28.02.1984
Sameinað þing: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3234 í B-deild Alþingistíðinda. (2793)

173. mál, takmörkun fiskveiða í skammdeginu

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins leiðrétta það að kvótafyrirkomulag loðnuveiðanna hefur alls ekki verið afnumið. Það hafa verið gefnir út nýir kvótar til skipanna nú. (Gripið fram í.) Það hafa verið gefnir út nýir kvótar til skipanna. Hins vegar er gert ráð fyrir því að ákveðið magn, 60 þús. tonn, verði skilið eftir og þau skip sem hafa lokið við sína kvóta geti veitt úr því, en það er jafnframt bundið því skilyrði að siglt sé með það magn til fjarlægustu staðanna. Það sem skiptir máli nú varðandi loðnuna er að við náum sem mestu af henni og það verður að tryggja að afköst verksmiðjanna í landinu öllu séu notuð.

Það er rétt að fram komi að sum skipanna eru u.þ.b. að ljúka við sinn kvóta. Ef algert frjálsræði ríkti áfram í þessu efni mundu takmarkast möguleikar þeirra skipa sem eiga hvað mest eftir. Ég vildi því aðeins leiðrétta það að það hefur ekki verið afnumið kvótakerfið í loðnuveiðunum. Það er hins vegar alveg rétt að vafasamt er að við náum þessu magni. Loðnan er komin að hrygningu og kannske er ekki eftir nema vika, í mesta lagi 10 dagar að því er þá göngu varðar sem er komin hér inn á Faxaflóa. Hins vegar er nokkurt loðnumagn sunnan við Reykjanes. En ef ein ganga kemur í viðbót, það gæti gerst, við vitum það ekki, þá gæti það breytt stöðunni þannig að þetta magn gæti náðst. Það er ekki rétt að fullyrða neitt um það enn þá að útilokað sé að ná þessu magni, þótt ég taki undir það að það er á engan hátt öruggt að svo muni gerast, því miður.