01.03.1984
Sameinað þing: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3329 í B-deild Alþingistíðinda. (2860)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hv. þm. Ragnar Arnalds beindi þeirri spurningu til mín hvort einn ráðh. gæti gert samkomulag sem þetta, hvort það væri ekki alveg skýrt að slíkt væri á hans valdsviði. Ég dreg ekki í efa að þetta mál er á valdsviði fjmrh. Hins vegar er það þannig um öll mál sem hafa í för með sér útgjöld, eru breyting við fjárlög eða forsendur fjárlaga, eru þess eðlis að þarf að flytja frv. til fjáraukalaga, að það hefur verið venjan, ef um slík mál hefur verið að ræða, að fjalla um þau í ríkisstj. til þess að alveg skýrt væri að slík fjáraukalög nytu meirihlutastuðnings á Alþingi. Þetta er nú, að ég held, sá almenni skilningur sem verður að leggja í starfsvið ráðh. Ég tel mér t.d. ekki heimilt að gera samning um aukin útgjöld á mínu verksviði, nema innan ramma fjárlaga, án þess að ríkisstj. fjalli um það og þá viðkomandi stjórnarflokkar. Ég held að það sé öllum fyrir bestu að slíkar venjur séu í heiðri hafðar.

Þannig var að verki staðið þegar aðilar vinnumarkaðarins komu sér saman um kjarasamninga, sem var mjög mikilvægt og tryggði vinnufrið í landinu. Ríkisstj. taldi sér skylt að eiga hlut að því máli ef með því væri hægt að tryggja vinnufrið og gekkst inn á að auka útgjöld í því skyni. Um það var fjallað á ríkisstjórnarfundi. Það er alveg rétt að hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson var þá fjarstaddur, en annar gegndi hans starfi og um málið var fjallað í ríkisstj.

Þegar það samkomulag sem hér um ræðir var kynnt á ríkisstjórnarfundi vildu menn að sjálfsögðu fá upplýsingar um hvaða þýðingu það hefði, hvað það kostaði. Það hefur ekki legið fyrir fyrr en nú að það er upplýst hér í umr. á Alþingi. Ég skal ekkert meira um það segja, en það er fyrst nú að upplýst er hver áhrif það hefur á t.d. ríkissjóð, og verður að telja þau tiltölulega lítil ef útgjaldaaukinn er ekki nema 1 millj. kr.

En það er kannske ekki aðalatriði þessa máls, heldur hitt, sem ég hef spurt um, hvaða tilgangi slík skrifleg yfirlýsing þjónar. Nú er það hin almenna venja þegar gerðir eru kjarasamningar í landinu að ekki er sú venja viðhöfð að gert sé sérstakt samkomulag um það og gefin út sérstök yfirlýsing um það að menn ætti sér að semja og æth sér að vinna að ákveðnum málum. Ég er sammála því að auðvitað á að vinna að því af fullum krafti að samræma kjör í þjóðfélaginu. Það er óréttlæti að menn vinnl sams konar störf hlið við hlið á ósambærilegum kjörum. Ég býst við því að allir séu um það sammála. En venjan er að slíkir samningar séu gerðir og þeir bornir upp, en ekki byrjað á að lýsa því yfir að slíkt skuli gert. Það hefði verið mjög auðvelt að starfsmenn t.d. fjmrn. og Dagsbrúnar hæfu viðræður um þetta mál án þess að út væri gefið sérstakt samkomulag um það. Ég hef því leyft mér að spyrja: Hvað var þess valdandi að nauðsynlegt var að gefa út slíkt samkomulag?

Það hefur einnig verið spurt um það af hv. þm. Kjartani Jóhannssyni hvaða stefnu ríkisstj. hefði í kjaramálum og hvaða stefnu eigi að standa við. Það liggur alveg skýrt fyrir. Ríkisstj. gaf út yfirlýsingu eins og venja er þegar kjarasamningar eru gerðir. Venjan er að gefa út yfirlýsingar í tengslum við kjarasamningana. Menn gefa yfirleitt ekki út yfirlýsingar löngu áður en samningar eru gerðir. Ríkisstj. gaf út þá yfirlýsingu að hún væri í meginatriðum sammála þeim till. sem komu fram hjá aðilum vinnumarkaðarins og var með því að staðfesta vilja sinn tengdan þeim.kjarasamningum sem þá voru gerðir. Það kom að vísu fram að hæstv. fjmrh. taldi sig ekki bundinn af þessari yfirlýsingu vegna þess að hann óttaðist að hún rúmaðist ekki innan ramma fjárlaganna. Það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh. að hún rúmast ekki algjörlega innan ramma fjárlaganna. Þess vegna var nauðsynlegt að taka það sérstaklega fyrir í ríkisstj. og í þeim þingflokkum sem styðja ríkisstj.

En það er nú einu sinni þannig, að þegar samið er á vinnumarkaði í frjálsum samningum, eins og allir vilja að gert sé, verður það aldrei tryggt fyrir fram nákvæmlega hver niðurstaðan verður, enda ekki æskilegt þó að það sé nauðsynlegt að viðkomandi ríkisstj. lýsi yfir vilja sínum og mati sínu á því hvert svigrúm þjóðarbúið gefur í þeim efnum.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég hygg að í því sem ég hef sagt komi einnig fram svar við fsp. hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. — Hann hristir höfuðið. Ég tel þó að svo sé og hef ekki meira um það mál að segja.