31.10.1983
Efri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

42. mál, orkulög

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Um þetta mál mætti vissulega hafa mörg orð. Ég skal ekki fara út í það hér nánar. Mér þótti hins vegar býsna forvitnilegt að heyra spurningu hv. þm. Davíðs Aðalsteinssonar um eindrægni innan ríkisstj. varðandi þetta mál, því að ég heyrði ekki betur en hæstv. iðnrh. legði það til, að sjálfsögðu fyrir hönd ríkisstj., að þetta frv. yrði fellt. Ég heyrði engar persónulegar óskir hans í því efni, heldur talaði hann auðvitað í umboði allrar ríkisstj. sem slíkur þegar hann lagði til að þetta frv. yrði fellt.

Ég ætla ekki að fara náið út í þetta mál en mér skilst að þessa yfirlýsingu hæstv. ráðh. megi túlka á þann veg, að áfram eigi Landsvirkjun ein að vera undanþegin öllu eftirliti varðandi sína gjaldskrá og fái að hafa sjálfdæmi þar um. Það hlýtur að vera.

Maður hefði nú kannske haldið, miðað við það frv. sem hér liggur líka fyrir deildinni til staðfestingar á brbl. um verðlagsmál, að hæstv. ríkisstj. þætti ágætt að hafa þessi ákvæði um Landsvirkjun inni, sér til styrktar í því að halda niðri verðlagi, því að þar er sagt að verðlagsyfirvöld og aðrir opinberir aðilar, sem fara með verðlagsákvarðanir, skuli aðeins leyfa óhjákvæmilega hækkun verðs eða endurgjalds fyrir vöru eða þjónustu, og það væri þá ekki amalegt fyrir hæstv. ríkisstj. að hafa þetta ákvæði sér til enn frekari tryggingar. Því spyr ég: Hyggst ríkisstj. þá í krafti þessara brbl., sem væntanlega verða staðfest hér um verðlagsmál, hindra það að Landsvirkjun fái hækkanir umfram það sem segir í þeim lögum?