01.03.1984
Sameinað þing: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3334 í B-deild Alþingistíðinda. (2863)

111. mál, áfengt öl

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Á þskj. 138 er till. til þál. um almenna atkvæðagreiðslu um áfengt öl. Flm. eru hv. þm. Magnús H. Magnússon, sá sem hér stendur, hv. þm. Guðrún Helgadóttir og hv. þm. Stefán Benediktsson. 1. flm. till. lagði hana fram þegar hann sat á þingi, en hann er varamaður Alþfl. Það er þess vegna sem það fellur í minn hlut að segja hér nokkur orð og reyna að koma því til leiðar að málið verði sent til hv. allshn. Sþ., sem gæti þá kynnt sér málið og komið því síðan aftur inn í Sþ. þar sem það fengi endanlega afgreiðslu.

Það er ástæða til að geta þess hér varðandi grg. sem fylgir með þáttill. að hún er að sjálfsögðu skrifuð af 1. flm., hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni, svo sem algengast er um grg. sem fylgja till. á borð við þessa. Þótt þáltill. geri aðeins ráð fyrir því að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um bjórmálið, en ekki sé verið að fara fram á jákvæða yfirlýsingu Alþingis um að leyfa bruggun og sölu áfengs öls, má gera ráð fyrir að í umr. verði rædd efnislega með- og mótrök í því máli. Flm. vilja þó leggja áherslu á að með till. er einungis verið að leggja til að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um málið, en ekki að lögunum verði breytt nú þegar. Verði till. samþykkt gefst gnægð tækifæra til að ræða málið efnislega eins og vera ber.

Talsverðar umr. hafa orðið um þetta mál á undanförnum árum og virðast skoðanakannanir benda til að fylgi við bjórinn hafi heldur vaxið en hitt. Þetta kemur varla á óvart. Með auknum samskiptum við aðrar þjóðir, tíðari siglingum og vaxandi heimabruggun hér á landi hefur mönnum lærst að bjórinn þarf ekki að vera hættulegri Íslendingum en öðrum þjóðum. Flest rök gegn því að hér á landi sé leyft að brugga og drekka áfengt öl eru í eðli sínu rök gegn áfengisneyslu yfirleitt. Þau rök ern að sjálfsögðu gild sem slík, en varla verður það á dagskrá næstu árin að banna áfengi alveg, enda hafa Íslendingar og aðrar þjóðir heldur slæma reynslu af slíku banni.

Sérstakar mótbárur gegn bjórnum hafa einkum verið þær að bjórneyslan bætist við áfengisneyslu þjóðarinnar, að fólk byrji að drekka fyrr á ævinni og líkur á daglegri drykkju á vinnustöðum aukist. Öll þessi sjónarmið eiga fullan rétt á sér og taka ber tillit til þeirra þegar málið er rætt og ákvörðun tekin. Að mínu mati breyta þau samt ekki því að eðlilegt megi teljast að fólk hér á landi fái tækifæri til að drekka bjór fyrst á annað borð er verið að leyfa áfengisneyslu. Þegar bjórinn verður leyfður ber þó að hafa þessi viðhorf og reynslu annarra þjóða í huga.

Grundvallarspurningin er auðvitað sú: Hvers vegna getum við ekki fengið að drekka bjór hér á landi fyrst okkur er treyst til að drekka vín, bæði sterk og veik? Slíkt lögbundið bann, sem stríðir gegn siðgæðishugmyndum manna, er fremur til þess fallið að fólk haldi áfram að umgangast áfengi með því tvískinnungsviðhorfi sem einkennir drykkjuvenjur Íslendinga. Allir sem vilja geta nú bruggað sinn eigin bjór og reyndar aðrar áfengistegundir einnig. Flugliðar og farmenn geta flutt bjór til landsins og í sendiráðum hérlendis er drukkinn íslenskur bjór. Þannig er ekki bannað að neyta bjórsins, heldur aðeins að brugga hann og selja. Slík mismunun verður að sjálfsögðu óþolandi í augum þess fólks sem telur sig geta umgengist bjór með viðlíka hætti og útlendingar og íslenskt sérréttindafólk í þessum efnum.

Hér skal ekki farið út í þá sálma að bera saman gæði bjórs við annað áfengi. En benda má á þýðingu Halldórs Laxness á grein sem birtist í heilbrigðisdálki süddeutsche Zeitung í München 26. apríl 1977. Í inngangi þýðingarinnar segir Halldór Laxness m.a., með leyfi forseta:

„Fróðlegt er að heyra hverju hlutgengir menn í heilbrigðismálum Þýskalands, þessa mikla bjórneyslulands, halda fram um þennan drykk, og bera saman við ýmislegt sem skrifað er um málið hér á landi—ekki síst með tilliti til þess að hér veit almenningur ekki gjörla um hvað verið er að tala þegar bjór er á dagskrá, þar sem drykkurinn hefur verið krímínaliséraður hjá okkur í tvær kynslóðir, það er að segja látinn jafnbrýna glæp allar götur síðan árið 1915.“

Þetta er tekið orðrétt úr bókinni „Seiseijú, mikil ósköp“ á bls. 121. Helgafell gaf bókina út.

Í umr. um bjórmálið er ekki eingöngu á það að líta hvort leyfa skuli sölu áfengs öls, heldur einnig hvernig að sölunni skuli staðið ef leyfð verður. Mín skoðun er sú, að varlega eigi að fara af stað í þeim efnum. Ég er á móti því að bjóða hann til sölu í matvörubúðum eins og víða tíðkast. Eðlilegt er að hann verði einungis seldur í útsölustöðum ÁTVR og þá aðeins í heilum eða hálfum kössum. Meira að segja kæmi til greina að fara enn hægar í sakirnar fyrst í stað og takmarka söluna við vínveitingahúsin þannig að engar flöskur verði í umferð heldur verði bjórinn einungis framreiddur í glösum. Slíkt kemur í veg fyrir fyllirí á vinnustöðum og í ljós kemur hvort Íslendingar þola drykkinn verr en aðrar þjóðir. Sem kunnugt er hefur mesti styrrinn staðið um millisterka ölið í nágrannalöndunum. Af þeim sökum mætti reyna þá aðferð hér að leyfa fyrst í stað aðeins sölu bjórs með tilteknu áfengismagni og feta sig áfram á grundvelli þeirrar reynslu sem fengist með þeim hætti. slíkum atriðum hlýtur þingnefnd að velta fyrir sér og breyta till. samkv. því.

Að sjálfsögðu hefur löggjafarvaldið síðasta orðið um það hvort og hvernig skuli ákveða afnám bjórbannsins. Eðlilegast sýnist mér að almenningur ákveði það sjálfur í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og hér er lagt til, enda virðist það vera regla hér á landi að almenn atkvæðagreiðsla fari fram um það hvort opna skuli áfengisútsölur á viðkomandi stöðum. Bjórmálið skiptir mönnum ekki í pólitíska flokka, en niðurstöður slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu gætu verið leiðbeinandi fyrir þm., enda má búast við því að í umr. um slíka atkvæðagreiðslu komi fram gnægð raka og gagnraka í málinu til að moða úr. Ef þingnefnd litist betur á þá hugmynd gæti Alþingi kosið nefnd til að útbúa þá till. sem leggja skal fram um málið. Í henni þarf að vera greinargóð lýsing á framkvæmd þess.

Það er ekki algengt að efnt sé til þjóðaratkvæðis hér á landi. Samkvæmt stjórnarskránni er þó skylt að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu þegar um er að ræða frv. sem horfir til breytingar á kirkjuskipuninni og um lög sem tekið hafa gildi en forseti lýðveldisins synjar staðfestingar. Einnig er talið að ákveða megi með lögum að þau öðlist ekki gildi fyrr en þau hafa verið staðfest með þjóðaratkvæði. Sú leið hefur aldrei verið farin hér á landi. Alþingi hefur hins vegar með þáltill. samþykkt að kanna hug kjósenda til löggjafarmálefna. Það var gert árið 1908 og 1933 um bannlögin og 1916 um þegnskylduvinnuna. Þjóðaratkvæðagreiðslan 1908 fór fram skv. þál. frá Nd. Um 60% kjósenda greiddu atkv. með banni en 40% gegn. Bannlögin voru síðan sett 1909. Þjóðaratkvæðagreiðslan 1916 um þegnskylduvinnu fór fram skv. þál. beggja deilda 1915. Niðurstaðan varð sú, að rúm 80% kjósenda greiddu atkv. gegn þegnskylduvinnu. Engin lög voru því samþykkt um það efni. Atkvæðagreiðslan um afnám innflutningsbanns á áfengi 1933 átti sér stað skv. þál. frá Sþ. Úrslit þeirrar atkvæðagreiðslu urðu á þá lund að 57.7% kjósenda vildu afnema bannið en 42.3% voru með banni. Aðflutningsbannið var svo afnumið með áfengislögunum nr. 33/1935. Þjóðaratkvæði um mikilvægar breytingar á áfengislöggjöfinni eru mjög í takt við gildandi áfengislög, en í 10. gr. þeirra er gert ráð fyrir að atkvæðagreiðsla skuli fara fram í bæjarfélagi áður en áfengisútsala er opnuð eða henni lokað.

Þar sem langt er um liðið síðan efnt var til þjóðaratkvgr. um áfengislöggjöfina þykir mér rétt að rifja aðdragandann nokkuð upp. Árið 1932 og 1933 eru flutt lagafrv. á Alþingi um breytingu á áfengislögunum þar sem gert er ráð fyrir því að aðflutningsbanni á áfengi sé rift og heimilað að flytja áfenga drykki til landsins. En það var ákveðið, eins og ég sagði áður, árið 1909 eftir þjóðaratkvgr. að banna áfenga drykki og gengu þá svokölluð bannlög í gildi. Árið 1933, þegar áfengislagafrv. er sent til allshn. Nd., gerist það að allshn. afgreiðir ekki málið, en þm. í allshn. leggja til að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um málið. Röksemdir eru þær m.a. að þjóðaratkvgr. hafi farið fram um bannið á sínum tíma. Umræður um málið urðu allmiklar, bæði um lagafrv. og eins um þáltill. um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Í umræðum um lagafrv. kom fram till. um rökstudda dagskrá frá þingmanni Ísafjarðar. Hún hljóðaði þannig, með leyfi forseta:

Nd. Alþingis skírskotar til þess:

1. að meðan áfengisbannið var fullkomnast var drykkjuskapur áreiðanlega minnstur í landinu,

2. að með hverri tilslökun hefur drykkjuskapur aukist,

3. að þrátt fyrir allt er drykkjuskapur minni á Íslandi en í nokkru landi, þar sem ekki er bann,

4. að ef það, sem eftir er af banninu, væri að fullu afnumið, mundi mikil hætta á, að drykkjuskapur margfaldaðist,

5. að ósæmilegt er að afla ríkissjóði tekna með innflutningi sterkra drykkja, sem leiðir til aukinnar áfengisnautnar og meðfylgjandi hörmunga fyrir land og lýð,

6. að óverjandi er að afnema bannið að fullu, án þess að bera það undir þjóðaratkvæði

og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þannig hljóðaði till. um rökstudda dagskrá frá þm. Ísafjarðar þegar breyting á áfengislögum var til umræðu árið 1933 á hv. Alþingi. Það er einmitt síðasti liðurinn í rökstuddu dagskrártillögunni sem þm. virðast hafa fallist á.

Í C- og D-hefti Alþingistíðinda frá aðalþinginu 1933, í dálkum 437–546 eru umr. um frv. Jóns Auðuns Jónssonar o.fl. Frv. var sent allshn. Nd. en hún lauk ekki málinu, heldur samdi þáltill. um þjóðaratkvæðagreiðslu sem síðan var samþykkt á þinginu. Árið eftir, 1934, voru svo samþykkt ný áfengislög á grundvelli þjóðaratkvæðagreiðslunnar, sem fram fór fyrsta vetrardag 1933, skv. þáltill. sem samþykkt var í Sþ. hinn 29. maí 1933 með 26 atkv. gegn 2. Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar urðu þau að 15 884 kjósendur greiddu atkv. með afnámi bannsins en 11 624 voru á móti.

Öl hefur að sjálfsögðu oft komið við sögu á Alþingi. Í seinni tíð aðallega í umr. um mál eins og það sem hér er til umr., en áður og fyrrum vegna öldrykkju á þingum. Í Jónsbók er ákvæði sem segir að „drykk skal enginn til lögréttu bera, hvorki til sölu eða á annan veg“ og í Þórhalls þætti ölkofra segir m.a.: „Hann hafði þá iðju að gera öl á þingum til fjár sér, en af þessari iðn varð hann brátt málkunnugur öllu stórmenni, því að þeir keyptu mest mungát. Var þá sem oft kann verða, að mungátin eru misjafnt vinsæl og svo þeir, er seldu.“.

Í dag er ástandið þannig að farmenn, flugliðar og ferðamenn geta keypt öl tollfrjálst. Íslenskt öl er drukkið í sendiráðum og á Keflavíkurflugvelli, heimabrugg er stundað mjög víða, en samt er bannað að selja öl við hlið annars áfengis í verslunum ÁTVR og á öldurhúsum. Með þessari till. vilja flm. láta kanna hver vilji þjóðarinnar sé í þessum efnum.

Herra forseti. Mér er það fullljóst að íslenska þjóðin á eins og margar aðrar þjóðir við áfengisböl að stríða. Fáum kemur þó til hugar allsherjaráfengisbann í alvöru. Framboði á áfengi ber að halda innan ákveðinna marka, þannig að freistingin blasi ekki alls staðar við. Að mínu áliti ber þó fyrst og fremst að draga úr eftirspurninni. Slíkt verður ekki gert með boðum né bönnum heldur skilvirkri og skynsamlegri fræðslu um afleiðingar drykkjunnar. Með breyttum reglum gefst kostur á nýjum umgengisvenjum og heilbrigðara almenningsáliti. Fræðslustarf áhugasamtaka og opinberra aðila í skólum og á vinnustöðum er happadrýgsta aðferðin og skilar miklu meiri árangri en boð og bönn sem stríða gegn skynsemi almennings og leiða til virðingarleysis gagnvart lögum og reglum.

Þessi till., ef samþykkt verður, hleypir vonandi af stað umræðum um áfengismál. Á grundvelli raka og gagnraka er eðlilegt að þjóðin greiði atkvæði um málið. Niðurstaðan verður leiðbeinandi fyrir Alþingi sem auðvitað á síðasta orðið.

Ég legg til, herra forseti, að till. verði að loknum fyrri hluta umr. send allshn. til frekari skoðunar og afgreiðslu.