29.02.1984
Efri deild: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3285 í B-deild Alþingistíðinda. (2822)

213. mál, sala jarðarinnar Þjóðólfshaga

Flm. (Árni Johnsen):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja jörðina Þjóðólfshaga I í Holtahreppi í Rangárvallasýslu. Flm. auk mín eru hv. þdm. Eyjólfur Konráð Jónsson, Valdimar Indriðason og Þorv. Garðar Kristjánsson.

Frv. fjallar um það að ríkisstj. sé heimilt að selja Stefáni Jónssyni bónda jörðina Þjóðólfshaga I í Holtahreppi í Rangárvallasýslu. Við sölu á jörðinni skulu námuréttindi og réttur til efnistöku undanskilin, sömuleiðis vatns- og jarðhitaréttindi umfram heimilisþörf ábúanda, ásamt nauðsynlegri aðstöðu til að hagnýta þau réttindi.

Náist ekki samkomulag um söluverð jarðarinnar skal mat dómkvaddra manna ráða. Sé áformuð sala á jörðinni Þjóðólfshaga I eða hluta hennar skal ríkissjóður eiga forkaupsrétt fyrir hlutfallslega sama verð og jörðin var seld á, að viðbættum verðmætisauka vegna framkvæmda eftir að ríkissjóður seldi jörðina og eignum ábúanda.

Í grg., sem fylgir frv., segir að jörðin Þjóðólfshagi I í Holtahreppi í Rangárvallasýslu sé þjóðjörð og upphaflega ein af jörðum Þykkvabæjarklausturs. Stefán Jónsson fékk ábúð á jörðinni árið 1981 og tók við af föður sínum sem bjó þar um áratugi. Keypti Stefán nýtt íbúðarhús af föður sínum og önnur nothæf hús jarðarinnar. Hann hyggst reisa ný útihús og m.a. þess vegna hefur hann áhuga á að fá jörðina keypta.

Með frv. fylgir fskj. þar sem hreppsnefnd Holtahrepps mælir með því að Stefán Jónsson fái keypta ábúðarjörð sína, Þjóðólfshaga I í Holtahreppi.

Ég legg til að að lokinni umr. sé málinu vísað til 2. umr. og landbn.