29.02.1984
Efri deild: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3268 í B-deild Alþingistíðinda. (2804)

63. mál, sjóntækjafræðingar

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Það var örstutt aths. sem ég vildi beina til n. Það er breytt um orð. Í frv. er held ég talað um gleraugnafræðinga. Hér er komið heitið sjóntækjafræðingar. Það er kannske spurning um íslenskt mál, en hefur ekki orðið „sjóntækjafræðingur“ víðari merkingu en aðeins lýtur að gleraugum? Hvað með stjörnukíkja og önnur slík verkfæri?

Ég vildi að þetta atriði væri athugað og það færi ekki óbreytt út úr hv. deild ef eitthvað væri við þessa nafngift að athuga. Ég mælist til að það sé kannað — eða kannske að n. geti upplýst um hvort þetta orð stangast á við aðra starfsemi sem er þegar fyrir hendi.