01.03.1984
Sameinað þing: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3334 í B-deild Alþingistíðinda. (2862)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. fjmrh. fyrir svar hans hér áðan, þar sem hann upplýsti að hann mundi svara Alþýðusambandinu jákvætt ef Alþýðusambandið óskaði eftir því að fá sambærileg kjör fyrir sína meðlimi annars staðar á landinu eða hjá öðrum félögum en Dagsbrún. Ég vona að af þessu verði og að gengið verði til samræmingar hvarvetna þar sem misræmi ríkir. Hitt er annað mál, að það er óþarfi að fjmrh. eða aðrir geri lítið úr þessum samningi. Og auðvitað kostar þetta meira en milljón. Ef þetta kostar innan við milljón þá er þetta ekki neitt sem um er að tala. Það er mín skoðun að verið sé að tala um miklu meiri samræmingu en hér er látið í veðri vaka og eigi af henni að verða þá kostar það auðvitað peninga.

Ég vona að fjmrh. fái frið fyrir sínum flokksmönnum og öðrum til að efna þessi fyrirheit. Þeir hafa efnt til mikillar galdrabrennu. Ég vona að sú brenna muni ekki eiga sér stað, þetta verði ekki til þess að fjmrh. verði að víkja frá því sem hann hefur undirritað. Sem svar við því sem hæstv. heilbrrh. sagði áðan þegar hann var að ræða um ríkisstj. og hennar verk og hennar stefnu er rétt að það komi fram að við bjuggum við ríkisstj. hér fyrir nokkru þar sem forsrh. hafði aðeins tvo þm. að baki sér, þrjá þegar best lét, þannig að það er ekki mikil viðmiðun. Hitt er svo annað mál að ég hygg að ef ríkisstj. hefði farið að ráðum Alþfl. hvað varðar efnahagsstefnu þá væri öðruvísi komið fyrir launafólki í dag. Og þá væri öðruvísi og betur komið fyrir þjóðfélaginu í dag.

Ég endurtek þakkir mínar og treysti því að nú muni Alþýðusambandið fá bréf því til staðfestingar að til þessarar samræmingar verði gengið.