28.02.1984
Sameinað þing: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3239 í B-deild Alþingistíðinda. (2797)

173. mál, takmörkun fiskveiða í skammdeginu

Sverrir Sveinsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að leggja orð í belg í þessari umr. Hún hefur verið mér um margt fróðleg og varpar líka skýru ljósi á það ástand sem í þjóðfélaginu er og ekki óeðlilegt að hún hafi tekið þá stefnu sem raun ber vitni. Ég hygg að ekki sé óeðlilegt að þetta tengist kvótasetningu á fiskveiðar og ég hygg líka að ekki sé óeðlilegt að skoðað sé í raunhæfu ljósi hvort ekki sé rétt, eins og fram kemur í grg. með þáltill., að tengja saman viðhald skipanna og þá takmörkun sóknar sem nauðsynleg er.

Það er ósköp eðlilegt að umr. hafi verið með þessum hætti nú vegna þess að umr. um fjárlögin fyrir áramótin fór saman við umr. um takmörkun fiskveiða. Ljóst er að þegar búið var að kveða á um hvað þessi takmörkun var mikil urðu menn uggandi um sinn hag. Eins og fram kom í máli hv. 4. þm. Vesturl. áðan um hvernig ástandið yrði í Grímsey ef þeir væru búnir að ljúka sínum kvóta í mars þá geta Grímseyjarnar orðið nokkuð margar í kringum Ísland í þessu tilliti.

Af því að fram kom í máli hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar fyrr í umr. um ástandið á Siglufirði, hvernig menn hefðu þreyð svartasta skammdegið þá, er þess að geta að atvinnulíf var þá með allt öðrum hætti en nú er. Þess vegna fagna ég því að í grg. kemur fram að tekjumissi sjómanna verði að mæta með einhverju móti eins og fram hefur komið í umr. og þar nefndur sérstaklega Atvinnuleysistryggingasjóður.

Það er alveg skýrt í mínum huga að árangur varð af kvótasetningu á loðnuveiðum. Ég sá hann raunverulega virka. Það var búin að vera nokkuð mikil umr. um hvort ætti að skipta loðnuveiðunum á milli skipanna og menn voru ákaflega uggandi um hver viðbrögð útgerðarmanna og sjómanna yrðu í því efni. Ég sá á Siglufirði veiðarnar breytast úr því kappi sem þær voru stundaðar af og yfir í það að vera stundaðar með skynsamlegum hætti — þá á ég við sóknina — bæði með tilliti til meðferðar skipa og áhafna. Þetta held ég að við séum að nálgast nú. Við verðum að standa á annan veg að veiðum og vinnslu aflans í landi og ekki er óeðlilegt að þá sé litið til þess skammdegis þegar veður eru válynd og hugleitt með hvaða hætti væri þá hægt að tengja saman nauðsynlegar viðhaldsviðgerðir skipanna og takmörkun veiðanna.

Eins lýsi ég því hér yfir að ég er fylgjandi því að þetta mál verði skoðað og mun styðja það að þetta verði sent ríkisstj. til skoðunar. Auðvitað getum við endalaust deilt um áhrif aflaminnkunar á einstaka landshluta og ég tek fram að ég mun ekki lengja þessa umr. að neinu leyti. Þessi þáltill. gerir ekki ráð fyrir því að við förum hér ítarlega út í umræður um stjórnun fiskveiða, eins og sjútvrh. tók fram, heldur vildi ég aðeins tjá mig í þessu efni, að ég held að þarna sé mál sem verulega er skynsamlegt að skoða núna og einmitt í sambandi við þá takmörkun sem við neyðumst til að horfa fram á á þessu ári. Væntanlega kemur þorskurinn seinna á árinu og þá veiðist hann kannske annars staðar en á hinum hefðbundnu vertíðarsvæðum en þjóðin öll mun njóta góðs af því. Það er ekki lengra síðan en þegar loðnukvótinn var aukinn þá var það strax reiknað út í áhrifum hjá Þjóðhagsstofnun hvað þetta varðaði þjóðarafkomu okkar, íbúa landsins.