29.02.1984
Efri deild: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3269 í B-deild Alþingistíðinda. (2807)

83. mál, lögræðislög

Frsm. (Ólafur Jóhannesson):

Virðulegi forseti. Allshn. hefur fjallað um frv. til lögræðislaga og skilað um það áliti á þskj. 362. Það nál. vildi ég mega lesa, með leyfi forseta. Þar stendur svo:

„Nefndin hefur farið yfir frv. og rætt það á nokkrum fundum. Á fund n. komu Guðrún Erlendsdóttir dósent, sem var formaður þeirrar stjórnskipuðu nefndar sem frv. samdi, og Ólöf Pétursdóttir ráðuneytisfulltrúi er var ritari nefndarinnar. Gáfu þær upplýsingar og skýringar og svöruðu fsp Fyrir nefndinni lá umsögn stjórnar Geðlæknafélags Íslands. Mælti hún með samþykkt frv. en benti á þrjú atriði, er hún taldi rétt að breyta. Voru það aðallega orðalagsbreytingar. Þá komu á fund n. fulltrúar frá félaginu Geðhjálp. Komu þeir með ábendingar um nokkrar breytingar. Að athuguðu máli leggur nefndin til að frv. verði samþykkt óbreytt.

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir var ekki á fundi er málið var endanlega afgreitt í n.

Rétt er að taka fram að ekki er nákvæmt sem segir í þessu nái. að það hafi verið umsögn frá stjórn Geðlæknafélags Íslands sem lá fyrir hendi. Hið rétta er að þar er um að ræða umsögn eða álitsgerð yfirlækna við geðlæknadeild ríkisspítalanna.

Hér er um mikilvægt mál að tefla á margan hátt. Það er talsvert flókið og í því eru lagatæknileg atriði. Tel ég rétt að fara um það nokkrum orðum.

Frv. er, eins og kemur fram í athugasemd, samið af nefnd sem dómsmrn. skipaði í nóv. 1980 til að endurskoða lögræðislögin. Í nefndinni áttu sæti Guðrún Erlendsdóttir dósent, sem var formaður nefndarinnar, Björn Þ. Guðmundsson prófessor og Halldór Þorbjörnsson yfirsakadómari. Ritari nefndarinnar var Ólöf Pétursdóttir ráðuneytisfulltrúi.

Í lögræðislögum er fjallað um mjög mikilvægt réttindasvið, lögræði, bæði sjátíræði og fjárræði, en ekki íer á milli mála að þessi grein gerhæfis er hin mikilvægasta og lögræði því tvímælalaust meðal allra dýrmætustu mannréttinda. Þess vegna verður að búa svo um hnúta í löggjöf að það njóti öruggrar réttarverndar. Eru lögræðislög byggð á því sjónarmiði. Allir menn njóta rétthæfis en hins vegar verða menn að hafa náð vissum þroska til að njóta gerhæfis, lögræðis í þessu sambandi, og að á ráði þeirra hafi ekki síðar orðið þeir annmarkar að reynst hafi nauðsynlegt að svipta þá þessum rétti. Segja má í stuttu máli að réttaröryggið í þessu sambandi felist fyrst og fremst í því að lögræðissvipting verður aðeins ákveðin með dómi af dómara.

Þetta frv. skiptist í nokkra kafla. Í I. kafla er fjallað um hvenær menn verða lögráða, sjálfráða og fjárráða. Er það í samræmi við gildandi lög að undanskildum nokkrum orðalagsbreytingum sem gerð er grein fyrir í athugasemdum frv. II. kafli fjallar um lögræðissviptingu og brottnám lögræðissviptingar. Reglur hans eru í meginatriðum, að fráskildum nokkrum orðatagsbreytingum, í samræmi við gildandi lög. Þó er rétt að benda á eftirfarandi atriði:

Í fyrsta lagi er tekið skýrt fram að mál til lögræðissviptingar og brottnáms lögræðissviptingar skuli sæta afbrigðilegri meðferð einkamála.

Í öðru lagi er í 5. gr. kveðið svo á að auk þeirra aðila sem nú geta krafist lögræðissviptingar, geti félagsmálastofnun einnig gert það eða samsvarandi fulltrúi sveitarstjórnar.

Í þriðja lagi eru í 7. gr. reglur um málsmeðferð sem að nokkru víkja frá þeim reglum sem nú er farið eftir. Farið hefur verið með þessi mál að hætti opinberra mála en gert er ráð fyrir því að nú sæti þau afbrigðilegri einkamálameðferð og að skv. því verði það t.d. borgardómarar sem kveða á um lögræðissviptingu og fleiri reglur eru settar í þessari 7. gr.

Í 8. gr. eru fyrirmæli um birtingu úrskurða um lögræðissviptingu. Þar segir svo í 3. mgr., sem er í samræmi við gildandi lög, með leyfi forseta:

„Ef um fjárræðissviptingu er að tefla skal dómari einnig annast um að niðurstaða úrskurðarins sé þegar birt í Lögbirtingablaði. Ef sá, sem sviptur er fjárræði, á fasteign eða hér skrásett skip, eða hann rekur atvinnu, sem geta ber eða getið er í verslanaskrá, þá skal skrá athugasemd um úrskurðinn á varnarþingi fasteignar eða skipa og verslanaskrá. Dómari sendir eftirrit af úrskurðinum yfirlögráðanda og öðrum þeim stjórnvöldum, sem um hann þurfa að vita.“

En því les ég þessa gr. hér upp að fyrsta ábending fulltrúa Geðhjálpar, sem mætti á fundi nefndarinnar, var að fella niður birtingu á úrskurði í Lögbirtingablaði. Ástæðan fyrir þeirri ábendingu af þeirra hálfu var sú að þeir töldu að gengið væri of nærri hlutaðeiganda með því. En þar sem réttaráhrif fjárræðissviptingar eru miðuð við þessa birtingu, sbr. 22. gr. frv., gat allshn. ekki séð að unnt væri að fetla þessa birtingu niður og sá ekki annan hliðstæðan kost betri.

Í 9. gr. eru svo ákvæði um brottnám lögræðissviptingar. Ég leyfi mér nú að vísa til hennar. Þar eru ekki verulegar breytingar frá því sem nú er en önnur ábending fulltrúa Geðhjálpar varðaði einmitt þessa grein. Reglan skv. 9. gr er sú að til þess að fella niður lögræðissviptingu þarf dómur að ganga. En ábending frá fulltrúa Geðhjálpar var á þá lund að lögræðissvipting sem staðið hefði í eitt ár skyldi sjálfkrafa niður falla ef ekki væri leitað endurstaðfestingar á henni innan þess tíma. Allshn. gat ekki fallist á þessa hugmynd.

Segja má að í III. kafla frv., sem fjallar um bráðabirgðavistun manns á sjúkrahúsi án samþykkis hans, sé um að ræða aðalnýmæli þessa frv. Að vísu eru nokkrar breytingar gerðar á öðrum ákvæðum gildandi laga en í þessum kafla er fyrst og fremst um nýmæli að ræða í lögræðislögunum. skv. 31. gr. gildandi lögræðislaga er reglan sú að svipta þarf mann sjálfræði ef vista á hann í sjúkrahúsi án samþykkis hans. Auk þess er krafist samþykkis dómsmrn. Nú er heimilt að svipta mann frelsi til bráðabirgða en slík frelsissvipting má ekki vera lengri en tveir sólarhringar án þess að krafa sé gerð til dómara um sjálfræðissviptingu sem dómara ber að taka strax til meðferðar. Þetta er sú regla sem nú gildir. En í frv. er farið inn á þá braut að heimila nauðungarvistun á sjúkrahúsi í allt að 15 sólarhringa án þess að sjálfræðissvipting þurfi að koma til. Reyndar er talið að hér sé að verulegu leyti um að ræða staðfestingu á praxís af því að framkvæmdin hafi orðið önnur en lögin gera ráð fyrir og vísa má í því sambandi til þess sem kemur fram í álitsgerð geðlækna. Reglur þær, sem í frv. er að finna, eru settar af tillitssemi við sjúkling og til þess að komast hjá þeirri harkalegu aðgerð sem sjálfræðissvipting er. Hjá henni virðist oft hægt að komast í þessum tilvikum. Í könnun, sem gerð var á Kleppsspítala, kom fram að af 114 sjúklingum, sem þar voru vistaðir gegn vilja sínum árin 1977 og 1978, voru aðeins fjórir sviptir sjálfræði með dómi. Yfirlæknar við geðlæknadeildir ríkisspítalanna mæla eindregið með þessari aðferð.

Í 13. gr. frv. er sérstaklega mælt um þetta og segir þar, með leyfi forseta:

„Sjálfráða maður verður ekki vistaður í sjúkrahúsi gegn vilja sínum.

Þó má hefta frelsi manns, ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða ofnautn áfengis eða ávana- og fíkniefna. Slík frelsisskerðing má eigi standa lengur en tvo sólarhringa nema til komi samþykki dómsmrn.

Með samþykki dómsmrn. má vista mann gegn vilja sínum til meðferðar í sjúkrahúsi ef fyrir hendi eru ástæður þær sem greinir í 2. mgr. og vistun þykir óhjákvæmileg að mati læknis. Í greinum þeim sem á eftir fara eru settar nánari reglur um þetta efni.

Rétt er að geta þess að í álitsgerð yfirlækna við geðdeildirnar bentu þeir á að heppilegra væri að þeirra dómi að miða þarna við þrjá sólarhringa en ekki tvo, að það mætti sem sagt vista mann í þrjá sólarhringa án þess að samþykki dómsmrn. kæmi til. Allshn. taldi ekki rétt að lengja þá frelsisskerðingu sem átt getur sér stað án atbeina dómsmrn.

Eins og ég mun áður hafa sagt eru aðrar ábendingar stjórnar geðlæknanna minni háttar orðalagsbreytingar, svo sem varðandi 13. og 14. gr. Allshn. taldi þær álitamál og því ekki rétt að flytja þær sem brtt.

Skv. greinum þeim sem fjalla um nauðungarvistunina segir að dómsmrn. skuli þegar í stað taka beiðni um frekari nauðungarvistun en segir í 13. gr. til afgreiðslu. Það skal kanna málavexti og getur, eftir því sem ástæða er til, aflað skýrslna þeirra manna sem málinu eru kunnugir. Þar skal án óþarfs dráttar ákveða hvort vistun skuli heimiluð eða ekki. Um þetta er svo frekar mælt í 17. gr. Þar segir:

„Á vegum dómsmrn. skal starfa trúnaðarlæknir sem rn. getur leitað umsagnar hjá ef þörf krefur áður en heimild er veitt til vistunar. Trúnaðarlæknir rn. hefur jafnan heimild til að kanna ástand sjúklings sem dvelst í sjúkrahúsi gegn vilja sínum.“

Ein meginbreytingin eða ábendingin frá fulltrúum Geðhjálpar var varðandi efni það sem felst í þessari 17. gr. Þeir lögðu til að það yrði sérstök nefnd en ekki dómsmrn. sem úrskurðaði um nauðungarvistun á sjúkrahúsi. Ég held að rétt sé, til að gefa hv. dm. hugmynd um það sem fyrir þeim vakir, að ég lesi upp þá ábendingu eða till. sem þeir voru með. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stofnuð skal fjögurra manna nefnd með jafnmörgum varamönnum. Í nefndinni skulu eiga sæti einn lögfræðingur, einn læknir, einn sálfræðingur og einn aðstandandi skjólstæðings eða fyrrverandi skjólstæðingur.

Nefndinni berast allar beiðnir um vistun á sjúkrahúsi sem varir lengur en tvo sólarhringa. Nefndin er dómsaðili sem ákvarðar hvort þörf er á beiðni um lögræðissviptingu. Nefndin skal úrskurða málið innan viku frá því að henni berst það í hendur. Í sérstökum tilvikum getur nefndin gefið leyfi til að framlengja vistun á stofnun um eina viku umfram þá 14 daga sem nefndir eru í 19. gr. frv. Slíkt yrði þá fyrst og fremst gert til að komast hjá beiðni um lögræðissviptingu.

Skal nefndinni búin starfsaðstaða og henni jafnframt tryggður aðgangur að þeirri sérfræðiþjónustu sem þurfa þykir til að leysa þau verkefni sem nefndinni berast.

Öllum málum er varða vistun og mögulega beiðni um lögræðissviptingu skal vísað tafarlaust til landlæknis. Hann skal tafarlaust leggja málið undir úrskurð fyrrgreindrar nefndar. Nefndinni ber að hafa að leiðarljósi hagsmuni og velferð þess einstaklings sem fjallað er um hverju sinni. Ef ágreiningur rís er hægt að senda úrskurð nefndarinnar til almennra dómstóla og skal þá farið með málið sem einkamál.“

Herra forseti. Ég hef talið rétt að lesa þessa tillögu fulltrúa Geðhjálpar upp vegna þess að þar er gert ráð fyrir gerbreytingu frá því kerfi sem meiningin er að lögfesta með frv., þ.e. að það verði nefnd sem fjalli um þetta en ekki dómsmrn.

Allshn. gat ekki fallist á þessa hugmynd. Telur hún að hún mundi verða of fyrirferðarmikil í framkvæmd. Yfirlæknarnir við geðdeildirnar hafa ekki mælt með nefnd. Þeir telja 17. gr. frv. eins og það er með ákvæðunum um trúnaðarlækni rn., sem þeir telja að eigi að vera sérfræðingur í geðlækningum, fullnægjandi.

Hin stjórnskipaða nefnd sem samdi frv. komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að hafa ákvæði um nauðungarvistun í lögræðislögunum í stað þess að setja sérstök lög um þetta efni. Geðlæknarnir mæla í sínu áliti eindregið með því að ákvæðin séu í lögræðislögunum. Sannleikurinn er þó sá að þetta sýnist vera algert álitamál og trúlega má færa ýmis rök fyrir því að um þetta efni séu sett fyrirmæli í sérstökum lögum, svo sem vera mun á Norðurlöndum, í Bretlandi og Bandaríkjunum, að því er segir í aths. við þetta frv. En um það skal ég ekki ræða hér frekar af því að allshn. mætir með þeirri skipan sem frv. gerir ráð fyrir að lögfesta.

Í IV. kafla er í rauninni ekki um efnisbreytingar frá núgildandi lögum að ræða en hins vegar nokkrar orðalagsbreytingar og vísast um þær til athugasemda. Sama máli gegnir að mestu um V. kafla frv. Sé ég því ekki ástæðu til að fjölyrða um hann en vísa til aths.

Ég hef þá, virðulegi forseti, gert örstutta grein fyrir nokkrum þeim breytingum á gildandi löggjöf sem þetta frv. hefur að geyma og sérstaklega vikið að þeirri nýlundu sem þar er fyrst og fremst um að ræða, þ.e. III. kaflanum, og þá um leið vikið að þeim ábendingum sem fram komu hjá þeim aðilum sem ég nefndi. En eins og fram kemur í nál. og ég hef þegar tekið fram leggur allshn. til að frv. verði samþykkt óbreytt.