05.03.1984
Neðri deild: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3348 í B-deild Alþingistíðinda. (2877)

Umræður utan dagskrár

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í skriflegu svari fjmrh. við fsp. minni um fylgirit með ríkisreikningi á þskj. 215 sem útbýtt var á hv. Alþingi í síðustu viku koma fram upplýsingar sem ég tel brýna nauðsyn bera til að fá fram hjá hæstv. fjmrh. skýringu á og afstöðu hans til þeirra efnisatriða sem þar koma fram. Vil ég þakka hæstv. forseta þessarar deildar fyrir að leyfa mér að bera fram þessar spurningar til hæstv. fjmrh. hér utan dagskrár og hæstv. fjmrh. fyrir að fallast á að svara mínum spurningum. Ég hafði óskað eftir að fá svör við þeim strax þegar þetta fylgirit var lagt fram en af því gat ekki orðið af ýmsum ástæðum fyrr en nú.

Í fyrsta lagi kemur fram í þessu skriflega svari að fjöldi þeirra sem nutu fastrar yfirvinnu eða svokallaðrar ómældrar yfirvinnu hjá ríkinu á árinu 1982 voru 1312 manns, þar af 1113 karlar og 199 konur. Sú upphæð sem greidd var í fasta yfirvinnu á því ári var 32 466 þús. kr. Af þeirri upphæð fengu karlar 92% eða 29 814 þús. kr. en konur aðeins um 8% eða 2652 þús. kr.

Í öðru lagi kemur hér fram varðandi greiðslur fyrir starfsmannabíla, að 3611 manns fengu greiðslur fyrir starfsmannabíla, þar af 3116 karlar og 495 konur. Sú upphæð sem ríkið greiddi fyrir þessa starfsmannabíla á árinu 1982 var 50 805 þús. kr. Þar af fengu karlar 48 018 þús. kr. eða 94.5% af upphæðinni en konur aðeins 2787 þús. eða 5.5% af upphæðinni.

Greiðslur fyrir fasta yfirvinnu í grunnskólum á árinu þús. kr. eða tæp 92% af upphæðinni en 27 konur fengu 245 þús. kr. eða um 8% af upphæðinni.

Nokkuð áberandi virðist einnig að miklu hærri upphæðir renna til þeirra karla sem fá fasta yfirvinnu og greiðslur fyrir starfsmannabíla en til kvenna sem njóta þessara greiðslna. Ef tekið er meðaltal af greiðslum fyrir starfsmannabíla er meðaltal hjá körlum 15 410 kr. á meðan meðaltal hjá konum er 5630 kr. Meðaltal til karla fyrir fasta yfirvinnu eða ómælda yfirvinnu er 26 787 kr. meðan meðaltalið til kvenna er 13 326 kr. Svo gífurlegur munur sem hér um ræðir, bæði að því er varðar hve miklu fleiri karlmenn njóta þessara greiðslna svo og að upphæðir sem til þeirra renna eru miklu meiri að meðaltali en til kvenna, hlýtur að vekja spurningar sem nauðsynlegt er að fá svör við.

Nú skyldi maður ætla að hluta skýringanna á þessum mikla mun mætti rekja til þess að svo fáar konur störfuðu hjá ríkinu, en því er ekki að heilsa. Að vísu hefur mér ekki tekist að fá upp hjá launadeild fjmrn. hve margar konur og hve margir karlmenn störfuðu hjá ríkinu á árinu 1982. En skv. upplýsingum sem ég hef frá BSRB voru opinberir starfsmenn sem störfuðu hjá ríkinu í árslok 1982 11 767, þar af 7144 konur og 4623 karlar. Ríkisstarfsmenn innan BHM eru 2663, þar af 672 konur. Samanlagt voru því ríkisstarfsmenn hjá þessum tveim heildarsamtökum launafólks 7816 konur og 6614 karlar á árinu 1982.

Af framansögðu má sjá að ekki er skýringa að leita í því að svo fáar konur vinni hjá ríkinu heldur virðast þær þvert á móti vera miklu fleiri. Nú skal ég ekki draga í efa að í mörgum tilfellum gæti verið um eðlilegar greiðslur að ræða fyrir fasta yfirvinnu og afnot af starfsmannabílum. En sá mikli munur, sem á þessum greiðslum er milli kynjanna, kallar á skýringu. Þó hluti skýringanna felist í því að karlmenn hjá ríkinu séu frekar í ábyrgðarstöðum en konur og vinna þeirra útheimti frekar afnot af starfsmannabílum eða að sú skýring sé fram borin á greiðslum fyrir ómælda yfirvinnu að hún renni til yfirmanna hjá ríkinu sem frekar eru karlar þá gefur auga leið að sú skýring er langt frá því að vera fullnægjandi.

Því hefur oft verið haldið fram að í stöðuheitum, bílastyrkjum og ómældri yfirvinnu hjá ríkinu sé falið launamisrétti kynjanna og að til að mynda bílastyrkir og ómæld yfirvinna renni miklu frekar til karla en kvenna hjá ríkinu. Þetta yfirlit sem lagt hefur verið fram á hv. Alþingi staðfestir ótvírætt að karlmenn njóta þessara greiðslna í miklu ríkari mæli en konur. Spurningin er: Hvers vegna? Er hugsanlegt að í þessum mikla mismun felist launamisrétti kynjanna, brot á jafnréttislöggjöfinni, sem Alþingi hefur sett, eða er skýringa að leita annars staðar?

Þó að það sé ekki algilt er þó talið að mjög oft felist í þessum greiðslum og kjaraþáttum sem ég hef hér nefnt eiginleg launauppbót. Í raun sé þetta sú leið sem farin sé hjá hinu opinbera til að halda starfsfólki og að mæta því launaskriði sem er á atmenna vinnumarkaðnum sem felst í yfirborgunum.

Sú skýring kom m. a. fram í útvarpi fyrir helgi hjá Indriða Þorlákssyni deildarstjóra í launadeild fjmrn. að hluta skýringa á fastri yfirvinnu mætti rekja til þess að gerðir væru svokallaðir starfsmannasamningar um yfirvinnu sem unnin væri alltaf að fullu og nefndi ríkisreikningi fyrir árið 1982 kemur fram að föst yfirvinna hjá Áburðarverksmiðjunni hafi verið 1101 þús. kr. en önnur yfirvinna 9808 þús. kr. Skýring sem gefin er í fylgiritinu er sú að til fastrar yfirvinnu teljist greiðslur fyrir umsamda yfirvinnu sem eigi sé sérstaklega tímamæld. Skv. þessari skilgreiningu er undir hælinn lagt hvenær eða hvort yfirvinnan er unnin þar sem hún er ekki tímamæld. Því er það einkennilegt ef starfsmannasamningar um yfirvinnu, sem unnin er, eru flokkaðir undir skilgreiningu um ómælda fasta yfirvinnu en ekki önnur yfirvinna, sem felur í sér eftirvinnu, nætur- og helgidagavinnu, og sú önnur yfirvinna sem ekki er föst.

Í gildi eru lög sem samþykkt voru fyrir 30 árum síðan um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í 6. gr. þeirra laga segir m. a., með leyfi forseta:

„Konur og karlar hafa jafnan rétt til opinberra starfa og til sömu launa fyrir sömu störf.“

Nú er fyrsta spurning mín til hæstv. fjmrh. þessi: Telur ráðh. að þessi gífurlegi mismunur, sem kemur fram í þessum kjaraþáttum, þ. e. ómældri yfirvinnu og bílastyrkjum, sé eðlilegur eða telur ráðh. að þessar upplýsingar kalli á sérstaka athugun af hálfu fjmrn. með hliðsjón af því að líkur séu á að 30 ára gömul lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins séu brotin og lög um jafnrétti kvenna og karla frá 1976, sem fela í sér að óheimilt sé atvinnurekanda að mismuna starfsfólki eftir kynferði að því er varðar veitingu hvers konar hlunninda eða greiðslu launa fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir að hann sem fjmrh. geti ekki horft upp á að tveir menn vinni hlið við hlið sömu störf á mismunandi kjörum. Það misrétti beri að leiðrétta. Þeir eigi að bera úr býtum sömu laun fyrir sömu vinnu. Ég fagna þessu viðhorfi ráðh., að slíkt misrétti beri að leiðrétta. Ég vænti þess einnig að hæstv. fjmrh. sé einnig þeirrar skoðunar að ef í ljós kemur að konum og körtum sem vinna hlið við hlið sömu störf hjá ríkinu sé mismunað, karlmenn njóti betri kjara, t. d. í formi launauppbótar, beri skilyrðislaust að leiðrétta slíkt misræmi og samræma kjörin hjá körlum og konum hjá ríkinu sem vinna sömu störf.

Því er önnur spurning mín til hæstv. fjmrh. hvort hann telji ekki, með hliðsjón af þeirri skýrslu, sem lögð hefur verið fram hér á hv. Alþingi, að nauðsynlegt sé að fara ofan í saumana á þessu máli og þá hvort hæstv. fjmrh. sé tilbúinn að beita sér fyrir því að samræmd verði kjör hjá konum og körlum sem vinna hlið við hlið sömu störfin hjá ríkinu ef í ljós kemur að karlar beri meira úr býtum með launauppbótum sem felast í bílastyrkjum og ómældri yfirvinnu.

Ég tel, herra forseti, brýnt að fá svör við þessum spurningum. Konur í stéttarfélögum, stjórnmálaflokkum og kvennasamtökum hafa tekið höndum saman um að leita leiða til úrbóta til að uppræta launamisrétti kynjanna. Komið hefur fram hjá konum sem vinna hjá ríkinu að þær telji að launamisrétti kynjanna hjá hinu opinbera felist ekki síst í þeim liðum sem hér eru til umr. en erfitt hefur verið að fá það staðfest. Ég tel ótvírætt að þær upplýsingar sem nú hafa komið fram á hv. Alþingi, kalli á skjóta athugun af hálfu fjmrh. Það hlýtur að vera krafa Alþingis, sem sett hefur þau lög sem ég hér hef vitnað til, að ef í ljós kemur að hér sé um launauppbót að ræða sem feli í sér launamisrétti kynjanna sé það skylda framkvæmdavaldsins að sjá svo til að hið opinbera virði sett lög í landinu og að samræmd verði kjör kvenna og karla á þann veg að bæði kynin njóti sambærilegra kjara fyrir sömu störf, hvort sem um er að ræða kjör í formi beinna launagreiðslna eða launauppbótar í formi hlunninda.

Þriðja spurning mín til hæstv. fjmrh. snertir lög nr. 31 frá 30. apríl 1982, sem kveða á um fylgirit með ríkisreikningi þar sem fram komi m. a. upplýsingar um bifreiða-, risnu- og ferðakostnað stofnana á vegum ríkisins og rn. svo og launagreiðslur þessara stofnana. Þegar fylgirit með ríkisreikningi var birt á hv. Alþingi fyrir áramót kom fram í skýringum í fylgiritinu að nokkrir aðilar hefðu ekki skilað ársreikningum til birtingar í ríkisreikningi og fjórir aðilar sem neituðu að láta í té upplýsingar í fylgiritið, en það voru Landsvirkjun, Orkubú Vestfjarða, Brunabótafélag Íslands og Síldarútvegsnefnd. Því var það að ég lagði fram í þessari skriflegu fsp. einnig þá spurningu til hæstv. fjmrh. hvort þessar stofnanir væru undanþegnar þeirri upplýsingaskyldu sem kveðið er á um í lögum nr. 31/1982 um breytingu á lögum um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga.

Ég tel, herra forseti, að það svar sem kemur fram hjá fjmrh. við fsp. minni, sem einnig er á þskj. 215, sé alls ófullnægjandi. Í svarinu kemur einungis fram að fjórir aðilar þ. e. Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins, Fiskifélag Íslands og Búnaðarfélag Ístands ásamt veiðistjóra, telji að þeir falli ekki undir ákvæði laga um stofnanir og fyrirtæki ríkisins og í samræmi við þá afstöðu skiluðu þeir ekki upplýsingum í fylgiritið. Hliðstæða afstöðu hafði einnig Síldarútvegsnefnd og Brunabótafélag Íslands. Landsvirkjun og Orkubú Vestfjarða hafa skilað ársreikningi en ekki þessum sérstöku upplýsingum í fylgiritið sem kveðið er á um í lögum nr. 31/1982. Í þeirri fsp., sem ég lagði fyrir ráðh. fyrir áramótin og nú hefur verið svarað, bið ég um afstöðu hæstv. fjmrh. til þess hvort þessar stofnanir séu undanþegnar þeirri upplýsingaskyldu sem kveðið er á um í þessum lögum, en ekki skoðun stofnananna sjálfra eða forsvarsmanna þeirra á því hvort þeir telji sig þurfa að lúta lögum sem Alþingi setur.

Í svarinu kemur einnig fram afstaða stofnananna eða forsvarsmanna þeirra en ekki afstaða hæstv. fjmrh., sem um var beðið í þessari fsp. Ég tel því nauðsynlegt að beina þessari fsp. hér og nú til hæstv. fjmrh. en hún er hvort og þá á hvaða forsendum þessir aðilar væru undanþegnir þeirri upplýsingaskyldu sem lög nr. 31/1982 kveða á um.

Til glöggvunar, herra forseti, vil ég draga þessar fjórar spurningar mínar saman:

1. Telur fjmrh. að sá gífurlegi mismunur, sem fram kemur í ómældri yfirvinnu op bílastyrkjum milli kynja, sé eðlilegur þegar 92–95% af þeirri fjárhæð, sem greidd er í þessa liði, renna til karla en aðeins 5–8% til kvenna?

2. Telur hæstv. fjmrh. að þessar upplýsingar kalli á sérstaka athugun af hálfu fjmrn. með hliðsjón af því að líkur séu á að 30 ára gömul lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins séu brotin, svo og lög um jafnrétti kvenna og karla frá 1976 sem fela í sér að óheimilt sé atvinnurekanda að mismuna starfsfólki eftir kynferði að því er varðar veitingu hvers konar hlunninda?

3. Er ráðh. tilbúinn að beita sér fyrir að samræmd verði kjör hjá konum og körlum, sem vinna hlið við hlið, ef í ljós kemur að karlar beri meira úr býtum fyrir sömu eða sambærileg störf með launauppbótum sem felast í bílastyrkjum og ómældri yfirvinnu?

4. Eru þeir aðilar, sem ekki hafa gefið upplýsingar sem lög nr. 31/1982 kveða á um, undanþegnir upplýsingaskyldu, og ef svo er, á hvaða forsendum?

Ég vænti þess, herra forseti, að hæstv. fjmrh. gefi skýr og greinargóð svör við þeim spurningum sem hér hafa verið fram bornar.