01.03.1984
Sameinað þing: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3308 í B-deild Alþingistíðinda. (2853)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Undanfarna daga hef ég orðið fyrir nokkuð þungum ásökunum vegna embættisgjörða minna sem fjmrh. Ástæðan er sú, að ég hef í krafti þess embættis sem ég gegni gert samkomulag við verkamannafélagið Dagsbrún um að þeir félagsmenn Dagsbrúnar sem vinna hjá ríkinu njóti sambærilegra kjara og starfsfélagar þeirra sem eru meðlimir BSRB. Þessa leiðréttingu tel ég svo sjálfsagða að ég taldi rétt að lagfæra þetta misrétti þegar í stað þegar ósk barst um það frá verkamannafélaginu Dagsbrún. Við þá gjörð mína hef ég ekki talið að ég væri að blanda mér í þá almennu samninga sem standa yfir á hinum almenna vinnumarkaði. En telji hv. Alþingi að ég hafi brotið af mér í embætti með því að leiðrétta kjör þeirra verkamanna sem hjá ríkinu vinna verð ég að sjálfsögðu að taka afleiðingum af þeirri gjörð minni.

Það hefur mikið verið um það rætt og ég mikið um það spurður hve mikið samkomulagið, — sem ég sé ekki ástæðu til að lesa hér upp, virðulegur 6. landsk. þm. las það upp, — kostaði ríkissjóð, hvort ég væri sjálfum mér samkvæmur þegar ég annars vegar vara við of háum launasamningum á almennum markaði, vara við því að fjárlagaramminn verði sprengdur í samkomulagi við launþegasamtökin, og hef látið þá skoðun í ljós að þá væri stefna ríkisstj. sprungin. Ég vil svara með því að vitna, með leyfi forseta, í greinargerð sem ég hef fengið frá launadeild fjmrn. Hún endar svo, og það ætti að svara þeim fsp. sem að mér beinast um kostnað við þær embættisgjörðir mínar sem þekktar eru:

„Í heild má segja að nokkuð gott samræmi sé á milli launa Dagsbrúnarmanna og manna í þeim störfum sem sambærilegust geta talist hjá BSRB. Samræming gæti hugsanlega haft nokkur áhrif í lægstu launaflokkunum, 9. –12. launaflokki ASÍ, sem eru neðan dagvinnutekjutryggingar. Kostnaður af slíku gæti orðið nokkrir tugir þúsunda fyrir ríkissjóð á ári.“

Sérstakri starfsnefnd er falið að útfæra samkomulagið við Dagsbrún og meðan hún hefur ekki lokið tillögugerð er rétt að geyma sér allar fullyrðingar um hvaða fordæmisáhrif samkomulagið hefur fyrir aðra aðila vinnumarkaðarins. Nú vil ég taka það fram að þessi sérstaka samstarfsnefnd milli fjmrn. annars vegar og Dagsbrúnar hins vegar er u.þ.b. að taka til starfa. Ég get bætt við að verði orðið við öllum kröfum Dagsbrúnar undantekningarlaust gæti þessi upphæð hugsanlega orðið um 1 millj. kr. Svo há er sú upphæð sem hefur þyrlað upp öllu því moldviðri sem á mér hefur dunið undanfarna daga. Hefur það virkilega verið þess virði?

Síðan er talað um þau keðjuverkandi áhrif sem þetta samkomulag gæti haft. Mér er sagt að því fylgi ákaflega lítil keðjuverkandi áhrif vegna þess að á fáum stöðum um land allt starfi hlið við hlið í sambærilegum störfum ríkisstarfsmaður og verkamaður. Það eru til ríkisstarfsmenn sem yfirmenn í fyrirtækjum, en það eru ekki talin sambærileg störf á við störf óbreytts verkamanns.

Ég er þannig gerður að ef ég er beðinn um að leiðrétta misrétti geri ég það ef ég get. Í máli sínu minntist hv. 6. landsk. þm. á ósk Alþýðusambands Ístands sem er sambærileg við þær óskir sem komu frá verkamannafélaginu Dagsbrún. Mér finnst alveg sjálfsagt að leiðrétta það misrétti eins og allt annað. Stundum getur verið kostnaðarsamt að leiðrétta misrétti, en misrétti getur enginn alþm. stutt.

Hvernig get ég sem fjmrh. horft upp á að tveir menn vinni hlið við hlið sömu störf, annar með fulla atvinnutryggingu, með verðtryggðan lífeyrissjóð, sérstaka matarpeninga, sérstaka klæðispeninga og fleira og fleira, en hinn alls ekki neitt af þessum hlunnindum og lægri laun? Þeir vinna saman kannske áratugi hlið við hlið. Er þetta rétt? Hefur okkur virkilega mistekist að byggja upp íslenskt þjóðfélag þannig að menn geti með sóma sagt — þá er ég að tala um forustumenn þjóðarinnar: Það liður enginn skort? Það eru náttúrlega til lágmarkslaunaflokkar í öllum þjóðfélögum. En mér finnst það vera að fara í öfuga átt þegar er verið að skipta vinnuhópum eins og verkamönnum í mismunandi stóra lágmarkslaunaflokka. Þetta er misrétti sem ég tel að hefði fyrir löngu átt að leiðrétta, enda hefur komið í ljós að sú ósk verkamannafélagsins Dagsbrúnar hefur áður verið borin fram í fjmrn., ekki einu sinni heldur oftar. Mér er líka kunnugt um að fjmrh. hafi tekið vel í þessar óskir, en aldrei orðið úr framkvæmd.

Ég er reiðubúinn að taka ábyrgð á þessari framkvæmd og afleiðingum af henni. En kostnaðurinn — mér liggur við að skjóta hér inn í: ég ætla að biðja engan um að hlæja — kostnaðurinn við þessa embættisgerð mína, — ef við verðum við öllum kröfum Dagsbrúnar, sem stendur að sjálfsögðu ekki til, það stendur til að ræða, ég veit ekki hvað kemur út úr þeim nefndarstörfum — gæti ég trúað að væri ekki miklu meiri en kostnaður við ferð þeirra félaga okkar sem nú eru á Norðurlandaráðstefnunni. (Gripið fram í.) Ég efast um það, og lái mér hver sem vill. Ég tel að fólk — hér er um ófaglært fólk í lægstu launaflokkum að ræða, - eigi að bera úr býtum sömu laun fyrir sömu vinnu hvort sem það er í BSRB eða verkamannafélaginu Dagsbrún.

Ég held að ég hafi svarað þeim fsp. sem að mér hafa beinst frá virðulegum 6. landsk. þm. og þakka honum fyrir að vekja athygli á þessu máli á hv. Alþingi. Svo mikið hefur dunið á mér sem fjmrh. undanfarna daga að slíkt var nauðsynlegt. En eitt vil ég segja honum sem svar við erindi ASÍ, að ég vildi gjarnan fá það betur skilgreint hvað ASÍ er að tala um, þ.e. að fá að vita nákvæmlega hve margir tilheyra aðildarfélögum ASÍ og vinna sambærileg störf við hliðina á ríkisstarfsmönnum. Ég held að það séu ekki margir. Hvert verkalýðsfélag gerir sinn sérsamning við ríkisfyrirtæki um land allt, en ég er reiðubúinn að skoða það með sama velvilja og erindi Dagsbrúnar ef það berst inn á mitt borð.

Auðvitað á ekki að líða misrétti neins staðar. Þessi gjörð mín sýnir að ég er reiðubúinn að vinna að því að jafna rétt sem ég tel að fólk eigi að hafa, og það hefur komið fram í minni embættisgjörð — eða er einhver þm. hér inni úr einhverjum flokki sem ásakar mig fyrir þetta? Er einhver hér inni sem vill viðhalda misrétti milli verkamanna sem vinna hlið við hlið? Ég er reiðubúinn að ræða við hann á allt öðrum nótum.

Ég tel að ég hafi svarað fsp. fyrirspyrjanda, virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.