01.03.1984
Sameinað þing: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3321 í B-deild Alþingistíðinda. (2858)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Sá hv. þm. sem hér var að ljúka máli sínu talaði sem framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands. Hann talaði hér ekki sem formaður stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar. Hann flutti sína ræðu eins og hann mundi hafa flutt fyrir einu ári síðan áður en hv. þm. var kjörinn á Alþingi og áður en hv. þm. var kjörinn til að veita stærsta flokki þjóðarinnar forustu.

Hv. þm. var ekki spurður um sitt álit á kjarasamningunum. Hv. þm. var ekki beðinn um að leggja mat á þá fátæktarsamninga sem gerðir hafa verið af aðilum vinnumarkaðarins og sjá munu til þess að um næsta 14 mánaða skeið mun hópur launafólks á Íslandi vera neðan fátæktarmarka. Menn vita ósköp vel og þurftu ekkert að spyrja um það hvaða álit fyrrv. formaður Vinnuveitendasambands Íslands hefði á því máli. Hann var spurður um álit sitt á afskiptum ríkisstj. af málum sem stjórnmálamaður. Menn biðu eftir því að heyra niðurstöðu hans um það hver væri afstaða Sjálfstfl. til þess ágreinings sem virðist hafa komið upp milli ráðh. í þeim flokki. Sú niðurstaða er engin. Hv. þm. sagðist ekki hafa annan boðskap að flytja, sem hann gæti flutt í nafni flokksins, en þann að hann liti málið alvarlegum augum. Hann sagðist ekki hafa umboð til að segja neitt meira. Hann lýsti því yfir að hann hefði ekki flokkinn á bak við sig fyrir neinu meira en því að flokkurinn liti atburðina atvarlegum augum. En niðurstaða flokksins í málinu er engin.

Við þyrftum ekki, hv. þm., að spyrja neitt um álit fyrrv. framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands á kjarasamningum sem dæma fólk til að reyna að framfleyta sér á 11 600–12 600 kr. mánaðarlaunum, sem ekki er hægt. Við vissum ósköp vel að fyrrv. framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands er slíkum samningi samþykkur. En niðurstaða hans sem flokksformanns, niðurstaða Sjálfstfl. í málinu, er engin. Þar virðast nú fara fram einhvers konar rannsóknarréttarhöld, einhvers konar rannsóknardómur, þar sem sakborningur fær sennilega ekki einu sinni að vera viðstaddur. Kviðdómendur sitja enn á fundum í þingflokksherbergi Sjálfstfl. Formaður kviðdómsins kom hér áðan með þau skilaboð til Alþingis að niðurstaðan væri engin fengin í málunum en þau væru litin mjög alvarlegum augum.

Það var aðeins eitt atriði sem fram kom í rökstuðningi hv. þm. Fyrstu rök hans voru þau að hann sagði að það sem honum fyndist vera athugaverðast við þetta mál allt saman væri að hæstv. fjmrh. skyldi hafa gengið frá svona samkomulagi við Dagsbrún vegna þess að Dagsbrún hefði fellt kjarasamninginn sem Alþýðusamband Ístands gekkst fyrir og önnur samtök hafa skrifað undir. Þá vaknar spurningin: Hefði verið í lagi að fjmrh. gerði svona samning við Dagsbrún ef Dagsbrún hefði samþykkt þennan fátækrasamning? Var málið m.ö.o. það eitt að það er glæpur Dagsbrúnar að hafa fellt þennan kjarasamning, þess vegna hafi verið rangt af hæstv. fjmrh. að gera samkomulagið, en ef Dagsbrún hefði samþykkt hefði þetta verið allt í lagi?

Herra forseti. Þetta mál er raunar ákaflega einfalt og þarf ekki allar þær miklu og löngu umr. og öll þau stóru orð sem um það hafa fallið. Það er ekkert launungarmál, ekkert deiluatriði, að forræði hæstv. fjmrh. í þessu máli er algerlega óskorað. Ráðh. þarf ekki, ef hann ekki svo kýs sjálfur, að leggja gerðir sínar undir ríkisstj. til samþykktar. Fjmrh. situr ekki í leyfi annarra ráðh., hann þarf ekkert að bera undir þá sínar gerðir nema hann vilji það sjálfur. Hver og einn ráðh. hefur fullt forræði á sínum málaflokki.

Því aðeins að um það sé samið milli stjórnarflokka fyrir fram að einhver tiltekinn málaflokkur skuli ekki afgreiddur nema með atkvgr. í ríkisstj. ber að fara eftir því. Það eru dæmi um slíkt. Það gerðist t.d. varðandi flugstöðvarmálið í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstj. að stjórnarflokkarnir sömdu um að slíkt mál skyldi ekki afgreitt nema með samþykki allra ráðh. Ég minni á annað deilumál sem reis í síðustu ríkisstj., svokallað Helguvíkurmál. Það var ekkert um það samið að það mál þyrfti að bera undir aðra ráðh. í ríkisstj. enda fór hæstv. utanrrh. sínu fram í málinu því hann hafði fullt forræði á því. Alveg eins er það með kjarasamningagerð hæstv. fjmrh. Ekkert hefur verið um það samið milli stjórnarflokkanna að hæstv. fjmrh. ætti ekki að geta ráðið þeim málum, sem undir hann heyra, til lykta. Ráðh. þarf ekki svo mikið sem að spyrja aðra ráðh. álits á því sem hann gerir, hvað þá heldur að það sé háð samþykki þeirra.

Það er hreinn dónaskapur af forsrh., eins og hann hefur haldið á þessu máli, að lýsa því yfir að hann muni kalla ríkisstj. saman til fundar þegar á morgun og láta þar ganga atkv. um hvort fjmrh. hafi rétt til að gera það sem hann hefur gert. Hvers konar yfirlýsingasmiður er þessi maður sem er oddviti ríkisstj.? Hvernig heldur hann að hann geti leikið þá ráðh. sem undir hann heyra? Heldur hann að hann geti kallað þá fyrir, hæstv. fjmrh., hæstv. sjútvrh. og einhvern ráðh. annan og tekið bara ákvörðun um það, af því að honum falli ekki einhver niðurstaða í málaflokki sem undir þessa ráðh. fellur, að bera málið undir ríkisstj. og láta aðra ráðh. samþykkja það eða fella?

Hæstv. fjmrh. á mjög einfaldan leik í þessu máli ef hæstv. forsrh. ætlar að fylgja þessari skoðun sinni fram. Hann neitar að sjálfsögðu að láta atkv. ganga um mál í ríkisstj. sem er atgerlega undir hans forræði. Það eru dæmi um slíkt áður og hæstv. fjmrh. getur vitnað í þau. Komið hefur fyrir að hann hafi orðað það á ríkisstjórnarfundum að gera tilteknar aðgerðir, t.d. til hagsbóta fyrir öryrkja og aldraða, sem falla undir aðra ráðh. Þeir hafa þá risið upp hinir reiðustu og skipað fjmrh. að þegja, honum komi þetta ekkert við því þetta sé mál sem undir þá heyri en ekki hann. Og hæstv. fjmrh. hefur orðið að fallast á það. Hæstv. heilbr.- og trmrh hefur bent fjmrh. á það á ríkisstjórnarfundum að honum eigi ekki að koma málefni gamla fólksins og öryrkjanna við. Síðan kemur hann og úttalar sig um það hvernig hann ætli að fella í ríkisstj. þær aðgerðir sem hæstv. fjmrh. hafi beitt sér fyrir.

Hæstv. fjmrh. hefur fullt leyfi til að gera það sem hann hefur gert. Með undirskrift sinni hefur hann skuldbundið ríkissjóð. Menn skulu gera sér grein fyrir því að þessi undirskrift er fullgild og ef menn ætla að breyta henni — t.d. ef forsrh. gerir það, sem hann getur gert, að setja fjmrh. af, þarf hann ekkert að bera það undir Alþingi. Hann getur tekið þá ákvörðun sjálfur að setja t.d. fjmrh. af og skipa hv. þm. Þorstein Pálsson í hans stað og gefið honum þar með tækifæri til að ógilda það samkomulag sem hæstv. fjmrh. hefur gert. Mundu þeir sem njóta eiga hagræðis af því samkomulagi sem hæstv. ráðh. hefur undirskrifað þá öðlast skaðabótarétt vegna þess að undirskrift hæstv. fjmrh. er bindandi og endanleg og þeirri skuldbindingu getur enginn breytt nema að sá hinn sami baki ríkissjóði þar með skaðabótaskyldu. Um það verður því ekki deilt að forræði hæstv. fjmrh. að málinu er algerlega óskorað og hann þarf ekki að leggja niðurstöðu sína undir mat neinna annarra ráðh. nema hann sjálfur vilji. Með einfaldri neitun getur hann svarað fram komnum tillögum um að þetta mál sé afgreitt með atkvgr. í ríkisstj. vegna þess að búið er að afgreiða málið og búið er að skuldbinda ríkissjóð og aðra aðila hvað það varðar.

Þá hafa komið fram hjá hæstv. fjmrh. svör við þeirri spurningu hversu háar fjárhæðir hér séu í húfi. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson talaði um það áðan að upplausn og óðaverðbólga gæti fylgt í kjölfarið. Það er þá ódýrasta upplausn sem sögur fara af á Íslandi ef allt þjóðfélagið er nú að leysast upp fyrir 1 millj. króna. Upplausnirnar eru þá ekki seldar dýru verði. Hæstv. fjmrh. hefur upplýst að málið, sem allt þetta fjaðrafok er út af, stendur um 1 millj. króna. Hvað er þessi 1 millj. króna? Á s.l. ári átti hæstv. heilbr.- og trmrh. skv. ákvörðun ríkisstj. að spara 100 millj. króna. Hann gerði ekkert til að framkvæma það. Sú fjárhæð sem menn eru að blása sig út af hér er 1% af því sem hæstv. heilbr.- og trmrh. tók að sér að lækka útgjöld síns ráðuneytis um á s.l. ári og gerði ekki. Með því aðeins að framfylgja 1% af því sem honum var ætlað að gera væri búið að þurrka út áhrifin fyrir ríkissjóð af því samkomulagi sem hæstv. fjmrh. hefur gert.

Skv. nýafgreiddum fjárlögum hefur þessi sami ráðh., hæstv. heilbr.- og trmrh., tekið að sér að lækka útgjöld síns ráðuneytis um 300 millj. kr., spara um 300 millj. kr. Ekkert einasta sparnaðaratriði hefur enn litið dagsins ljós. Síðan fer þessi sami maður í blöðin og úthrópar hæstv. fjmrh. fyrir að hafa sett allt á kaf í þjóðfélaginu með 0.3% útgjöldum á móti því sem þessi sami maður tók .,að sér að spara á árinu. Það er nóg fyrir hæstv. heilbrrh., ef hann hefur áhyggjur af þessum málum, að framkvæma 0.3% af þeim sparnaði sem honum er ættað að gera skv. fjárlögum, þá er hann búinn að vinna upp gagnvart ríkissjóði áhrifin af þeim skuldbindingum sem hæstv. fjmrh. hefur undirskrifað. Það er von að menn blási.

Svo kvartar Morgunblaðið í morgun undan því að hv. þm. Þorsteinn Pálsson hafi ekki verið látinn vita. Hann var staddur í Stykkishólmi og var ekki látinn vita. Það finnst Morgunblaðinu í leiðara sínum í morgun að sé algerlega óafsakanlegt. Það hefur áður komið fyrir bestu menn að fara til Stykkishólms, eins og menn muna, og ekkert óeðlilegt við það þó að hv. þm. Þorsteinn Pálsson fylgdi þar í spor hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar hér á árum áður og færi til Stykkishólms. Þeim er það sameiginlegt báðum þessum þm. að hvorugur var látinn neitt vita á meðan hann dvaldist í Stykkishólmi enda er það e.t.v. ástæðan fyrir því að þangað var farið.

Mér er spurn: Er einhver önnur ríkisstj. á Íslandi en sú sem við vitum um? Er einhver annar fjmrh. í landinu en hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson? Er Þorsteinn Pálsson í ríkisstjórn Íslands? Af hverju þurfti að láta hann vita? Hvers vegna þurfti að láta hann vita frekar en aðra þm. Sjálfstfl., t.d. varaformanninn, formann þingflokksins eða einhvern slíkan? Ekki er hv. þm. Þorsteinn Pálsson í ríkisstj.

Ég minni á að hv. þm. sá ekki neina ástæðu til að láta fjmrh. vita um þær skuldbindingar sem hann tók á sig á fundi með forsrh. þegar hæstv. forsrh. og hv. þm. Þorsteinn Pálsson gengu frá samkomulagi sem kostaði ríkissjóð 300 sinnum það fé sem hæstv. fjmrh. hefur nú skuldbundið ríkissjóð fyrir. Eins og menn muna var frá því samkomulagi gengið í fjarveru hæstv. fjmrh. Aðilar vinnumarkaðarins óskuðu eftir því við forsrh. að fá fund með ríkisstj. og forsrh. fólk að sjálfsögðu jákvætt í það. Hann mætti til að ræða við aðila vinnumarkaðarins og ganga frá samningum við þá um útgjöld úr ríkissjóði sem námu milli 300 og 400 millj. kr. Og hvern hafði ráðh. með sér við þá samningagerð? Hverjir mættu sem fulltrúar ríkisstj. til að ræða við aðila vinnumarkaðarins? Var það forsrh. og fjmrh. sem átti að borga reikninginn? Nei, það voru eðlilegar skýringar á því, fjmrh. var erlendis. Eða var það þá fulltrúi fjmrh. sem til var kvaddur, aðstoðarmaður hans og hans hægri hönd, sem á að framfylgja stefnu hans og taka ákvarðanir á meðan hann er fjarverandi? Nei, hann var ekki látinn vita, hann var ekki hafður með í ráðum. Var það þá sá ráðh. í ríkisstj. sem fór með fjmrn. í fjarveru ráðh. og hefði talið það skyldu sína að hafa samband við ráðh. og skýra honum frá gangi mála ef hann hefði verið tilkvaddur, hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason? Nei, hann var ekki heldur hafður með á þessum fundi. Sóttur var formaður Sjálfstfl., Þorsteinn Pálsson, sem ekki situr í ríkisstj. Af hverju var hann sóttur? Vegna þess að menn héldu það, trúðu því og treystu að þetta samkomulag yrði til þess að hæstv. fjmrh. núv. færi frá og við hliðina á Steingrími Hermannssyni á fundum með aðilum vinnumarkaðarins sat sá maður sem átti að setjast í stólinn. Út af þessu er allur þessi hávaði og allt þetta hafarí. Með þessum samningi tókst ekki að hrekja hæstv. fjmrh. úr stólnum. Nú er gerð önnur tilraun til þess með því að blása upp mál sem kostar ríkissjóð í hæsta lagi 1 millj. kr. og gera það að einhverjum meiri háttar réttarhöldum í Sjálfstfl. Það getur vel verið að þeir sjálfstæðismenn komist einhvern tíma að einhverjum niðurstöðum um það mál.

Í Morgunblaðinu í morgun segir í leiðara að hvað sem stjórnskipulegum ákvæðum um valdsvið ráðherra liði verði þeim ekki sætt án meirihlutastuðnings á Alþingi. Núv. ríkisstj. hefur að sjálfsögðu meirihlutastuðning á þingi. Í þessari umr. hefur stjórnarliðum gefist tækifæri til að láta í ljós afstöðu sína til þeirra verka sem hæstv. fjmrh. hefur unnið og ekki hefur komið fram ein einasta rödd úr þeirra herbúðum í málinu sem gefur til kynna að hæstv. fjmrh. hafi ekki meirihlutastuðning á

Alþingi við það sem hann hefur gert. Hafi þessi umr. því leitt til einhverrar niðurstöðu er niðurstaðan sú að ekki verður annað sagt að henni lokinni en að hvað sem hver segir haldi fjmrh. þeim meirihlutastuðningi sem hann hefur haft í þinginu fyrir setu sinni í ráðherrastól. Umræðan hefur styrkt hæstv. ráðh. og staðfest þá ákvörðun sem hann hefur tekið.