05.03.1984
Neðri deild: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3359 í B-deild Alþingistíðinda. (2882)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég tel þessa umr. mjög þarfa og hún skiptist kannske í þrjú höfuðatriði. Það fyrsta varðar upplýsingaskyldu. Hér hefur því verið haldið fram að fyrirtæki sem ríkið á aðild að, eins og t. d. Orkubú Vestfjarða, geti með réttu neitað að koma upplýsingum til Alþingis sem um er beðið. Ég vil vekja á því athygli að fjmrh. skipar einn af stjórnarmönnum þess fyrirtækis. Hann er starfsmaður rn. í stjórn fyrirtækisins. Ég fæ ekki séð með hvaða rétti slíkir aðilar neita að veita Alþingi upplýsingar. Mér er óskiljanlegt á hvaða stall þau fyrirtæki eru að setja sig sem slíka afstöðu taka. Það sama gildir að sjálfsögðu um Landsvirkjun. Er það ekki að hengja sig í formsatriðum ef menn ætla að fara að halda því fram að af því að það er fjmrh. sem er spurður þurfi þau ekki að svara, en ef það væri iðnrh. sem væri spurður bæri þeim skylda til að svara? Mér er óskiljanlegt hvernig það fær staðist að undirfyrirtæki, sem ekki væru til án afskipta Alþingis, taka sér með vissum hroka það vald að neita að koma á framfæri upplýsingum sem hljóta að liggja fyrir í bókhaldi þeirra. Ég tel að með lagasetningu eigi að taka á þessu í eitt skipti fyrir öll þannig að það fari ekki milli mála að ef þm. óskar eftir upplýsingum, eins og hér hefur verið óskað eftir, beri þessum fyrirtækjum að svara undanbragðalaust.

Annað atriði, sem hér hefur verið rætt og er ekki ókunnugt heldur, fjallar um svokallað launaskrið. Það er vitað að á hinum frjálsa vinnumarkaði hefur viðgengist allmikið launaskrið í gegnum árin, þ. e. fyrst er samið um ákveðna kjarasamninga og svo fara menn og ræða við sinn atvinnurekanda og ná sérsamningum fyrir sig sem einstakling. Á hinum almenna vinnumarkaði hygg ég að launaskriðið, í það minnsta í hinum smærri fyrirtækjum, nái til velflestra starfa. Ég hygg að það geti bæði náð til starfa hjá hinum almenna verslunarmanni í búð, hjá sjómanni og hjá verkamanni. Þó er þetta e. t. v. mismikið, en ég hygg að það nái samt til flestra starfa. En það sem vekur athygli manns þegar kemur að launaskriði hjá ríkinu er það, að ef við viljum ganga út frá því sem staðreynd að ómæld yfirvinna sé raunverulega greiðsla fyrir vinnu sem ekki er unnin, heldur fyrst og fremst launauppbót — nú er kannske ekki svo í öllum tilfellum að verið sé að greiða fyrir vinnu sem ekki er unnin, en í mjög mörgum tilfellum hygg ég að það sé, — þá vekur það fyrst athygli að þessar greiðslur renna í fyrsta lagi trúlega aðallega til þeirra sem eru í efstu launastigunum hjá ríkinu og í annan stað er þeim þannig fyrir komið undir flestum kringumstæðum að þær verða skattfrjálsar. Ég hygg að með þessu sé farið út á ákaflega hættulega braut. Í annan stað er verið að semja sig framhjá sköttum í þjóðfélaginu. Í hinn stað lætur ríkið beygja sig á þann veg að gera óraunhæfa kjarasamninga við sitt fólk, sé borið saman við þau laun sem aðrir hafa náð oft á hinum frjálsa vinnumarkaði, þegar farið er út í að semja við einstaklinga eða vissa hópa undir borðið. Það hlýtur að vera mikið veikleikamerki hjá ríkisvaldinu ef það þarf að standa þannig að málum.

Þriðja atriðið, sem hér hefur verið drepið á og tvímælalaust hlýtur að bera að ræða út frá þeim fullyrðingum sem hér eru settar fram og ég hygg að séu réttar, er að sumar stéttir eru hreinlega farnar að gjalda þess að þær eru kvennastéttir. Hvort svo sé komið að stéttarfélög reyni hreinlega að koma í veg fyrir að konur starfi í þeim stéttum veit ég ekki, en ég hygg t. d. að staðreynd sé að grunnskólakennarar í þessu landi séu verr launaðir en þeir væru ef það væri ekki jafnmikið af konum í störfum í stéttinni. Sé það aftur á móti staðreynd að stéttir séu hreinlega farnar að reyna að koma í veg fyrir að konur komist inn í þær er það miklu alvarlegra mál. Ég hef ekki neitt í höndunum sem staðfestir að svo sé og get ekki nefnt dæmi um það, en ég óttast aftur á móti að þegar störf stétta eru metin hafi það umtalsverð áhrif á launaflokka hversu stór hópur innan stéttarinnar er konur.

Ég vil vekja athygli á að við flytjum inn í landið allmikið af vinnuafli. Það eru hér um bil eingöngu konur. Ef í þau störf sem þyrfti að fjölga mönnum í vantaði karlmenn er mikil spurning hvort þeir mundu liða það að flutt væri inn vinnuafl, því að með þeirri aðgerð að flytja vinnuaflið inn er vissulega verið að raska því hlutfalli sem framboð og eftirspurn veldur í samningum um laun. Það er ekkert vafaatriði að laun í fiskvinnslu á Íslandi væru hærri ef ekki væri leyft að flytja inn erlent vinnuafl.

Ég ætla ekki að þreyta þingheim með löngu tali um þetta mál, en ég fagna því að þessi umr. hefur orðið og ég vænti þess að fjmrh. haldi áfram að athuga það myrkviði sem íslenskir kjarasamningar eru með það fyrir augum að þar gæti meira jafnréttis.