28.02.1984
Sameinað þing: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3240 í B-deild Alþingistíðinda. (2799)

211. mál, átak í nýiðnaði

Flm. (Kristófer Már Kristinsson):

Herra forseti. Það verður ekki séð af fundarmætingu að sjávarútvegsmál séu ofarlega á vinsældalista þeirra sem starfa í þessari virðulegu stofnun. Það er að sjálfsögðu eftir sem áður heiður og forréttindi að fá tækifæri til þess að ávarpa þá hv. þm. sem hér eru inni og hinar virðulegu innréttingar.

Erindið er annars að ég mæli hér fyrir till. til þál. um átak í nýiðnaði, sem er 211. mál í Sþ. á þskj. 376. Meðflm. mínir eru hv. þm. Guðmundur Einarsson, Kolbrún Jónsdóttir og Stefán Benediktsson. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir aðgerðum til eflingar nýiðnaði sem feli í sér eftirfarandi:

1. Þáttur áhættulána til atvinnuvega verði aukinn með tilliti til athugana á nýiðnaðarmöguleikum, vöruþróun, markaðssetningu og fleiri þáttum er leitt geti til nýsköpunar, svo sem upplýsingaöflun, leyfisframleiðslumiðlun og mati á hugmyndum uppfinningamanna.

2. Iðnþróunarsjóðir landshluta fái annaðhvort afmarkaðan tekjustofn frá ríki, t.d. hluta af söluskattsinnheimtu landshlutans, eða beint framlag úr Byggðasjóði. Framlag Byggðasjóðs verði aldrei minna en framlag sveitarfélaganna sem að sjóðnum standa.

3. Kannað verði hvar hagkvæmt er að koma á fót nýiðnaðarsvæðum með tilliti til betri nýtingar, t.d. á hafnaraðstöðu og orkuveitum.

4. Stofnað verði alhliða tæknibókasafn er sniðið verði að þörfum atvinnuveganna.

5. Iðnrn. verði falið að láta gera fræðstu- og áróðursefni fyrir útvarp og sjónvarp og til dreifingar meðal almennings um möguleika einstaklinga og samtaka þeirra í nýiðnaði.

6. Leitað verði færra leiða til að tryggja iðnaðarfyrirtækjum orku á samkeppnishæfu verði.“

Í grg. er vitnað í stefnuskrá Landssambands iðnaðarmanna um nýiðnað, en þar segir svo, með leyfi forseta: „Nýiðnaðarstarfsemi verður til á tvennan hátt. Annars vegar með því að byggja á grunni starfandi iðnaðar, en hins vegar með stofnun nýrra fyrirtækja vegna nýrra og áður óreyndra framleiðslumöguleika. Iðnþróun getur ekki orðið hér á landi, nema lögð sé áhersla á báða þessa þætti.“

Íslendingar hafa yfirleitt verið bjargálna menn. Oft hefur þó sorfið að í plágum og hallærum. Þjóðin hefur ávallt kosið þá leið að yfirvinna vandann og sigrast á neyðinni — aldrei uppgjöf eða aðlögun, heldur endurreisn og baráttu. Nú er hvorki um plágu né hallæri að ræða, heldur stöndum við frammi fyrir afleiðingum áratuga skammsýni stjórnvalda í gegnum tíðina og nú verður ekki annað séð en til þess sé ættast að þjóðin beygi sig, aðlagist vondri pólitík og vitlausum stjórnarathöfnum. Á þetta verður ekki fallist.

Herra forseti. Í umr. undanfarnar vikur hefur verið lögð áhersla á hin smáu skref og varað við stórum skrefum og yfirboðum. Þetta er skynsamlegt. Sú þáttill. sem hér er mætt fyrir leggur áherslu á stutt skref e.t.v. ekki eftir troðnum slóðum, en að mati flm. vel þess virði að þau séu tekin.

Lagt er til að iðnþróunarsjóðir í höndum heimamanna fái til ráðstöfunar hluta af því fjármagni sem fer í gegnum Byggðasjóð. Í þáltill. er jafnframt bent á þá leið að afmarka tekjustofn fyrir þessa sjóði, t.d. hluta af innheimtum söluskatti innheimtumanna ríkissjóðs innan kjördæmis. Þarna eru mörg ljón í veginum, enda er á þetta bent fyrst og fremst til að vekja athygli manna á leiðum af þessu tagi sem vísast verða að raunveruleika þegar búið er að efla lýðræðislega uppbyggð yfirvöld í héruðum, koma á þriðja stjórnsýslustiginu.

Það er skoðun flm. að aðilar í héraði séu best í stakk búnir til þess að meta af óbrjálaðri skynsemi þá kosti sem til greina koma í atvinnuuppbyggingu. Það er ekki

heldur léttvægt í þessu efni að í þessari ráðstöfun, þ.e. opinberu framlagi til iðnþróunarsjóða, felst viðurkenning löggjafans á því brautryðjandastarfi sem unnið er hér heima í héruðum. Að sjálfsögðu eru hinu háa Alþingi allir vegir færir í þá átt að skilyrða þetta framlag svo sem þurfa þykir.

Umr. um atvinnumál hafa verið fyrirferðarmiklar á yfirstandandi þingi. Það er maklegt. Hryggilegt er að enn skuli ekki hafa tekist að renna fjölbreyttari og styrkari stoðum undir íslenskt atvinnulíf en raun ber vitni, þrátt fyrir heróp og margítrekaðar viljayfirlýsingar stjórnvalda í gegnum tíðina. Það er skoðun mín að bjargráðum þessarar þjóðar verði ekki ráðið á stjórnarskrifstofum og gildir þá einu hversu frjóir hv. þm. eru í leit sinni að nýjum atvinnutækifærum og viðfangsefnum fyrir landsmenn. Hér þarf sameiginlegt átak þjóðarinnar allrar og frumkvæði þeirra sem vilja og nenna.

Þjóðin hlýtur að krefjast þess að með skynsamlegri lagasetningu skapi hið háa Alþingi þær aðstæður í samfélaginu sem duga til nýrrar sóknar og bættra lífskjara. Forsenda þess arna er upplýsingastarf, ekki einungis til að vekja almenna forvitni og áhuga á nýiðnaðarmöguleikum sem leið til sjálfsbjargar, heldur einnig til þess að eyða fordómum og tortryggni í garð fyrirtækja í landinu, stórra og smárra. Hér er ekki átt við einhvers konar innrætingarstarfsemi af einu eða öðru tagi, heldur upplýsingar sem sáir í þann akur sem væntanlega er plægður í skólum landsmanna. Lagt er til að gert verði fræðslu- og áróðursefni fyrir útvarp og sjónvarp og jafnframt til dreifingar meðal almennings. Efnið þarf ekki að einskorða við nýiðnaðarhugmyndir. Tilvalið er að nota þessa leið til að vekja athygli starfandi fyrirtækja í iðnaði og iðnaðarmanna á margvíslegum faglegum nýjungum. Slíkt er mjög tíðkað í nágrannatöndunum og gefur góða raun.

Fyrr á árum var til á vegum samtaka iðnaðarmanna vísir að tæknibókasafni sem nú er, eftir því sem næst verður komist, „búið gemma“ eins og börnin segja. Nauðsyn þess að atvinnuvegirnir og áhugafólk um þá eigi greiðan aðgang að upplýsingum og ítarefni er augljós. Það er skoðun flm. þessarar till. að þjóðin hafi hreinlega ekki efni á að sniðganga í þessu sambandi þá tækni sem nútíminn býður upp á við geymslu og dreifingu upplýsinga og þekkingar. Deila má um hvar varðveita skuli safn sem þetta, en skynsamlegt virðist að það verði sett í þá Þjóðarbókhlöðu sem nú rís. Hlýtur það að skapa aukna möguleika á að nýta betur upplýsingar, tækjakost og mannafla.

Ýmislegt bendir til þess að raforka til stóriðju frá nýjum orkuverum hérlendis verði ekki samkeppnisfær við orkuverð erlendis. Það er því sennilegt að hlutdeild orkufrekrar stóriðju í vaxandi vinnumarkaði verði lítil á komandi árum. Fátt bendir til þess að þetta sé tiltakanlega vont. Víða um heim er lögð aukin áhersla á smá og meðalstór fyrirtæki. Innan Efnahagsbandalags Evrópu var s.l. ár helgað smáum fyrirtækjum. Nú er smátt og stórt út af fyrir sig afstæð hugtök, en á hérlendan mælikvarða hljóta t.d. þau skilyrði sem birtast í 11. gr. frv. til l. um frádrátt frá skattskyldum tekjum manna vegna fjárfestingar í atvinnurekstri að teljast meinlegur galli á annars góðu máli.

Það er margt sem mælir með smáum fyrirtækjum frekar en stórum. Má þar t.d. nefna að atvinnutækifærin eru ódýrari. Það er auðveldara að dreifa þeim. Verði fyrirtækin fyrir skakkaföllum eða fari þau á hausinn eru afleiðingarnar síður alvarlegar. Þau eiga auðveldara með að bregðast við nýjungum og óvæntum aðstæðum, þ.e. aðlögunarhæfni þeirra er meiri. Það er ekki heldur lítils virði að sérhver einstaklingur hefur meiri möguleika á að njóta sín sjálfum sér og öðrum til heilla í smáum einingum en stórum.

Það er ljóst að það ráðast ekki allir í það að stofna fyrirtæki. Það er einnig ljóst að ekki komast öll fyrirtæki sem stofnuð eru á legg. Þess vegna er brýnt að auka þátt áhættulána þannig að menn stofni ekki eignum sínum og heill fjölskyldu sinnar í voða frekar en brýna nauðsyn ber til vilji þeir stofna fyrirtæki. Í nágrannalöndunum er talið að u.þ.b. fjórðungur fyrirtækja komist á legg, verði að raunveruleika. Ekki er ósennilegt að raunin sé svipuð hér. E.t.v. er það hugmynd þeirra sem líta á gróða og frelsi sem bannorð að félmrn. eigi að hafa forgöngu um sköpun þeirra atvinnutækifæra sem þjóðin þarfnast svo brýnt. Slíkt er að mínu mati ekki líklegt til árangurs. Hér þarf að berja bumbur og blása í herlúðra og safna liði í baráttu til bjargálna.

Á dagskrá þessa fundar á þskj. 337 er till. til þál. um fríiðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll. Í till. sem hér er mælt fyrir er einungis verið að fara fram á að þessi kostur verði kannaður, t.d. í tengslum við stóriðju, með það fyrir augum að nýta betur orku og hafnarmannvirki.

Með skilyrtum orkusölusamningum er fyrst og fremst átt við tímabundna samninga til þess m.a. að hjálpa nýjum fyrirtækjum yfir byrjunarörðugleika. Sala á tímabundinni umframorku er til athugunar hjá mörgum orkusölum. Það verður ekki séð að auðvelt sé að setja almennar leikreglur í þessu sambandi, heldur er líklegt að orkuseljandi, hvort heldur er ríki eða sveitarfélag, verði að gera sérstakan samning fyrir hvern og einn sem njóta vill sérstakra kjara á einhvern hátt.

Herra forseti. Stefna í atvinnumálum verður aldrei afgreidd í eitt skipti fyrir öll. Hún verður stöðugt að vera í endurskoðun og þarf að þróast með aðstæðum á hverjum tíma og á hverjum stað. Vandamál íslenskra fyrirtækja, svo sem vöruþróun, fjármálastjórn og markaðsmál, eru ekki séríslensk, en það eru sennilega ranghalar stjórnsýslukerfisins og peningastofnana. Það er skynsamlegt að stefna að því að breyta núgildandi lögum um hlutafélög eða semja ný með það fyrir augum að taka mið af sérstöðu minni hlutafélaga, til þess m.a. að minnka skriffinnsku og afskipti hins opinbera af innri málum fyrirtækja og draga úr lagaboðum, fyrirmælum og alls kyns formsatriðum.

Hér skal einnig tekið undir þá skoðun, að það getur varla stefnt hagsmunum hins opinbera í voða né viðskiptalífinu í hættu þó að smáfyrirtæki í landinu séu látin sem mest í friði.

Ég mæli svo með því að að lokinni umr. verði málinu vísað til atvmn.