má segja, vegna þess að fjárlög ársins voru óraunhæf, eins og komið hefur fram hér í þingræðum. Ég tel að aukafjárveiting eigi ekki að ganga þannig fyrir sig, þó að aldrei sé hægt að fullyrða að ekki komi til aukafjárveitingar, heldur eigi þá að leggja það fyrir fjvn. Fjmrh. eigi að leggja það fyrir fjvn., eða þá starfsnefnd sem starfar á milli þinga, ef fjvn. er í fríi. Annars er það ætlun mín að leggja fram endurskoðaða áætlun á þriggja mánaða fresti, svo að alþm. geti fylgst með hvað er að ske í fjármálum þjóðarinnar með skömmu millibili. Ég hef áður boðað — og því mun ég reyna að koma í verk, að það eigi að gera fjárlög út kjörtímabilið og taka inn í þau fjárlög þau kosningaloforð sem viðkomandi flokkar, sem við völd eru hverju sinni, hafa lofað fólkinu, og tímamarka hvenær þessi kosningaloforð eru efnd, vegna þess að það getur enginn, hvorki stjórnarandstaðan né aðrir, ætlast til þess að kosningaloforð séu efnd um leið og nýir aðilar koma til valda, en að þeir standi við sín heit.

5. liður. Ríkið hyggst soga minna til sín og Alþb. lítur svo á, að í þessu tilfelli færist tekjur manna úr fleiri höndum í færri. Það er álit Alþb. Það er öfugt. Við erum að færa úr einum höndum, skulum við segja, sem er ríkið, yfir til fleiri. Við erum að skilja meira eftir hjá fólkinu. Ég skil vel að það er hugsjón sem Alþb. ekki skilur og hefur aldrei skilið. Það skal vera miðstýring á sem flestum sviðum.

6. liðurinn var að með því að hætta að stjórna þjóðinni hefði verðbólgan verið látin geysast áfram. Ég efast ekkert um að Alþb.-menn hafa forskrift um það hvernig á að stjórna þjóðinni. En þeir hættu að stjórna einfaldlega vegna þess, eins og kom fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að þeir höfðu ekki meiri hl. Þeir gátu ekki lagt fram fjárlagafrv. eða lánsfjáráætlun vegna þess að þeir höfðu ekki meiri hl. til að koma því í gegn. Og þá voru þeir hættir að stjórna þjóðinni og hefðu átt að segja af sér. Þeir hefðu átt að hætta að sitja auðum höndum. Þetta er alveg rétt hjá hv. 10. landsk. þm.

Laun landsmanna hafa verið lækkuð, segir í 7. lið. Ég veit ekki hvað hægt er að segja um það. En ef málflutningur allra, bæði stjórnarliða og stjórnarandstæðinga, einstaklinga sem þm. og þjóðarinnar attrar, ef sá málflutningur er réttur að verðbólgan hafi verið hinn mesti bölvaldur og að attar leiðir til lækningar lágu í því að lækka hana, þá kemur það ekki heim og saman við málflutning hv. 10. landsk. þm., vegna þess að verðbólgan hefur lækkað og lánskjaravísitala er vonandi að deyja út en vextirnir eru komnir í 30%. Og mér hefur sagt fólk að það finni mikinn mun á því að hafa verðtag nokkuð stöðugt í búðum við matarinnkaup. Við tölum mikið um heimilin. Og heimili sem þurfa að standa undir afborgunum og greiðslum af lánum, t.d. húsnæðismálastjórnarlánum, finna mikið fyrir því hvað verðbólgan er minni og vextir hafa lækkað mikið undanfarna mánuði. Ég átti von á að fá hér útreikning máli mínu til staðfestingar, til þess að geta farið með tölur, en því miður hef ég ekki fengið hann. Ég átti von á honum í kvöld, en það getur vel verið að ég geti lagt hann fyrir við 2. umr. fjárlaga.

8. liður var erlend lán. Ég vil draga það í efa að hv. 10. landsk. þm. meini það, að 60% af þjóðarframleiðslunni, sem erlendar lántökur nú eru, að það hafi allt farið í arðbærar framkvæmdir. Það mátti skilja það svo. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að verulegur hluti, ég skal ekki segja hvort það er meiri hluti, hafi farið í eyðslulán sem við erum nú að sligast undan. Það er nú það sem gerir tilveruna hvað óskemmtilegasta á þessu augnabliki því að eyðslulánin voru ekki bara erlendis frá, heldur líka innlendis frá. Það þekkja allir yfirdráttinn í Seðlabankanum, eins og hann var 26. maí, og það er reiknað út af sömu trúnaðaraðilum, sem ég veit að hæstv. fyrrv. fjmrh. og ég höfum mjög góða reynslu af, þetta eru trúverðugir menn.

10. liðurinn var um samneyslu og mismun á samneyslu á milli ára. Það er talið að samneyslan dragist saman um 3% á næsta ári.

11. liðurinn var um lagabreytingu vegna námslána. Það er í höndum menntmrh. og hún hefur boðað þær breytingar sem þarf til þess að það sem gert er verði að sjálfsögðu gert samkv. lögum. sama er að segja um ýmsar aðrar ráðstafanir sem ríkisstj. hefur gert.

12. liður. Ég held að það stangist ekkert í þessu frv. á við lög um Seðlabanka Íslands, 2. gr. þeirra laga, sem hv. þm. vitnaði í. Ég reikna með að þarna eigi hún við vexti af væntanlegum ríkissjóðsvíxlum sem fjmrh. kemur til með að ráða vaxtakjörum á.

Ég vona, hv. 10. landsk. þm., að ég hafi svarað öllum þeim 12 liðum sem ég skrifaði niður. (GHelg: Það vantar aðeins eitt svar. Það varðar tekjuskatt einstaklinga annars vegar og félaga hins vegar.) Já. (GHelg: Á bls. 25 og 26 ef ég man rétt.) Ég verð að fá tíma til að svara því, vegna þess að ég er ekki með þau gögn hérna í ræðustól, en ég held að það sé enginn skaði skeður þó að ég fái að geyma það svar.

Hv. 3. þm. Reykn. er nú víst horfinn af vettvangi svo að ég mun ekki dvelja lengi við svör til hans, en hann ruglaði saman erlendum lánum og hlutfalli erlendra lána af þjóðarframleiðslu. Við höfum sagt að þetta hlutfall megi ekki fara fram úr 60% af þjóðarframleiðslunni, eins og það er nú, og við það verður staðið. Ef sá rammi springur af einhverjum ástæðum tel ég alveg sjálfsagt að það komi ekki upp í þessari ríkisstj. eins og í þeirri síðustu, að hún sitji deginum lengur. Þá er hennar stefna sprungin og þá á hún að fara frá.

Þá vil ég leiðrétta það að umrætt Sambandsskip, sem hann gerði að umræðuefni, væri inni í þeirri tölu, sem er 1 000 millj. og er ætlað til atvinnuveganna. Það er ekki inni í þeirri tölu.

Hv. þm. talaði um að það þyrfti að vera betra aðhald til þess að kerfið, eins og hann orðaði það, væri betra stjórntæki. Þar var hann einmitt að ræða um langlánanefnd og lántökur sem færu þar mikið fram úr áætlunum. Ég er alveg sammála. Þetta er einmitt það sem ég hef verið að segja. Ég hef sagt það hér í þessum ræðustól, það gengur ekki, það er alveg sama hver fer með fjármálin, hver er fjmrh. frá einum degi til annars, það gengur alls ekki að ríkissjóður sé rekinn í 4–5 pörtum víðs vegar um bæinn. Það gengur bara ekki. Og langlánanefnd er eitt af þeim dæmum sem ég tók um það hvað ríkissjóður væri rekinn víða. Komi eitthvað upp, bregðist eitthvað, skuldir falla — endanlega á ríkissjóð — án þess að fjmrh. eða ríkissjóður hafi haft nokkuð með það að gera í upphafi ákvarðana, sem brugðust. Þetta á að hluta til við um Seðlabankann, þetta á svo sannarlega við um Framkvæmdastofnun og Byggðasjóð, þetta á við langlánanefnd og víðar mætti kannske telja. Ég er alveg sammála hv. 3. þm. Reykn. hvað þetta snertir.

Hv. þm. segir að ekkert gagn sé að því að leggja fram lánsfjáráætlun nema uppgjör liggi fyrir. Ég vil þá lýsa því hér yfir að ég mun dreifa þessu uppgjöri strax eftir helgina til allra þm. svo að menn sjái að embættismenn rn. hafa staðið vel að verki við undirbúning þessara fjárlaga og lánsfjáráætlunar. Ég sé ekki ástæðu til að svara hv. þm. frekar þar sem hann er fjarverandi.

Ég vil þá, herra forseti, geta þess svona í framhjáhlaupi, og þá svara ég hv. fyrrv. fjmrh., 3. þm. Norðurl. v., að það voru ekki mín orð eða gort í minni ræðu að lánsfjáráætlun skyldi lögð fram nú. Ég sagði ekki að það væri einsdæmi, það er langt frá því. (RA: Það voru aðrir sem sögðu það.) Ég bið afsökunar, ég hélt að það væri verið að tala til mín þegar þetta var sagt. Ég leiði þetta hjá mér.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa langt mál um þær umr. sem fram hafa farið í kjölfar fjárlagaræðu minnar. Flestu af því, sem um var spurt, er svarað í ræðu minni og í grg. fjárlagafrv., eins og ég vænti að hv. þm. verði ljóst þegar þeir hafa haft tíma til að kynna sér efni ræðunnar betur.

Ég vil þó gera athugasemdir við nokkur atriði sem hafa komið fram. Nokkrir hv. stjórnarandstæðingar héldu því fram að fyrirhugað væri að hækka skattbyrði á næsta ári þrátt fyrir yfirlýsingar mínar um hið gagnstæða. Hér er auðvitað einhver misskilningur á ferðinni. Tekjuáætlun frv. gerir ráð fyrir 20% hækkun tekna hjá gjaldendum frá árinu 1983 til 1984 eða um sama hlutfall og álagður tekjuskattur nettó. Óinnheimtar eftirstöðvar skatta frá fyrri árum munu hins vegar verða þungvægari miðað við álögð gjöld en áður og þess vegna hækka áætlaðar tekjur af beinum sköttum um meira en 20%. Við bætist að auki 1% fjölgun gjaldenda. Þetta vona ég að skýri málið, en ég vil ítreka að það er stefna ríkisstj. að lækka frekar skatta en hækka og þetta kom ágætlega fram í ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e. áðan.

Varðandi þá staðhæfingu að gert sé ráð fyrir umtalsverðri viðbótarkjaraskerðingu á næsta ári vil ég segja að forsendur fjárlagafrv. að þessu leyti eru hinar sömu og þjóðhagsáætlunar, sem sé þær, að ekki verði frekari kjararýrnun á næsta ári frá því sem er á síðustu mánuðum þessa árs.

Ýmsum þm. varð tíðrætt um fyrirhugaða flugstöð á Keflavíkurflugvelli. Nú er það að vísu svo, eins og fram kemur í lánsfjáráætlun, að utanrrh. hefur látið endurmeta þörfina til þessa mannvirkis á næsta ári og hún lækkuð um tæplega 15 millj. kr. Fjárþörfin til flugstöðvarinnar verður því tæplega 89 millj. kr. í stað 104 millj. og er gert ráð fyrir því að það fé verði allt fengið að láni. Bandaríkjamenn munu leggja til þessarar framkvæmdar mun hærri fjárhæð á næsta ári svo sem kunnugt er.

Ég vil aðeins segja um þetta að ný flugstöð á Keflavíkurflugvelli væri þegar risin ef ekki hefði komið til neitunarvald Alþb. í síðustu ríkisstj. Það er því ekki seinna vænna að bæta fyrir þau mistök sem gerð hafa verið í þessu máli á ábyrgð Alþb.

Nokkrir þm. hafa haft orð á því að rekstrarkostnaður ráðuneyta hækkaði óeðlilega mikið í fjárlagafrv. Ég svara þessu með því að vísa til ræðu minnar og þess sem þar er sagt um viðleitni ríkisstj. til að koma á raunhæfum fjárlögum og jafnframt benda á að prósentuhækkanir frá áætlaðri niðurstöðu í ár eru mun lægri eins og fram kemur í frv. Þannig hækka önnur rekstrargjöld um aðeins 16.2% frá endurskoðaðri áætlun 1983, þótt hækkun sé 93% frá hinum marklausu fjárlögum ársins í ár.

Mig langar að spyrja hæstv. fyrrv. fjmrh., Ragnar Arnalds, að því hvort hann telji að álagðar og gjaldfallnar tekjur, en óinnheimtar í árslok 1982 muni innheimtast á næsta ári og hvort ekki hafi verið gert ráð fyrir því í fjárlögum 1983. Af 850 millj. kr. rekstrarafgangi ríkissjóðs af árinu 1982 eru rúmlega 300 millj. vegna aukningar á útistandandi beinum sköttum á árinu 1982 og rúmlega 200 millj. vegna sölu og orkujöfnunargjalds.

Hv. þm. Ragnar Arnalds geymdi ekki þessar 500 millj. kr. fyrir mig til greiðslu á þeim mikla halla sem verður á ríkissjóði í ár. Hann geymdi mér í reynd ekki neitt. Þegar ég tók við nam yfirdráttur á hlaupareikningi í Seðlabankanum 1.4 milljarði kr. Ef fyrrv. hæstv. fjmrh. hefur haft 850 millj. kr. í kassanum um áramót, þá er eitthvað, ef ég má orða þannig á góðri íslensku, „rotten in the state of Denmark“.

Greiðsluhalli ríkissjóðs í árslok 1983, sem nú er áætlað að geti numið allt að 1 milljarði 200 millj. kr. má fyrst og fremst rekja til verulega minnkandi tekna ríkissjóðs sem geta numið allt að 800–1000 millj. kr. á þessu ári.

Í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e. kom glögglega fram að stefna hans í ríkisfjármálum er aðeins ein, þ.e. að auka skatta á þjóðinni. Ég er alfarið á móti þeirri stefnu. Ég vil og mun mæta tekjulækkun ríkissjóðs með lækkun útgjalda en ekki auknum sköttum eins og ég gat um í ræðu minni hér fyrr. En það er eitt af meginatriðum fjárlagafrv. fyrir árið 1984.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. taldi að ríkisstj. hefði aukið útgjöld ríkissjóðs árið 1983 um 799 millj. kr. og ef slíkar ákvarðanir hefðu ekki verið teknar yrði ríkissjóður sem næst í jafnvægi við lok þessa árs. Um þessi ummæli hef ég eftirfarandi að segja:

Rétt er að ekki var séð fyrir 100 millj. kr. fjáröflun til vegagerðar. Hins vegar er rétt að hafa það í huga að fyrrv. ríkisstj. ákvað að framkvæmdir skyldu vera í samræmi við drög að vegáætlun. Þessi ákvörðun var tekin þótt engin vegáætlun hefði verið samþykkt og því síður hefði verið tryggt hvernig afla skyldi fjár til fyrirhugaðra framkvæmda.

Hv. þm. gagnrýnir einnig að ríkisstj. skyldi hafa beitt sér fyrir mildandi aðgerðum sem kostuðu 405 millj. kr. Þetta er rétt. En hefði ríkisstj. ekki gripið til þessara ráðstafana og verðbólgan geyst áfram óheft hefðu útgjöld ríkissjóðs orðið um 200 millj. kr. hærri. Efnahagsaðgerðir frá því í maí s.l. veittu viðnám gegn verðbólgunni. Enn fremur er rétt hjá fyrrv. fjmrh. að greiðslur ríkissjóðs vegna vaxta og geymslukostnaðar hafi hækkað frá fjárlögum um 178 millj. kr. En hæstv. fyrrv. fjmrh. virðist búinn að gleyma því að þegar hann lét af embætti höfðu verið greiddar 100 millj. kr. í vaxta- og geymslukostnað án þess að til þess hefði verið aflað tekna.

Niðurskurður 1983 um 300 millj. kr. kom ekki til framkvæmda því að fljótlega var ljóst að fjárhagur flestra stofnana ríkisins var slíkur að það var allsendis óraunhæft að beita niðurskurðarheimildinni. Þegar fyrrv. fjmrh. lét af embætti á miðju þessu ári hafði hann samþykkt aukafjárveitingar yfir 500 millj. kr.

Það er rétt ábending hjá fyrrv. fjmrh. að ekki er ráðgert að greiða vexti til Seðlabankans á næsti ári af þeirri skuld er verður á hlaupareikningum ríkissjóðs í lok þessa árs. Hér verður að segja hverja sögu eins og hún gengur. Það bú er þessi ríkisstj. tók við var erfitt og rangar forsendur fjárlaga þessa árs hafa leitt til þess að skuldastaða við Seðlabankann er nú 1.8 milljarður kr. Um skuldina í lok þessa árs eða vexti af henni á næsta ári hefur ekki enn verið samið við Seðlabankann, en málið hefur þó verið rætt. Ég vona að samningar takist á þann veg að vextir og afborganir þurfi ekki að reyna meira á greiðsluþol ríkissjóðs á árinu 1984 en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir.

Hæstv. fyrrv. fjmrh. benti réttilega á að fyrirhugaðar lántökur vegna vegagerðarinnar, sem fram komu í lánsfjáráætlun að fjárhæð 480 millj. kr., komu ekki fram í A-hluta fjárlaga. Rekstrarhalli mun að sjálfsögðu verða á fjárlagadæminu ef þessi upphæð eða þessi fjárhæð yrði tekin inn án frekari aðgerða. Ég vil benda á að í A-hluta fjárlaga fyrir árið 1984 eru nú teknar inn vaxtagreiðslur vegna byggðalínu, eins og komið hefur fram hér í umr., að fjárhæð 267 millj. kr., sem hæstv. fyrrv. fjmrh. kaus að fjármagna með lántöku í B-hluta fjárlaga áður. Alþm. verða nú að taka afstöðu til þess hvort eigi að reka ríkissjóð á næsta ári með rekstrarhalla eða gera þær breytingar á fjárlagafrv. sem hér er til umræðu þannig að rekstrarafgangur verði á næsta ári. Eigi halli að verða á ríkissjóði vil ég að hann sé öllum ljós en ekki sé verið að fela gjöldin á millifærslum í B-hluta ríkisreiknings.

Stefna ríkisstj. í launamálum á næsta ári er alveg ljós. Frá heildarlaunagreiðslum á verðlagi des.-mánaðar á næsta ári á að draga saman ársútgjöld launa um 2.5% á árinu 1984, m.a. með því að endurráða ekki í störf sem losna ef hægt er að komast hjá því. Kannske væri hægt að komast hjá því með tilfærslum á milli starfa eða stofnana, ráða ekki í sumarafleysingar og draga úr yfirvinnu. Ráða ekki í sumarafleysingar þýðir einfaldlega það að minnka þjónustu á meðan á sumarleyfum stendur.

Herra forseti. Ég vil ljúka máli mínu með því að þakka virðulegri stjórnarandstöðu málefnalegar umr. við þessa fyrstu umr. um fjárlagafrv. í dag. Vonandi megum við eiga góða samvinnu við fjárlagagerðina fyrir árið 1984 hafandi í huga þau vandamál sem blasa nú við íslensku þjóðinni. Ég vil að lokum, herra forseti, þakka samstarfsfólki mínu í fjmrn. fyrir frábærlega vel unnin störf við gerð þessa fjárlagafrv. Þar er hinn hæfasti starfskraftur í hverri stöðu.