29.02.1984
Efri deild: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3277 í B-deild Alþingistíðinda. (2811)

212. mál, skógrækt

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Norðurl. v. fyrir undirtektir hans við frv. Ég held að í huga flestra, sem hafa áhuga fyrir skógrækt, sé það ekki aðalatriði hver sé eigandi landsins. Aðalatriðið er að sjá skóginn vaxa og árangur nást af þessu starfi. Það er vitanlega eðlilegt að í nefnd verði íhugaðar orðalagsbreytingar á því atriði sem ég var að minnast á.

Ég kom sérstaklega upp til að ítreka það, sem ég sagði í minni framsöguræðu, að í grg. frv. eru nefnd fimm svæði sem vænlegust þykja til skógræktar með viðarframleiðslu að markmiði, en önnur svæði kunna þar einnig að koma til greina. En ég held, miðað við það takmarkaða fjármagn sem horfur eru á að veittar verði í þessu skyni á næstu árum og miðað við að hvað tilkostnaðurinn er mikill, að ráðlegast sé að hefjast handa á þeim stöðum þar sem menn eru sammála um að árangurinn sé vænlegastur, þó að hitt sé engan veginn útilokað.