29.02.1984
Efri deild: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3283 í B-deild Alþingistíðinda. (2818)

182. mál, umferðarlög

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Aðeins örfá orð.

Ég vil byrja á að þakka hv. 3. þm. Vesturl. fyrir að taka undir þýðingu þess að tryggja þurfi sem mest öryggi í umferðinni, þrátt fyrir að hann efist um gildi þessa ákvæðis sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e. að nota ökuljós allan sólarhringinn allan ársins hring, eins og hv. 3. þm. Suðurl. lýsti sig reyndar mótfallinn.

Hv. 3. þm. Suðurl. nefndi hér þau rök að þetta gæti haft þýðingu varðandi aga, það væri verið að tala um að fara ætti sparlega með orku landsins á sama tíma og löggjafinn, ef ég tók rétt eftir, ætlaðist til að menn ækju með ökuljós í tíma og ótíma. Ég held nú einmitt að rökin fyrir því að nota ljósin séu svo þung á metunum að varla sé hægt að efast. Ég legg áherslu á að þarna er verið að gera þá kröfu til hvers einstaks ökumanns sem ekur einhvers konar ökutæki að hann leggi sitt af mörkum til að spara, til að koma í veg fyrir umferðaróhöpp og jafnvel slys. Það er megintilgangurinn með þessu frv. þegar við ökum með ljósum erum við ekki einungis að vernda okkur sjálf. Við erum að taka tillit til annarra og við erum að láta vita af okkur til að koma í veg fyrir slys eða óhöpp. Þetta er meginmálið.

Það kom hér fram að menn notuðu mikið ljós. Það er einmitt það sem ég var að tala um og styrkir kannske þennan málstað, að notkun ökuljósa hefur aukist gífurlega mikið af því að menn eru farnir að meðtaka þýðingu þess öryggisins vegna að aka með ljósum.

Með hliðsjón af veðurfari hjá okkur held ég að þeir dagar séu miklu færri sem ekki væri ástæða til að nota ljósin skv. umferðarlögunum eins og þau eru núna. Það er oftar dimmviðri og ef það er sólskin er það rykið úti á þjóðvegum og þá ber að nota ljós.

Ég vil skýra frá því að þegar við vorum að fjalla um þetta frv;, þ.e. varðandi notkun ökuljósanna, á s.l. þingi í allshn., þá fengum við ýmsa sem hafa með þessi mál að gera, bæði menn frá umferðarráði, forstöðumann Bifreiðaeftirlitsins og frá lögreglustjóranum í Reykjavík, á fund nefndarinnar. Það voru allir sammála um þýðingu þess að af því væri mikið öryggi í umferðinni ef hægt væri að koma ljósaskyldu á. En menn gera sér líka grein fyrir því að það verður erfitt því að það eru svo margir einstaklingar á móti slíku, hafa ekki trú á því og vilja ekki, eins og við þekkjum mörg, láta setja lög að þeirra mati að óþörfu, þ.e. þvinga menn til ýmissa aðgerða, sem ekki séu nauðsynlegar, með lagasetningu.

Í því sambandi rifjast upp fyrir mér þegar lögleiðing bílbelta var til umr. á hv. s.l. þingi. Ég var í hópi þeirra sem voru ekki sannfærðir þá um að það þyrfti að lögleiða notkun bílbelta. Mér er ljúft að láta það uppskátt núna vegna þess að það kom fram í Morgunblaðinu um daginn að ég hefði haft frumkvæði í þessu máli á þingi. Það er misskilningur og ég vil leiðrétta hann hér. Hins vegar beygði ég mig að sjálfsögðu undir lögin. Meðan þetta mál var til umr. í þinginu fór ég að nota bílbeltin og nú sest ég ekki upp í bíl síðan öðruvísi en að spenna beltið meira að segja sem farþegi í aftursæti ef það eru belti þar. Ég hef sannfærst um að þetta er eitt að þýðingarmestu atriðum sem skipta máli varðandi umferðaröryggið. Þá erum við að vernda okkur sjálf og löggjafinn að taka af okkur ráðin í raun og veru. En ég beygi mig undir að nauðsynlegt var að setja þessi lög. Nú er ég meðflm. hv. 6. landsk. þm. sem á væntanlega eftir að mæla fyrir frv. um að sektarákvæðum verði beitt í þessu efni. — Ég vildi aðeins nefna þetta hér í leiðinni.

Ég vil einnig benda á það — ég veit ekki hvort hv. þm. hafa tekið eftir því — að ef menn aka á eftir strætisvögnum getur að líta að strætisvagnar í Reykjavík eru núna komnir með skilti sem á stendur: „Við notum ökuljósin“. Þetta hlýtur að segja sitt. Þetta er í Reykjavík. Þetta er frá umferðarráði. Það er verið að leggja áherslu á þýðingu þess, þó að ekki séu komin lög, að nota ökuljós. Og hvers vegna er það gert? Það er ekki gert af því að það sé óþarfi. Það er verið að reyna að fækka slysunum. Þó ekki væri fækkað nema um eitt umferðarslys væri það þess virði.

Mér dettur í hug að nefna einnig að í framhaldi af ráðstefnu Umferðarlæknisfræðifélagsins var gerð samantekt frá þeirri ráðstefnu og ýmsar tillögur lagðar fram. Þar er bent á þýðingu þess að skylt verði að nota ökuljós á hvaða tíma sólarhrings sem er.

Það er eitt atriði enn sem ég vildi líka minnast á. Þegar við ræddum um málið í allshn. á síðasta þingi ræddum við um að e.t.v. væri rétt að taka eitt skref í einu og byrja t.d. á að lögleiða notkun ljósa þannig að sleppa tímanum yfir hásumarið, t.d. frá 1. apríl og til 1. september, þ.e. að miða við skólatíma skólabarna. Ég var fyrir mitt leyti tilbúin að ganga til móts við þetta og gera slíka tilraun. Þetta kom fram þegar við ræddum við þá sem hafa þekkingu á þessum málum og komu á fund nefndarinnar. Síðan hefur einn af þeim sem kom á fund n., sem hafði trú á að þetta væri rétt leið, hefur talað við mig og sagt mér að hann hafi skipt um skoðun og sé gallharður á því að rétt sé að lögleiða ljósaskyldu að fullu, þ.e. allan sólarhringinn allan ársins hring. Þessu vildi ég gjarnan skýra frá við þessa umr.

Það var minnst hér á að varhugavert gæti verið vegna skólabifreiðanna að ganga of langt þannig að litið yrði á það sem Sjálfsagt að börnin ættu allan rétt og þess vegna yrði aðgæslan kannske ekki í lagi. Þetta er hugsað þannig, að skólabifreiðarnar hafi sama rétt og strætisvagnar hafa í Reykjavík. Í mínum huga er sérstaða skólabíla þó öllu meiri því að ég tel að leggja eigi þá skyldu á ökumann sem ekur með skólanemendur, t.d. úti á landsbyggðinni, að hann gæti þess að fara ekki af stað fyrr en börnin eru komin yfir götuna eða veginn. Hann á að bera slíka ábyrgð og aðrir ökumenn, sem koma annaðhvort á móti eða á eftir, eiga hreinlega að bíða þangað til skólabifreiðin er farin af stað. Þetta er atriði sem skiptir öllu máli. — Það má líka nefna að slíkur réttur skólabifreiða viðgengst erlendis og er talinn svo sjálfsagður að engum ökumanni dettur í hug að brjóta slíkar reglur. Þetta viðgengst t.d. í Bandaríkjunum, svo að ég nefni dæmi.

Ég held að ekki sé ástæða til þess fyrir mig að segja fleira, herra forseti. En allshn. tekur væntanlega allar þær ábendingar til gaumgæfilegrar athugunar sem hér hafa komið fram. Það er meginmálið að þetta mál fái umfjöllun hér á þingi og látið verði á það reyna hver hugur hv. alþm. er til þessa frv., ef það mætti verða til þess að fækka slysum eða koma í veg fyrir þau og þar með auka öryggið í umferðinni.