01.03.1984
Sameinað þing: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3330 í B-deild Alþingistíðinda. (2861)

Umræður utan dagskrár

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vestf. hafði nokkuð hátt. Hann var afar hrifinn af fjmrh. núna í sinni ræðu. Það hefur skyndilega breyst tónninn í garð fjmrh. frá því sem var fyrir nokkrum dögum. Hann lofaði stuðningi við stefnu fjmrh. í sambandi við þann samning, sem hér hefur verið gerður nokkuð að umræðuefni, við verkamannafélagið Dagsbrún. Þessi þm. og flokkur hans hefðu nú getað liðsinnt enn meira ef flokkurinn hefði haft kjark til að fara í ríkisstj. á s.l. ári. Þá hefði flokkurinn getað staðið að því að vinna brautargengi hinni ákveðnu og fastmótuðu stefnu Alþfl. í kaup- og kjaramálum og öllum öðrum málum.

En Alþfl. virtist ekki vera mjög áfjáður í að fara í ríkisstj. Jú, hann tók undir það að hefja viðræður. Hann var í öllum meginatriðum sammála þeim efnahagsaðgerðum sem síðar voru framkvæmdar. En hann setti að lokum eitt skilyrði, að Alþfl. — flokkur með sex þm., ég endurtek: sex þm. — ætti að hafa forsrh. Og þegar honum var svarað því til að ráðherrastólarnir væru ekki til umr., fyrst væri til umræðu málefnasamningur og hvernig við gætum orðið sammála um hvernig ætti að taka á þeim mikla vanda sem var í þjóðfélaginu og er fram undan, þá var einum eða tveimur dögum síðar gerð samþykkt um að draga sig í hlé og taka ekki þátt í stjórnarmyndunarviðræðum. E.t.v. hefur það verið meining flokksins að það væri sjálfsögð krafa og skylda þessara tveggja stærstu flokka, sem mynduðu síðar ríkisstj., að Alþfl. hefði forsrh. og það væri höfuðatriðið í því sem væri að gerast að Alþfl. fengi forsrh., en ég tel að flokkurinn hafi ekki sýnt að hann væri ábyrgur stjórnmálaflokkur með því að bera fram slíka kröfu. Hann átti að halda áfram viðræðum, hann átti að halda áfram og fá að móta og hafa áhrif á mótun stjórnarstefnunnar. En hann hætti við, dró sig í hlé, þorði ekki. Þeir hlupu allir fyrir borð. Það sást í iljarnar á þeim öllum sex. Þetta veit hv. þm.

Hann breiddi sig mikið út yfir heilbrigðis- og tryggingamálin, að niðurskurður sæist enginn. Ég veit að þessi hv. þm. situr nú fyrir annan á þingi, sem þurfti að fara frá um tíma, en ég hélt að hann fylgdist mjög vel með stjórnmálum og með almennri pólitík. Ég vona að hv. 4. þm. Austurl. hafi ekki hlaðið hann svo störfum í Framkvæmdastofnun að undanförnu, áður en hann hætti, að hann hafi ekki getað fylgst sæmilega með stjórnmálum. Ég held að 4. þm. Austurl. sé ekki það óskaplega vinnuharður maður að hann lofi ekki mönnum, sem hafa áhuga á stjórnmálum, að lesa dagblöðin a.m.k. Hv. þm. hefði því átt að vita um það, að við framlagningu fjárlaga voru ákveðnar forsendur fyrir fjárlagafrv, forsendur um samdrátt í ríkiskerfinu öllu, í heilbrigðisþjónustunni einnig, 2.5% lækkun launa og 5% lækkun rekstrarkostnaðar. Innan ríkisspítalakerfisins og innan annarra sjúkrahúsa er annaðhvort búið að vinna úr þessu eða það er verið að því með ýmsum hætti. En ég ætla ekkí að gera það að umræðuefni.

Hins vegar hef ég aldrei lofað því og hef ekkert ráð á því að lofa að draga saman í heilbrigðis- og tryggingakerfinu um 300 millj. kr. Það er allt saman komið undir þeirri samstöðu sem næst fyrst og fremst innan stjórnarflokkanna. Ég býst ekki við mikilli aðstoð frá stjórnarandstöðunni, skal ég segja ykkur. Ég ætla að vera hreinskilinn. Ég hef ekki mikla trú á að núverandi stjórnarandstaða, þó með örfáum undantekningum, sé virkilega svo í stakk búin að hún vilji eða kæri sig um að taka þátt í skynsamlegum sparnaði. — En ég tek fram að það eru undantekningar. Það eru menn í stjórnarandstöðu sem ég treysti vel og veit að vilja vera ábyrgir menn. En það heyrist því miður allt of sjaldan í þeim, en þess meira í hinum.

Það hefur verið mikið talað um samning fjmrh. Alberts Guðmundssonar við Guðmund J. Guðmundsson, formann verkamannafélagsins Dagsbrúnar, og þeir hafa keppst um að lýsa því yfir, þeir sálufélagar, hv. 3. þm. Vestf. og hv. 10. landsk. þm. — en þeir hafa náð mjög vel saman á síðustu mánuðum. Þó ekki væri allt of gott samkomulag oft áður — að þessi samningur sé nú ekki mikið, hann kosti innan við 1 milljón. Af hverju er verið að rífast um þetta hér á Alþingi og eyða dýrmætum tíma löggjafarsamkundunnar í að rífast um þennan lítilfjörlega samning? Ég skal ekki draga í efa að beinn kostnaður ríkissjóðs við þennan samning sé innan við 1 millj. kr. En áhyggjur okkar eru þær, að hann dragi dilk á eftir sér, að það komi ýmsir aðrir fram sem segja: Það þarf að leiðrétta okkar mál. Og hversu lengi má ekki alltaf halda áfram að segja: Það þarf að leiðrétta þetta og hitt? Með þessum samningi fjmrh. er verið að leiðrétta það sem jafnröskur maður og Ragnar Arnalds kláraði ekki í rúm þrjú ár sem fjmrh. að leiðrétta og jafnafbragðsröskur maður og 3. þm. Vestf. kláraði ekki í hálfan fjórða mánuð sem hann var fjmrh. Það var sýnu lengri tími miðað við dugnað og er ég þó ekki að gera lítið úr Ragnari Arnalds. Þetta gekk ekki betur en svona.

En nú spyr ég þessa ágætu menn: Þegar ASÍ kemur og segir: Það er misræmi milli félaga innan okkar samtaka, eigum við þá að segja: Nei, þetta var ákveðið, þeir reiknuðu þetta út í fjmrn. Hann Ólafur Ragnar og hann Sighvatur o.fl. segja að þetta fari alls ekki yfir milljón og við getum því ekki hlustað á ykkur. M.ö.o. erum við að segja við önnur stéttarfélög í landinu: Þið fáið ekki neitt. Þetta kostar bara 1 milljón. (Gripið fram í.) sókn fær ekki neitt, önnur aðildarfélög að Alþýðusambandi Íslands og Verkamannasambandinu fá ekki neitt. Þetta er ákveðið, punktum basta.

Þetta er ekki svona auðvelt og það þýðir ekki fyrir menn að leika svona loddarahlutverk hér í sölum Alþingis. (ÓRG: Er þá fjmrh. að leika loddarahlutverk?) Og ef það á að ganga lengra en þetta þýðir það að það verður almenn launaskriða og stórfelldar hækkanir umfram það sem Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hafa nú samið um.

Hvað þýðir það? Þýðir það að hægt sé að halda verðgildi krónunnar við stórfelldan samdrátt í framleiðslu þjóðarinnar í sama? Nei, það hlýtur að kalla á nýjar og örar gengislækkanir. Það hlýtur að kalla á vaxandi verðbólgu. Það er auðvitað ægilegt áfall, sem ýmsir nöldurseggir hafa orðið fyrir, að núv. ríkisstj. hefur tekist að koma verðbólgunni niður sem raun ber vitni. Það er stórt atriði að geta brotið þann árangur á bak aftur og koma aftur ófreskjunni á fulla ferð. (ÓRG: Er þá fjmrh. að því?) (KJóh: Ætli hann sé ekki ófreskjan?) (Forseti: Vinsamlegast kallið ekki fram í.)

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði að nú ætti að fara að taka upp einhverjar ægilegar aðferðir í Sjálfstfl. Það ætti að fara að draga hæstv. fjmrh. fyrir dómstól í flokknum, hafa réttarhöld, sagði Ólafur Ragnar Grímsson. Mér þykir ekkert að því þó að við sem erum í sama flokki séum spurðir spjörunum úr innan flokks, en mér þætti fjandi hart ef það væri send eftir mér lögreglan til þess að hirða mig eða vin minn hæstv. fjmrh. Það gerðist hér fyrir tæpum tveimur árum. Þá var formaður í þingflokki Alþb. Ólafur Ragnar Grímsson. Hann hringdi á lögregluna og skipaði lögreglunni að finna tiltekinn þm. og færa hann hingað í þinghúsið — þm. úr sínum eigin flokki og það ekki ómerkari þm. en Guðrúnu Helgadóttur. Og ég get sagt ykkur að hún var reið þegar hún kom hingað í þinghúsið, sem von er. Það er von að karl hneykslast á því ef á að tala við okkur, sem erum í fyrirsvari fyrir okkar flokk í okkar eigin flokki. Ég er ekkert hneykslaður á því, en mér fannst hitt allt of mikið gagnvart vinkonu minni Guðrúnu, ég verð að segja það.

Nú segja stjórnarandstæðingar að það sé verið að segja fjmrh. að fara. Þeir hafa ráðist að fjmrh. hvað eftir annað og spurt hvenær hann ætli að fara. Það er enginn að biðja fjmrh. að fara. Hins vegar er ágreiningur á milli okkar og hæstv. fjmrh. út af þessum samningi, ekki út af því hvort þetta mál heyri undir fjmrh. Samningurinn er gerður og undirritaður en þó að hann sé ekki borinn undir atkv. í ríkisstj. til samþykktar af því að hann er þegar gerður þýðir það ekki að ég megi ekki segja að ég sé á móti þessum samningi. Meira að segja sjálft Alþingi getur samþykkt lög sem við einstaklingarnir í þjóðfélaginu eru margir hverjir á móti. Því höfum við leyfi til að segja: Við erum andvígir þessum lögum eða við erum á móti þessum lögum. En við erum skyldug að hlýða þeim samt. Og það er það sem ég sagði: Ég er andvígur þessum samningi.

Hins vegar er ekki því að leyna, eins og allir þm. vita, og það þýðir ekkert að vera að setja upp einhvern sakleysissvip eða sauðarsvip, að forsrh. í hverri ríkisstj. fer fyrst og fremst með efnahagsmálin, kjaramálin. Fjmrh fer með fjármál ríkisins. Fjmrh. hefur meiri samskipti við aðra ráðh. en nokkur annar. En kjaramálin og efnahagsmálin eru alltaf fyrst og fremst í höndum forsrh., hver sem hann er. Þetta vita allir menn. Það hefur gerst í ríkisstjórn eftir ríkisstjórn að hinir einstöku ráðh. hafa komið með sín mál og þau hafa verið rædd, hin stærri mál, innan ríkisstj., alveg sama hvaða flokkar hafa verið í ríkisstj. Þetta vita allir. Þegar ég var sjútvrh. 1974 til 1978 var aldrei gerð svo fiskverðsbreyting að hún væri ekki rædd í ríkisstj. og sagt frá stöðu mála í verðlagsráði milli kaupenda og seljenda. Þetta hefur alltaf verið gert og á að gera. E.t.v. hefði ekkert komið upp á ef við hefðum rætt þetta og við hefðum fengið betri og ákveðnari skýringar og kannske haft nokkuð annað orðatag. En það var ekki gert, því miður, og það er það sem ég hef leyft mér að gagnrýna minn ágæta vin, hæstv. fjmrh., fyrir.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð miklu fleiri, en vil þó segja við hv. stjórnarandstæðinga að ég tel það ekkert óeðlilegt, heldur sjálfsagt og skylt, að formaður Sjálfstfl. taki þátt í stórum málum eins og efnahagsmálum. Hann hefur setið fjölmarga fundi með forsrh. sem fulltrúi okkar flokks þó að hann eigi ekki sæti í ríkisstj. Við fylgjumst mjög vel með störfum hvers annars. Við komum saman vikulega fyrir utan þingflokksfundi til að ræða stöðu mála og bera undir hvern annan. Þar eru formaður og varaformaður flokks og formaður þingflokks. Við ræðum síðan öll þau mál sem mestu máli varða innan okkar þingflokks. Þetta eru mjög eðlileg lýðræðisleg vinnubrögð. Ég hélt að það þyrfti engan að undra að formaður annars stjórnarflokksins, þó að hann eigi ekki sæti í ríkisstj., taki þátt í umr. um efnahagsmál.

Ég bið hv. stjórnarandstæðinga að tala ekki um, eins og sérstaklega einn gerði áðan, að það sé einhver klíka í kringum formann Sjálfstfl. Hann er kosinn með yfirgnæfandi meirihluta atkv. á landsfundi Sjálfstfl., langfjölmennustu stjórnmálasamkundu landsins. Hann fær þar öruggt fylgi og traust flokksmanna. Þetta borgar sig ekki. Það hlustar enginn á menn sem tala þannig að það sé einhver klíka á bak við slíkan mann. Mér er bæði heiður og sómi að því að vinna með formanni Sjálfstfl. og ég hef haft af því bæði gagn og ánægju og ber til hans mikið traust.

Ég vona að menn eigi eftir að sjá að hér er ekki verið að beita neinn mann eða félög einhverjum þeim tökum að það sé verið að gera þeim illt af mannvonskunni einni saman. Hér er fyrst og fremst verið að stuðla að kjarasamningum í landinu, raska ekki því viðhorfi og þeim ásetningi að fá verðbólguna niður. Meðan við erum í þeim öldudal sem núna er vegna samdráttar þjóðarframleiðslu er staða okkar erfið. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að auka þjóðarframleiðsluna. Það er fyrsti og öruggasti vísirinn að því að auka kaupmátt launa og gera fólki aftur kleift að ná því sem það hefur glatað fyrst og fremst af þessum ástæðum á undanförnum árum. Þetta vil ég gjarnan að menn hafi í huga.