05.03.1984
Neðri deild: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3356 í B-deild Alþingistíðinda. (2880)

Umræður utan dagskrár

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að hefja þessa umr. og fyrir alla hennar baráttu í mörg ár fyrir jöfnum rétti kvenna og karla. Skilningur minn og aðdáun á þeirri baráttu hefur vaxið mjög síðan ég fór sjálf að taka þátt í henni og sjá og reyna við hvað er að fást. Mig undrar skilningsleysi og viljaleysi og máttvana aðgerðir þeirra sem mestu ráða í þessu þjóðfélagi.

Fimmtudaginn 23. febrúar s. l. fóru fram í Sþ. umræður utan dagskrár um nýgerða samninga Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins og þann þátt sem ríkisstj. átti í þeim. Við það tækifæri lét ég í ljós álit okkar á Kvennalista og lét m. a. í ljós vonbrigði okkar vegna þess að í samkomulaginu er ekki að sjá neina viðleitni til að taka sérstaklega á kjörum kvenna. Þeirri staðhæfingu minni mótmælti reyndar Karl Steinar Guðnason og kallaði bull. Hann sagði m. a. svo, með leyfi forseta, og ég vona að það sé ekki ókurteisi að vitna í orð hans þó að Karl Steinar sé ekki viðstaddur hérna. Hann sagði:

„Það fór fram kjarakönnun fyrir nokkru. Þessi kjarakönnun sýndi að það var einkum kvenfólk sem var á lægstu töxtunum. Menn skyldu fara yfir samningana og lesa þá. Þá sjá þeir að þetta fólk fær sérstakar bætur. Ef eitthvað hefur verið gert hefur það verið gert á þann veg að það verða fleiri konur en karlar sem njóta þess. Því hefur meira að segja verið haldið hér fram að kauptaxtar væru misjafnir, eftir því hvort það eru konur eða karlar sem vinna á þeim. Það er ekki rétt. Menn verða að finna þeim fullyrðingum sínum stað.“

Ég sagði reyndar ekki að kauptaxtar væru misjafnir. Ég nefndi hins vegar niðurstöðutölur úr ýmsum könnunum sem sanna ótrúlega mikinn mun á tímakaupi kvenna og karla við sambærileg störf. Þetta eru staðreyndir úr margvíslegum könnunum hvað sem öllum launatöxtum líður.

Mig langar til að vitna áfram í orð mín í þessari umr. með leyfi forseta. Ég sagði: „Hvað kemur á daginn þegar samningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja liggja fyrir? Getum við vænst þess að þar ríki meiri skilningur og vilji til úrbóta? Íslenska ríkið er stærsti vinnuveitandi landsins og ber sinn hluta af sökinni á því hvernig ástandið er. Því ber að sýna gott fordæmi. Ríkisstj. gæti sannarlega lagt sitt af mörkum og séð til þess að jafnréttislögunum væri framfylgt í hvívetna. Hún gæti líka séð til þess að hin hefðbundnu kvennastörf yrðu endurmetin. Hugsanleg leið og að mínu mati ákjósanleg er einfaldlega að hækka alla starfshópa þar sem konur eru fjölmennastar um tvo launaflokka. Ríkisstj. ætti auðvitað að koma til móts við kröfur kvenna um betri aðstæður, t. d. að því er varðar umönnun barna og endurmenntun.

Ég vil nota þetta tækifæri til að spyrja forsrh. og fjmrh. um afstöðu þeirra til þessara mála. Hver er afstaða ríkisstj. til þess augljósa misréttis sem konur búa nú við á vinnumarkaðinum? Hefur ríkisstj. fjallað um málin með tilliti til þeirrar miklu umr. sem á sér stað úti í þjóðfélaginu?“

Svör hæstv. ráðh. við þessum spurningum mínum, sem ég ítrekaði reyndar í lok ræðu minnar, ollu mér miklum vonbrigðum. Fjmrh. virti mig ekki einu sinni svars, svaraði bara alls engu. Sá var nú áhugi hans þá á þessu augljósa misrétti. Það virðist ekki alveg sama hver í hlut á. En batnandi manni er best að lifa. S. l. fimmtudag stóð hann hér í ræðustól og sagði með miklum þunga: Misrétti getur enginn alþm. stutt. Slíkar yfirlýsingar svo hátt setts manns úr þessum stóll hljóta að vekja vonir og fyrirheit um betri tíð. Vonandi þurfa konur ekki að gjalda þess að hann hefur ekki staðið í þeirra sporum eins og Dagsbrúnarmannanna.

Forsrh. var svo vinsamlegur að svara mér við þetta tækifæri. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi spurði hv. þm. Kristín Halldórsdóttir hvort ríkisstj. hefði fjallað um jafnræði með konum og körlum. Já, ríkisstj. hefur gert það og m. a. samþykkt að hæstv. félmrh. flytji frv. um jafna stöðu karla og kvenna. Það mun mjög fljótlega verða lagt fram á Alþingi. Ef ég man rétt, þá hygg ég að það sé í 4. gr. þess frv. sem enn er undirstrikað að konur skuli fá sömu greiðstu fyrir sambærilega vinnu.“

Áður hafði komið fram hér á Alþingi að von væri á þessu frv. og væri óskandi að það færi að líta dagsins ljós. En ég vil benda á að langt er síðan sett voru lög um launajöfnuð kvenna og karta, eða 23 ár og má augljóst vera að eitthvað annað og meira verður að koma til.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þeir starfshópar þar sem konur eru fjölmennastar, eru undantekningarlaust láglaunahópar. Margir vilja segja að konur geti sjálfum sér um kennt og í því er nokkurt sannleikskorn. Konur eru óduglegar að berjast fyrir réttindum sínum og eiga ákaflega erfitt með að krefjast launahækkana fyrir sig. Ástæður þessa eru ýmsar, en fyrst og fremst aðstöðuleysi kvenna til kjarabaráttu. Annir þeirra við heimilishald og ábyrgð á heimili og fjölskyldu valda því að þær eiga ekki tíma né orku afgangs til að berjast fyrir bættum kjörum á vinnustað. Önnur ástæða og ekki veigaminni er hin eðlislæga og/eða innrætta fórnarlund sem hindrar þær í að leita sjálfar réttar síns. Hver þekkir ekki goðsögnina um konuna, sem vann í hljóði sín störf í annarra þágu og krafðist einskis sér til handa, setti annarra hag ofar sínum eigin? Hver kannast ekki við slík ummæli í minningargreinum og bókmenntum?

Nei, það er hverju orði sannara að konur eiga erfitt með að berjast fyrir kjörum sínum. Það sést m. a. af því, að þeir starfshópar þar sem konur eru fjölmennastar eru undantekningarlaust láglaunastéttir. Svo rammt kveður að því að karlar eru farnir að óttast innrás kvenna í starfsstéttir þar sem þeir hafa verið allsráðandi, vegna þess að þar með hljóti kjör stéttar þeirra að versna. Er nú ekki eitthvað meira en lítið að þegar svo er komið? Og hvað er til ráða? Jú, auðvitað verða konur að standa saman um að leita leiða til úrbóta. Og það hafa þær gert. Konur hafa unnið mikið saman á undanförnum árum þvert á alla flokkapólitík, rætt málin og kynnt fyrir öðrum, kannað ástand og unnið úr þeim könnunum niðurstöður sem sýna ástandið svart á hvítu. Ástandið er óþolandi og því verður að breyta. Fyrsta skrefið er náttúrulega viðurkenning staðreynda, sem ötullega hefur verið unnið að undanfarna mánuði að draga fram í dagsljósið, nú síðast með skýrslunni sem er til umr. hér í dag. Ég vil benda sérstaklega á niðurstöðutölur í þeirri skýrslu hvað varðar grunnskólana, þar sem konur eru sannarlega í talsverðum meiri hluta.

Ýmsar útskýringar hafa heyrst á þeim mun sem þarna er sýnilegur í tölum. Einkum vilja menn skýra hann með því að konur séu einfaldlega ekki í þeim stöðum sem þessi hlunnindi tengjast. Auðvitað ekki. Auðvitað eru konur fáar í þeim stöðum. Og það stafar af nákvæmlega sömu ástæðum og ég nefndi áðan, aðstöðuleysi. Við verðum að fara að gera eitthvað í þessum mátum. Konur hafa flykkst út á atvinnumarkaðinn s.l. áratugi, nauðugar, viljugar. Þjóðfélagið hefur kallað á þær, aðstæður hafa ýtt þeim út á vinnumarkaðinn. En stjórnvöld hafa ekki staðið sig sem skyldi að bæta aðstæður þeirra. Og því miður virðist enn langt í land. Í því sambandi hlýt ég að minna á þá útreið sem dagvistunarmál barna fengu við afgreiðslu fjárlaga þessa árs. En ég hlýt að fagna þessari umr. hér í dag og vona að hún leiði til umbóta eða a. m. k. umhugsunar.