28.02.1984
Sameinað þing: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3222 í B-deild Alþingistíðinda. (2785)

173. mál, takmörkun fiskveiða í skammdeginu

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég fagna till. og málflutningi hv. flm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar í sambandi við till. Ég lít svo á að hann hafi verið að lýsa því yfir — og hann sagði það reyndar í ræðustól — að það væri fleiri leiðir hægt að fara til að skipuleggja sjósókn á Íslandsmiðum en þá kvótaleið sem valin var fyrir áramótin og verið er að undirbúa núna. Ég vænti þess að jafnvel fleiri þm. Sjálfstfl. séu stuðningsmenn þess að farin hefði verið önnur leið en sú leið sem valin var, þ.e. sú leið hefði verið farin að takmarka sjósókn í skammdeginu og svo á öðrum ákveðnum tímabilum ársins, eins og hv. flm. lýsti í ræðustól áðan. Með því að slík yfirlýsing er komin fram á hv. Alþingi geri ég jafnvel ráð fyrir að það sé meiri hluti á hv. Alþingi fyrir því að sú leið sem þar er gert ráð fyrir hefði verið farin, en ekki sú leið sem nú á að fara. Það er sem sagt að koma í ljós að sú samþykkt sem gerð var hér fyrir áramótin var af þeim toga að meiri hluta Alþingis var raunverulega þrýst til að samþykkja ákveðið valdaafsal — valdaafsal sem var á þann veg að hv. alþm. höfðu ekki möguleika eða tíma til að skoða hvað raunverulega var að ske með því. Það er að koma í ljós að jafnvel er meiri hluti á hv. Alþingi fyrir að fara aðra leið en nú hefur verið valin. Hér eru fimm flm., en eins og ég sagði áðan geri ég ráð fyrir að það séu fleiri menn úr Sjálfstfl. sem standa að þessari till. en flm. Ég tel fulla ástæðu til að ætla að eins sé ástatt um aðra flokka, að menn séu hlynntir till.

Það verður sjálfsagt ekki snúið til baka með það kvótakerfi sem nú er verið að koma í kring. Flestir álíta að þar hafi verið gerð mistök og við blasa alls konar vandamál vítt um landið. En eðli till. þessarar er þó þannig, að við hljótum að líta fram á við og áætla hvort ekki á einmitt að fara þessa leið þegar takmarka skal sókn í íslenska fiskistofna — og ekki eingöngu víð þær aðstæður, heldur einnig fara að þeirri sjálfsögðu kröfu íslenskra sjómannasamtaka á undanförnum árum að um hátíðar verði ekki róið á Íslandi. Víða um land hafa skip ekki verið að veiðum frá því rétt fyrir jól og fram yfir áramót, en aðrar útgerðir hafa talið það æskilegt að sækja sjó á þessum tíma. Í till. kemur fram að eins og við reyndar vitum öll, hv. alþm., er skammdegið bæði hættulegt tímabil og ódrjúgt til veiða. Er því ósköp eðlilegt og sjálfsagt að orðið verði við kröfu sjómannasamtaka um að þá verði skylda að gefa frí.

Ég geri ekki ráð fyrir að í öðrum löndum sé sjór sóttur eins stíft og á Íslandi. Í næstu löndum, t.d. í Noregi og Færeyjum, er sjósókn á allt annan máta en hér. Þar er tekið tillit til helgidaga. Þar er komið inn á laugardögum og verið í höfn yfir helgina. Þetta þekkist ekki á Íslandi. Það er sótt eins stíft og ég nefndi áðan. Raunverulega er bakgrunnur þessarar till. að stór hluti fiskveiðiflotans er að veiðum yfir stærstu hátíðar kristinna manna, þ.e. á jólum, páskum og hvítasunnu. Þetta er talið allt að því sjálfsagt á Íslandi. Ég held að það mundi ekki skekkja þjóðarbúið mikið þó að ákveðið yrði að þessar stórhátíðar yrðu frítími fyrir íslenska sjómenn engu síður en aðrar atvinnustéttir á landinu. Mikilvægast er þó skv. þeirri till. sem hér er flutt, að þess verði leitað og ákveðið verði að á Íslandi verði ekki sóttur sjór í mesta skammdeginu, þ.e. seinni hluta desember og fram í janúar.

Ég fagna þessari till. og vænti þess að hún fái góða leið í gegnum Alþingi.