28.02.1984
Sameinað þing: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3227 í B-deild Alþingistíðinda. (2789)

173. mál, takmörkun fiskveiða í skammdeginu

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það var ánægjulegt að heyra skynsamlegar raddir í þessum málum, og ég vona að þó að menn hafi ekki viljað trúa mér þegar ég hef verið að tala í þessum efnum taki þeir ofurlítið mark á þaulreyndum togaraskipstjóra eins og hv. þm. Tryggva Gunnarssyni.

Það hefur verið drepið á margt í þessari stuttu umr. þó að verið sé að fjalla um tiltölulega afmarkað mál sem ekkert kemur kvótamálinu við eða stjórnun fiskveiða. Hv. flm. með hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson í broddi fylkingar eru hér að leggja til að dregið verði úr veiðum í svartasta skammdeginu. Og það sér hver maður hver hefur átt hugmyndina að því. Bak við þessa till. er skynsamleg hugsun, eins og jafnan þegar sá hv. þm. fjallar um mál af þessu tagi.

Það er galli við till. að hún er nokkuð óljós. Það er ekki sagt nákvæmlega um hversu lengi eigi að stöðva veiðar og hverja eigi að stöðva. Sannleikurinn er sá, að sjósókn er aldrei eins takmörkuð og í skammdeginu. Það eru náttúrlegar ástæður sem valda því. Það eru hin miklu veður síðast í nóvember og einnig hluta af desember og janúar sem takmarka mjög sókn í fisk.

Ég verð að segja að ef menn ætla sér að stjórna fiskveiðum með því að stöðva sóknina í kannske einn mánuð eða einn og hálfan mánuð á þessu tímabili, þá er lítið dregið úr veiðum með þeirri aðferð. Það er rétt að auðvitað er dýrara að stunda sjó í mikilli ótíð og af því leiðir náttúrlega að minna er að hafa, mikið reynt á menn, skip og veiðarfæri.

Margir hafa verið að segja það í þjóðfélaginu á undanförnum árum að fiskveiðar og fiskvinnsla séu okkar stóriðja. Tilkoma togaranna eftir 1970 gjörbreytti þessum atvinnuvegi landsins. Í staðinn fyrir að menn gátu aðeins verkað fisk í takmarkaðan tíma með tímabundnu atvinnuleysi víða um landið var togurum dreift út um allt land og fólk hafði jafna og stöðuga vinnu árið um kring. Með bættum tækjakosti og betri meðferð á fiski hefur þetta reynst okkar stóriðja.

Það er svo með stóriðju, eins og annan iðnað sem er stundaður af svo mörgu fólki og er svo mikils verður, að ekki er praktískt að tala um að stöðva hana í einn eða tvo eða þrjá mánuði á árinu. Það er enginn vafi á að togararnir okkar, a.m.k. talsverður hluti togaraflotans, verða að stunda sjó þessa vetrarmánuði þó að frátafir verði að sjálfsögðu af náttúrlegum ástæðum. Hitt er svo annað mál og snertir kannske ekki beint þessa till., að það hlýtur að vera hægt að stöðva togaraflotann yfir jólahátíðina, nokkra daga. Það þarf ekki að rugla dæminu mjög mikið. Það er vel hugsanlegt. Ég man þá tíð þegar ég var á togurum í gamla daga og þótti nú heldur súrt í broti að vera einhvers staðar úti í Ballarhafi á meðan fjölskyldan sat í kringum jólatréð. Þetta hafa menn þurft að láta sig hafa og menn lifa það svo sem af. Sannleikurinn er sá að oftast eru jól þegar sjómennirnir koma heim eftir langa útivist, hver svo sem mánuðurinn er.

Herra forseti. Inn í þessa umr. hefur blandast ákaflega einkennilegt tal, m.a. það að háttv. þingheimur hafi verið þvingaður til að koma ákveðnu lagafrv. í gegnum hið háa Alþingi. Þetta eru nokkuð stór orð. Við þessi orð er að sjálfsögðu ekki hægt að standa og þeim mun meiri óþarfi er að vera að hafa þau yfir. Það verður enginn þvingaður til neins.

Hitt er svo annað mál, að ef menn skoða þau lög sem sett voru hér í maí 1976 og afgreidd voru úr Ed. síðari hluta maímánaðar, síðasta mál þingsins, ef menn nenna bara að lesa það, þá eru í þeim lögum heimildir til að gera þetta allt saman. Það hefur verið settur kvóti á alls kyns veiðar nú til langs tíma. Allir þekkja rækjukvóta, humarkvóta, síldarkvóta, loðnukvóta o.s.frv., heildarkvóta og kvóta á skip. Það hefur verið kvóti á skip á síldveiðum með nót, kvóti á skip á loðnu og kvóti á skip á þorski. Ég nenni satt að segja ekki að hafa þetta yfir einu sinni enn. Menn vilja bara ekki vita þetta. Hafi verið heimilt samkvæmt þeim lagaramma sem teiknaður var, ég þori nú varla að nefna orðið rammi hér, að skammta t.d. loðnuskipunum 800 tonna þorskkvóta á vertíðinni, þá hlýtur það að hafa verið gert samkvæmt lögum. Sú lagabreyting sem varð í desember s.l. var ósköp einfaldlega samþykkt til að taka af öll tvímæli um að þetta væri hægt. Það þurfti ekki lagabreytingar til að binda togveiðar leyfum. Það var heimilað í síðustu málsgr. 14. gr. laganna frá 1976. Sú heimild var fyrir, enda brúkuð margsinnis. Lagabreytingin litla, kannske óþörf, er fór í gegnum þingið í desember, var einungis til þess að menn gætu ekki farið í mál ef kvóti var settur á þannig að þetta yrði lögfræðilega klárt. Því hafði verið beitt til langs tíma að binda togveiðar leyfum. Hafi menn ekki vitað það, þá hefðu þeir þurft að kynna sér það.

Það er ákaflega leitt þegar menn brúka stór orð. Hvað þýðir orðið „valdaafsal“? Hvað skyldi „valdaafsal“ þýða? Hver afsalaði sér hverjum völdum með samþykkt frv.? Hver var það, frá hverjum og til hvers? Einhver sem talaði hér og skrækti út úr sér mörgum ræðum við hverja einustu umr. í vetur var að tala um að Alþingi væri að afsala sér völdum. Hvaða völd hafði Alþingi í þessum efnum? Hafi verið fært vald frá einum aðila til annars, þá var það frá togaraskipstjórum sem veiddu þorskinn, til sjútvrn. Alþingi hefur aldrei nokkurn tíma mótað fiskveiðistefnu á Íslandi. Menn geta samt tuggið vitleysuna svo oft í sjálfs síns eyru að þeir eru farnir að trúa henni.

Það er nokkuð mikið sagt þegar þm. standa hérna upp og segja að flestir álíti kvótaskiptinguna mistök. Það eru ákaflega skiptar skoðanir í þessum efnum. Það eru auðvitað margir sáróánægðir með sinn hlut. Hver verður ekki óánægður yfir því að mega aðeins veiða 40 fiska á þessu ári miðað við 100 árið 1981? Skiptingin kemur að vísu öðruvísi niður. Það er reiknað með meðaltali þriggja ára og ákveðið hlutfall af því sem hver má fiska. Ég hef ekki heyrt að menn séu í alvöru á móti því að jafna þessum byrðum, að menn fái þá í hlutfalli við það sem þeir hafa til unnið. Eiga aflamennirnir og hinar duglegu skipshafnir þeirra ekki að fá að njóta einhvers þess sem þeir hafa gert vel á undanförnum árum? Ég held að flestir séu sammála um það.

Hitt er annað mál að í sambandi við þessa leið eru mjög mörg og erfið vandasöm úrlausnarefni. Það er eins og þegar verið er að selja skip á milli landshluta. Menn þekkja dæmi um að rækjubátur er seldur að vestan og suður með sjó. Hvað á hann að gera við rækjukvóta, bátur úr Hornafirði eða Vestmannaeyjum? Það er skipt um skipstjóra, sem fiskar meira á öðru skipi, en hefur ekki eins mikla möguleika á nýja skipinu á að fá nægilegan aflakvóta o.s.frv. En höfuðóánægjan held ég að sé hjá þeim sem fá enn skertan þorskveiðikvóta vegna sérveiðileyfa sem þeir hafa brúkað á undanförnum árum. Þeir sem hafa mokað upp skel í Breiðafirði fá frádrátt á sinn þorskkvóta og skapar það mikil vandkvæði þar, ekki skal ég draga neitt úr því. Sama er að segja um síldveiðar. Þeir sem hafa fengið síldveiðileyfi fá skerðingu á sínum þorskkvóta— að vísu mjög litla, munar næstum engu á þeim. En þeir sem hafa verið á humarveiðum fá líka talsvert mikla skerðingu á þorskafla. Annar bolfiskafli skerðist ekki umtalsvert sem kunnugt er.

Fyrir nokkrum árum var mikið fundið að því að loðnuskip ættu tækifæri á að ná sér í þorsk og annan bolfisk, og það var sagt: Þeir hafa nóg af loðnunni og þess vegna skutu þessir menn ekki taka þorskinn frá togurunum og bátunum. — Mikill hluti loðnuflotans var smíðaður í þeim tilgangi að veiða bolfisk ekki síður en síld og loðnu og hafði gert það til margra ára. Mér fannst alltaf mjög ósanngjarnt að taka þennan afla af loðnuskipunum vegna þess að þeir höfðu sótt í þessa fiskistofna til margra ára. Hvað er verið að gera núna þegar þrengir að? Þá líta menn svo á að allar veiðar hljóti að takmarkast vegna þess að ekki er hægt að vísa í neinn stofn sem ekki er fullnýttur a.m.k., og sumir stofnar sem hafa verið skrapveiddir á undanförnum árum eru því miður greinilega ofveiddir.

Menn líta á heildaraflasummuna í landinu sem einn pakka sem beri að skipta á milli þeirra sem sækja sjó á Íslandi. Sumir hafa tækifæri til að ná með tiltölulega einföldum og oft ódýrum hætti í annan afla. Er þá ekki sanngjarnt að þeir láti eitthvað af sínum bolfiskafla í staðinn? Kannske eru menn ekki sammála um það, en þetta er kjarni málsins.

Það er enginn vandi að leysa þessi mál og gera alla ánægða. Þeir sem eru að velta sér núna upp úr óánægjunni í landinu fá þakkir fyrir. Auðvitað er ákaflega óvinsælt að láta taka af sér aflamöguleika. Í þessum efnum voru ýmsar leiðir mögulegar, en að mínum dómi er þetta eina leiðin þó slæm sé og mjög erfið í framkvæmd. Hún ber í sér vott af sanngirni, jafnræði og jafnrétti. Hinar leiðirnar voru bara slagur, eins og fyrri daginn, um kökuna, miskunnarlaus bardagi sem þýddi að sumir hefðu fengið talsvert miklu meira en í kvótanum, en aðrir að sama skapi minna. Eigum við að berjast fyrir frumskógalögmálinu í þessum efnum?

Herra forseti. Nú er ég einnig aðeins kominn út fyrir pistil dagsins, en það var gefið tilefni til. Ég hef gaman af að tala um þetta. Það er allt í lagi. Það gerir svo sem ekkert til þó að við ræðum hér einhver mál af viti á meðan menn eru að stjórna Norðurlöndunum í Stokkhólmi, sem auðvitað hefur aldrei tekist.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Tryggva Gunnarssyni að við tókum alls ekki nógu fljótt á þessu. Sannleikurinn er sá, að það er auðveldast að byrja á slíkri skipulagningu þegar mikill fiskur er til.Það var kjörið tækifæri 1981. Við hefðum ekki einu sinni þurft að drepa öll þessi kvikindi. Við hefðum getað átt bærilega innstæðu. Við hefðum kannske ekki farið eins illa með fiskinn. Við hefðum getað nýtt hann betur.

En það er eins og hv. þm. sagði: Þessum málum hefur ekki verið stjórnað fyrr en í óefni er komið. Hver treystir sér til þess að mæla með því að sleppa öllum lausum í þetta? Hver treystir sér til þess? Vonandi er miklu meiri þorskur til en spáð er, eins og er með loðnuna. Enginn fiskifræðingur sá nema tvær loðnur á rúmmetra í sjó. En þetta var ekki svona. Allt í einu gaus upp loðna, milljón tonn á þröngu svæði. Ég ætla að vona að það sama verði upp á teningnum í þorskveiðinni. Þá skulum við, hv. þm. Tryggvi Gunnarsson og ég (Gripið fram í: Fagna báðir.) — fagna báðir með viðeigandi hætti.