31.10.1983
Efri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

42. mál, orkulög

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið er augljóst að hæstv. iðnrh. leggur til að þetta frv. nái ekki fram að ganga. Ég vil vekja athygli hv. þdm. á því, enda þótt þess gerist ekki þörf vegna þeirra sem áður sátu í þessari deild, að á liðnum vetri var lagt hér fram frv. sem hljóðaði efnislega eins og þessi brbl. sem út voru gefin af fyrrv. hæstv. ríkisstj. Þegar umr. um það frv. átti sér stað lýsti ég því yfir að meðan héraðsrafmagnsveitur, hitaveitur — og Rafmagnsveitur ríkisins raunar líka þyrftu að fá samþykki ráðh. fyrir sínum gjaldskrám, þá væri ekki óeðlilegt að Landsvirkjun þyrfti einnig að fá staðfestingu ráðh. á sinni gjaldskrá. Umr. lauk og málinu var vísað til nefndar og þar var haldið áfram að fjalla um það.

Ýmislegt kom fram við umfjöllun í nefndinni frá þeim aðilum sem staðið höfðu að samningum um nýja landsvirkjun. Þeir samningar voru, eins og hv. alþm. er kunnugt, að hluta til samþykktir á liðnu vori og það í formi nýrra laga um Landsvirkjun. Ein af meginforsendum þess samkomulags sem tókst um Landsvirkjun á endanum var sú, að áfram væri inni í landsvirkjunarlögum ákvæði þess efnis, að stjórn Landsvirkjunar gæti sett fyrirtækinu gjaldskrá hverju sinni, að fengnum tillögum, eins og áður var, Efnahagsstofnunar, nú að sjálfsögðu Þjóðhagsstofnunar.

Eins og kunnugt er fór það svo, að málið komst ekki út úr nefndinni. Það var mitt álit sem formanns þessarar hv. nefndar, að alls ekki væri þingmeirihluti fyrir því að ganga með þessum hætti á bak orða sinna, eins og þau höfðu verið sögð og lágu til grundvallar þeim samningi um nýja Landsvirkjun sem nú hefur verið lögfestur. Viðhorf geta að sjálfsögðu breyst. Nú tekur iðnn. þetta mál til umfjöllunar. Ég skal ekkert segja um það, hvað kemur út úr þeirri umfjöllun. En ég spyr hæstv. iðnrh. hvort eindrægni sé innan ríkisstj. um þetta mál, hvort full samstaða sé um þá málsmeðferð sem fram kom í máli hæstv. ráðh.