29.02.1984
Efri deild: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3282 í B-deild Alþingistíðinda. (2817)

182. mál, umferðarlög

Árni Johnsen:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. síðasta ræðumanns. Ég er mótfallinn því að lögbinda ljósanotkun bifreiða, eins og gert er ráð fyrir í umræddu frv., og tel það óþarft. Ég held að það sé á misskilningi byggt þegar vitnað er í erlend lög varðandi ljósanotkun. A.m.k. sums staðar er miðað við að ljós séu kveikt á bifreiðum á hraðbrautum þar sem leyfður hámarkshraði er ekki undir 120 km eða á bilinu 120–160 km. Þetta finnst mér svolítið annars eðlis en um er að ræða í okkar landi, sem undirstrikar aðeins að við höfum sérstöðu. Er vart hægt að ættast til þess að hérlendis séu erlendar hugmyndir allar jafngildar. Þó stafar vissulega ekki vaxandi hætta af því að kveikja ljós. Auðvitað er ekki verra að hafa kveikt ljós á bifreiðum, en skylduboð af slíku tagi tel ég óþörf og óæskileg í samfélagi okkar.

Það má hins vegar meta hvort ástæða er til að breyta ljósatíma eitthvað, færa hann eitthvað til eftir árstímum, breyta gildandi lögum.

Ég vil vekja athygli einnig á einu atriði sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Valdimar Indriðason, fjallaði um, þ.e. að hafa tilfinningu fyrir hlutunum, að börn hafi tilfinningu fyrir því að virða réttinn. Ég held t.d. að það muni ekki hvetja fólk almennt til að fara sparlega með orku að lögbinda notkun ljósa á bifreiðum árið um kring, hvað lítinn spöl sem menn aka. Það hlýtur að vekja þá tilfinningu að kannske sé ekki ástæða til að slökkva ljós sem logar á röngum tíma. En allt hefur þetta áhrif í orkunotkun okkar og skiptir auðvitað máli í ákveðnu aðhaldi og uppeldi, aga, sem hver og einn verður að setja sjálfum sér.