05.03.1984
Efri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3341 í B-deild Alþingistíðinda. (2871)

221. mál, jarðalög

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Á þskj. 390 er frv. til l. um breyt. á jarðalögum nr. 65 31. maí 1976, með síðari breytingum.

Breyttar aðstæður í landbúnaði á síðustu árum hvað markaðsskilyrði varðar hafa kallað á samdrátt í framleiðslu búvara og sérstakar reglur um stjórn framleiðslunnar. Í ljósi breyttra aðstæðna er einnig rétt að huga að verkefnum hinna einstöku stofnana sem vinna að málefnum landbúnaðarins og taka stöðu þeirra og verkefni til endurmats.

Allt frá útgáfu nýbýlatilskipunarinnar árið 1776 hefur það verið stefna stjórnvalda að fjölga bændum í landinu og fjölga býtum. Þannig var á árinu 1936 komið upp sérstakri nýbýlastjórn og frá árinu 1947 hafa Landnám ríkisins og landnámsstjórn sinnt þessu verkefni af hálfu hins opinbera auk ýmissa annarra skyldra verkefna.

Skv. gildandi lögum um Landnám ríkisins, nr. 45/1971, er það verkefni þess að annast skipulagningu byggðar í sveitum landsins, halda jarðaskrá yfir allar jarðir, sjá um framkvæmdir í byggðahverfum, annast eða fylgjast með ábúð, sölu og leigu lögbýtisjarða, félagsræktun, stofnun nýbýta, endurbyggingu og sameiningu jarða, stofnun grænfóðursverksmiðja og úthlutun ríkisframlaga til landbúnaðarins skv. lögum.

Breytingar á löggjöf, svo sem setning jarðalaga 1976 og breyting á skipulagslögum árið 1978 þess efnis að landið yrði allt skipulagsskylt, hafa í ýmsu breytt stöðu Landnáms ríkisins. Þá hafa breyttar aðstæður í landbúnaði leitt til þess að af hálfu stjórnvalda og samtaka bænda er nú ekki lengur lögð sama áhersla og áður á að fjölga bændum og stofna nýbýli í sveitum. Þess í stað er lögð áhersla á að samræma stofnun nýrra býla og fjölgun bænda stefnunni í framleiðslumálum landbúnaðarins og þeim aðstæðum sem þar eru uppi hverju sinni.

Skv. núgildandi lögum tekur landnámsstjórn hins vegar ákvarðanir sínar um viðurkenningu á nýbýlum óháð ákvörðunum og vilja þeirra sem annast og bera ábyrgð á stjórn búvöruframleiðslunnar. Í ljósi þessa er ástæða til að meta tilverurétt Landnáms ríkisins og skipan þeirrar þjónustu sem þar er innt af hendi. Ýmsar athuganir, þar á meðal athugun sérstakrar nefndar sem landbrh. skipaði til þess á árinu 1979, bentu til þess að skipa mætti verkefnum Landnáms ríkisins niður á aðrar stofnanir. Athuganir Ríkisendurskoðunar, sem hún birti í skýrslu sinni um Landnám ríkisins á árinu 1982, benda einnig til þess að rétt og hagkvæmt sé að færa verkefni Landnámsins til annarra stofnana. Í þessu frv. er því lagt til að landnámsstjórn og Landnám ríkisins verði lögð niður og viðfangsefnin falin öðrum aðilum eða felld alveg niður.

Tilgangurinn með þessum breytingum, sem hér er lagt til að gerðar verði, er tvíþættur: Í fyrsta lagi að einfalda stjórnkerfi landbúnaðarins og koma í veg fyrir óþarfa skörun á hlutverkum stofnana ríkisins og/eða landbúnaðarins og í öðru lagi að draga úr kostnaði við opinbera stjórnsýslu. Varðandi síðast nefnda atriðið má nefna að Ríkisendurskoðun áætlaði, miðað við verðlag 1. jan. 1982 að árlegur sparnaður við að leggja niður Landnám ríkisins næmi nær 600 þús. kr. Í meginatriðum er gert ráð fyrir að verkefni varðandi stofnun býla, félagsbúa, endurbyggingu jarða, jarðaskrá og umsjón jarða Landnáms ríkisins flytjist til landbrn. og að þeim verði búinn lagagrundvöllur í jarðalögum. Er það gert í því frv. sem hér liggur fyrir. Jafnframt er hér lagt til að gerðar verði breytingar á nokkrum ákvæðum jarðalaganna í ljósi fenginnar reynslu og til samræmis við breytingar á annarri löggjöf frá 1976.

Landnám ríkisins hefur annast stjórnsýslu og rekstur þriggja af fjórum graskögglaverksmiðjum í eigu ríkisins og sú fjórða er rekin sjálfstætt. Samhliða því að Landnám ríkisins er lagt niður er gert ráð fyrir að stjórnsýsla allra graskögglaverksmiðja ríkisins verði sameinuð á einum stað og undir einni stjórn. Verður sérstakt frv. um fóðurverksmiðjur ríkisins lagt fram á þessu þingi.

Að meginstefnu til er í frv. þessu fylgt efnisreglum núgildandi laga um stofnun nýbýla, endurbyggingu jarða, félagsbú og jarðaskrá, nema hvað nýir aðilar taka við verkefnum Landnámsins. Útgáfa á heimild til stofnunar nýs býlis til hvers konar búvöruframleiðslu, endurbyggingar eyðijarða og stofnunar félagsbús verður skv. frv. stjórnvaldsákvörðun sem landbrh. tekur og ber ábyrgð á. Er talið eðlilegt að ráðh. geti samræmt slíkar ákvarðanir þeirri stefnu sem fylgt er á hverjum tíma af hálfu stjórnvalda varðandi stjórn búvöruframleiðslu. Skv. frv. er það hin almenna regla að áður en ráðh. tekur ákvörðun um framangreint efni ber að leita umsagnar Búnaðarfélags Íslands og Framleiðsluráðs landbúnaðarins sem láta þá uppi faglegar umsagnir um slíkar beiðnir. Sú regla er hins vegar óbreytt að sveitarstjórn og jarðanefnd verða að samþykkja stofnun nýs býlis, endurbyggingu eyðijarða og stofnun félagsbús. Að fenginni reynslu er talið nauðsynlegt að settar verði ítarlegri og skýrari reglur um félagsbú og eru gerðar um það tillögur í frv. þessu.

Ég mun nú víkja að einstökum ákvæðum þessa frv. þar sem gerðar eru tillögur um breytingar frá reglum núgildandi laga.

Í 3. gr. frv. er lagt til að í 10. gr. jarðalaganna verði settar einfaldar og skýrar reglur um afskipti jarðanefndar af byggingu sumarbústaða og aðilaskipti að réttindum yfir þeim. Í greininni er fylgt þeim tilgangi jarðalaganna að tiltekin stjórnvöld skulu fylgjast með og samþykkja breytingar á nýtingu þess lands sem notað hefur verið til landbúnaðar. Ekki er hins vegar talin ástæða til að jarðanefnd og sveitarstjórn þurfi að samþykkja skv. 6. gr. jarðalaganna aðilaskipti að réttindum yfir sumarbústöðum í sumarbústaðahverfum og sumarbústöðum á lóðum sem teknar hafa verið úr landbúnaðarnotum skv. 1. og 2. mgr. 12. gr.

Varðandi sumarbústaðahverfi eru sett skýr ákvæði um að land undir þau skuli jafnan tekin úr landbúnaðarnotum, en um sumarbústaði utan hverfa er lagt til að sú meginregla gildi að jarðanefnd þurfi að samþykkja ráðstöfun á landi undir þá og aðilaskipti að réttindum yfir þeim skv. 6. gr. Hins vegar getur sá, sem byggir eða á sumarbústaði eina sér utan sumarbústaðahverfis, farið þá leið að fá lóðina (landið) tekna úr landbúnaðarnotum, og fáist slíkt leyfi þarf ekki eftirleiðis að afla samþykkis skv. 6. gr. laganna. Þessi breyting á jarðalögum er til samræmis við þær breytingar sem urðu á skipulagslögum 1978 og þá reynslu sem fengin er af framkvæmd jarðalaganna.

Varðandi reglur 12. gr. jarðalaga, um töku lands úr landbúnaðarnotum og skiptingu á landi jarða, eru ekki gerðar tillögur um breytingar umfram það sem leiðir af öðrum ákvæðum frv. og aðild nýrra stjórnvalda og annarra að þeim ákvörðunum sem þar er fjallað um. Það er nýmæli í greininni að leita skuli umsagnar Skipulags ríkisins áður en gefið er leyfi til að leysa land úr landbúnaðarnotum. Er þetta gert með tilliti til þess að öll sveitarfélög eru nú skipulagsskyld og þess að taka lands úr landbúnaðarnotum kann að tengjast ráðstöfun lands með skipulagi.

Við setningu jarðalaganna 1976 var ætlunin að regla 3. mgr. 12. gr. taki til hvers konar skipta á landi jarða og sameiginlegu landi fleiri jarða, hvort sem því væri skipt skv. landskiptalögum nr. 46/1941 eða með öðrum hætti. Í framkvæmd hefur hins vegar borið á því að menn teldu heimilt að skipta landi skv. lögum nr. 46/1941 án þess að afla samþykkis skv. greininni. Til að taka af allan vafa í þessu efni þótti því rétt að taka sérstaklega fram í greininni að hún tæki einnig til skipta skv. lögum nr. 46/1941.

Í 4. gr. jarðalaganna er ákveðið að jarðanefnd skuli starfa í hverri sýslu. Skv. 3. gr. laganna taka þau ekki einungis til lands og landsréttinda í sýslum, heldur einnig til lands innan lögsagnarumdæma kaupstaða, sem fellur utan þéttbýlissvæða, sem skipulögð eru fyrir fasta búsetu manna sem ekki stunda landbúnað. Ekki er talin ástæða til að jarðanefndir starfi í kaupstöðum, en taka þarf afstöðu til þess hver fari með vald og lögboðin verkefni jarðanefnda innan marka kaupstaða. Því er í 9. gr. lagt til að bæjarstjórn sinni þessu verkefni og þurfi því samþykki hennar þar sem jarðalögin áskilja samþykki jarðanefndar og sveitarstjórnar eða jarðanefndar einnar.

Skv. 10. gr. frv. er lagt til að nýr kafli komi inn í jarðalögin um viðurkenningu á nýjum býlum, félagsbúum og jarðaskrám, og koma ákvæði hans í stað sambærilegra ákvæða í lögum nr. 45/1971.

Vert er að vekja athygli á því að í frv. er lagt til að í stað hugtaksins „nýbýli“ verði notað orðalagið nýtt býli. Hugtakið „nýbýli“ hefur í daglegu máli mjög víðtæka merkingu og gjarnan látið ná yfir býli sem stofnuð hafa verið svo langt aftur sem minni manna nær. Ekki er hins vegar í lögum gerður greinarmunur á býlum eftir að þau hafa verið viðurkennd.

Í frv. er haldið þeirri heimild að viðurkenna smá- og þjónustubýli. Leggja verður áherslu á að þessi heimild verði fyrst og fremst nýtt þegar um er að ræða sérhæfða starfsemi í tengslum við landbúnað. Á slíku býli þarf að vera nægileg aðstaða til að reka viðkomandi atvinnustarfsemi. Í framkvæmd hefur mjög borið á því að sótt sé um viðurkenningu á smá- og þjónustubýlum, þar sem í raun hefur aðeins verið um að ræða íbúðarhús á lóð í sveit án þess að aðstaða væri fyrir atvinnustarfsemi á býlinu. Hefur þetta ekki síst verið gert vegna þess mikla munar sem verið hefur á upphæð heimtaugagjalda vegna rafmagns í sveitum eftir því hvort um hefur verið að ræða býli eða sjálfstæð íbúðarhús sem ekki eru tengd búrekstri, iðnaði eða þjónustu. Skv. reglum um álagningu heimtaugagjalda í sveitum er heimtaugargjald vegna býlis reiknað sem grunngjald að viðbættum hundraðshluta af fasteignamatsverði, en mismunur á kostnaði og heimtaugargjaldi greiðist af Orkusjóði. Heimtaugargjald vegna íbúðarhúss í sveit, sem ekki er tengt búrekstri, iðnaði eða þjónustu, er reiknað sem kostnaðarverð við uppsetningu á háspennulínu, spennistöð, heimlínu og heimtaug. Er sjálfstæðum íbúðarhúsum í þessu sambandi skipað á bekk með sumarbústöðum og veiðihúsum. Telja verður óeðlilegt að mismuna fólki, sem vill setjast að og byggja yfir sig í sveit, með þessum hætti. Þessum reglum þarf því að breyta í stað þess að stofnað sé til nýrra býla við ófullnægjandi aðstæður með þeim réttindum og skyldum sem slíkri býlastofnun fylgja.

Ákvæði frv. um félagsbú eru í ýmsu nýsmíði, en í öðru er fylgt gildandi lagareglum. Reynslan hefur sýnt að þörf var skýrari lagareglna um þetta búskaparform. Þó er í frv. áfram fylgt þeirri stefnu að setja ekki í lög ákvæði um innri málefni félagsins eða ákvarða félagsþátttakendum tiltekið félagsform, heldur er það verkefni aðila félagsbúsins að semja um slík atriði í félagssamningi sem skal að lágmarki innihalda ákvæði um tiltekin málefni.

Í mörgum tilvikum er stofnað til félagsbúskapar í um form félagsbúa og heimildir skv. reglum um framleiðslustjórn ekki standa í vegi fyrir eðlilegri endurnýjun bændastéttarinnar. M. a. til að auðvelda þessi ættliðaskipti og ábúendum á leigujörðum að stofna til félagsbúskapar er í þessu frv. lagt til að aðilar félagsbúsins og landeigandi geti samið um tiltekin frávik frá reglum ábúðarlaga nr. 63/1976 um mannvirkjagerð og kaupskyldu landeigenda.

Vitað er að fétagsbú þau sem nú þegar hafa verið stofnuð starfa á grundvelli mjög mismunandi samninga og í mörgum tilvikum hafa aldrei verið gerðir formlegir félagsbússamningar. Brýn nauðsyn er vegna þeirra réttinda sem samþykkt á félagsbúi veitir og þá ekki síður vegna framleiðslustjórnar í landbúnaði að fyrir hendi sé skrá yfir samþykkt fétagsbú og samningar um þau kveði á um tiltekin lágmarksatriði. Hér er því lagt til að félagsbú, sem stofnuð hafa verið fyrir gildistöku laganna, verði að senda landbrn. fyrir 1. jan. 1985 félagsbússamning er fjalli að lágmarki um þau atriði sem tekin eru fram í þessu frv.

Skv. frv. er lagt til að landbrn. taki við því verkefni Landnáms ríkisins að láta árlega gera jarðaskrá fyrir allt landið, en jarðaskrá er ætlað að veita upplýsingar um hvaða býli falli undir skilgreiningu 1. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976 á hugtakinu jörð eða lögbýli. Rn. er þó heimilað með reglugerð að fela öðrum aðila að annast gerð jarðaskrár í umboði rn. Er þetta ekki síst gert þar sem vitað er að sambærilegra upplýsinga og birtar eru í jarðaskrá er nú aflað af nokkrum aðilum, og má þar nefna Fasteignamat ríkisins, Búnaðarfélag Íslands og Framleiðsluráð landbúnaðarins. Í samræmi við þáltill. sem samþykkt var á síðasta Alþingi skipaði landbrn. nefnd sem vinnur að samræmingu á upplýsingaöflun og tölvuvinnslu upplýsinga í landbúnaði. Þar sem tillögur nefndarinnar liggja ekki fyrir er ekki ástæða til að leiða í lög ákvæði sem binda hendur rn. í þessu máli.

Í 12. gr. frv. er ákvæði laga um heimild til að veita ábúendum ríkisjarða leyfi til að taka lán með veði í ábúðarjörð sinni til varanlegra húsabóta og annarra umbóta á jörð. Það er til samræmis við þær breytingar sem orðið hafa á reglum um ábúðarform ríkisjarða. Með frv. er lagt til að ýmis gömul lagaákvæði sem ekki hafa lengur þýðingu en standa þó enn í lögum verði felld niður. Er þetta áfangi í þeirri lagahreinsun sem oft hefur verið minnt á bæði hér á Alþingi og víðar.

Skv. frv. er gert ráð fyrir að það taki gildi 1. júní 1984. Áður en þessar breytingar koma til framkvæmda er nauðsynlegt að tími gefist til nokkurs undirbúnings varðandi tilflutning verkefna milli stofnana og breytingar varðandi starfsmenn. Því er æskilegt að meðferð málsins hér á Alþingi gangi eins greitt og kostur er þó að vitanlega muni nefndir þær sem fá það til meðferðar skoða það ítarlega og þær ábendingar sem kunna að verða gerðar um þau atriði sem lagt er til að breytt verði skv. frv.

Ég fjölyrði ekki frekar um innihald þessa frv., en legg til að að lokinni þessari umr. verði því vísað til 2. umr. og landbn.