29.02.1984
Neðri deild: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3304 í B-deild Alþingistíðinda. (2847)

206. mál, breyting á lausaskuldum launafólks í löng lán

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Þar sem fyrir nokkrum dögum var raunar mælt fyrir þessu frv., þegar fjallað var um frv. til l um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán, get ég að þessu sinni haft mjög fá orð um frv. þetta.

Frv. lýtur að þeirri einföldu spurningu hvort allir landsmenn eigi ekki að vera jafnir fyrir lögum. Ef Alþingi setur lög um breytingu á lausaskuldum framleiðenda í landbúnaði í löng lán frá og með árinu 1979 til og með árinu 1983 eftir að hafa breytt lausaskuldum sömu aðila frá og með árinu 1970 til og með árinu 1979 með slíkum hætti, hvaða ástæða er þá til að taka ekki með sambærilegum hætti á vandamálum launafólksins?

Frv. er samið á grundvelli þeirrar afgreiðslu sem hæstv. ríkisstj. leggur fyrir Alþingi að gerð verði á málefnum bændastéttarinnar. Öll þau rök sem höfð voru uppi um það frv. eiga jafnt við um þetta þannig að ég vísa einfaldlega til framsöguræðu hæstv. landbrh. þar um, að því þó fráskildu að upplýsingar liggja fyrir í Lögbirtingablaðinu og í uppboðsauglýsingum Morgunblaðsins og DV um ástæður launafólks þar sem hver auglýsingin rekur aðra með kröfum um nauðungaruppboð á eigum launafólks. Hins vegar hef ég ekki orðið var við að í þessum ágætu þremur blöðum reki með sama hætti hver nauðungaruppboðsauglýsingin aðra á bújörðum og fasteignum bændastéttarinnar. Þannig að ef nokkuð er þá liggja fyrir haldbærari og ítarlegri upplýsingar um neyðarástand launafólks en nú liggja fyrir um neyðarástand framleiðenda í landbúnaði þó að ég ætli síður en svo að draga í efa að þar sé árferði erfitt, þar eigi bændur við mikla erfiðleika að etja, m.a. varðandi söfnun lausaskulda.

Eina vandamálið sem eftir stendur, virðulegi forseti, er raunverulega að taka ákvörðun um til hvaða nefndar málið eigi að fara. Umrætt frv. um breytingu á lausaskuldum bænda í löng lán var sent til landbn., jafnvel þó að hæstv. fjh.- og viðskn. fjalli um fjáröflunina. Mér finnst raunar þetta frv., þó að eðlislíkt sé því frv. sem áður var afgreitt, vart eiga heima í landbn. Þar sem neitað var að senda frv. um breytingu á lausaskuldum bænda í löng lán í fjh.- og viðskn. reikna ég með því að svipuð eða söm sé afstaða deildarinnar til þess frv. Hún telji ástæðulaust að frv. fari í fjh.- og viðskn. þar sem hún hlýtur að komast að sömu niðurstöðu um þetta frv. eins og um það sem ég mundi vilja kalla í gæsalöppum „fylgifrv. þess“ á þskj. 196. Svo ég sé mér ekki fært annað, herra forseti, eins og málum er komið en að leggja til að frv. verði vísað til félmn. og 2. umr. að sjálfsögðu.