06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3374 í B-deild Alþingistíðinda. (2891)

174. mál, lífefnaiðnaður

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Í apríl 1980 kom út skýrsla í Bretlandi frá nefnd sem var skipuð fulltrúum úr Konunglega vísindafélaginu breska, ráðgjafarstofnuninni fyrir rannsóknir og þróun í þágu atvinnuveganna og ráðgjafarnefnd rannsóknaráðanna bresku. Í þeirri skýrslu segir orðrétt, með leyfi forseta, í íslenskri þýðingu minni:

„Við lítum svo á að líftækni muni skapa algjörlega nýtt atvinnulíf með lítilli orkuþörf og muni skipta sköpum fyrir efnahagslíf heimsins á næstu öld.“

Breska tímaritið Economist sagði, að mig minnir, 1979 eða 1980 að lífefnaiðnaður mundi setja svip sinn á atvinnulíf næstu aldar í jafnríku mæli og stóriðja efna-og málmiðnaðarins hefur sett svip sinn á þessa öld. Erlendis er lífefnaiðnaður þegar orðinn stórvirk atvinnugrein. Að mati sænska verkfræðingafélagsins, sem athugaði þessi mál 1980, var talið að lífefnatæknimarkaðurinn í heiminum velti þá um 737 milljörðum ísi. kr. Það eru þrítug til fertugföld fjárlög íslenska ríkisins eftir því hvort við teljum þau með eða án gats.

Allir vita hvað örtölvubyltingin og örtölvutæknin hefur haft mikið efnahagslegt gildi fyrir hinn vestræna heim. Nú er jafnvel talið að líftækni muni hafa meiri áhrif á 21. öldinni en örtölvubylting og örtölvutækni hafa haft á þeirri 20.

Í skýrslu, sem dr. Jón Bragi Bjarnason hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands hefur dreift meðal þm., kemur fram að í okt. 1973 skipaði þáv. iðnrh. nefnd til að fjalla um lyfja- og lífefnavinnslu. Nefndin skilaði áliti í maí 1974. Þar segir m. a. að nefndin telji að lífefnaiðnaður eigi almennt mjög bjarta framtíð og muni búa við ört vaxandi markaði á næstu áratugum. Nefndin benti á að mikið magn væri til af innlendu hráefni fyrir lífefnaiðnaðinn og vísaði þar einkum til úrgangsefna í sjávarútvegi og landbúnaði. Nefndin tók einnig fram að umfangsmiklar rannsóknir væru forsenda þess að unnt væri að kanna grundvöll fyrir framleiðslu lífefna.

Í skýrslu Rannsóknaráðs ríkisins, sem heitir Rannsóknir og þróunarstarfsemi í þágu atvinnuveganna, langtímaáætlun 1982–1987, segir um verkefnaval fyrir langtímaverkefni m. a. eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Því er nauðsynlegt að unnið verði markvissara en verið hefur að öflun færni á ýmsum sviðum sem þörf er fyrir í framtíðinni. Af þeim tæknisviðum sem líkleg eru til að verða mikilvæg má m. a. nefna raf- og rafeindatækni, tölvu- og upplýsingatækni, orkunýtingartækni, lífefnatækni, vatns- og sjávareldistækni og fóður- og matvælatækni.“ Þetta er 1982. Augljóst er af þessari skýrslu, sé hún lesin, að ofangreindum rannsóknarsviðum er flestum fundinn ákveðinn samastaður í rannsóknastofnunum atvinnuveganna að einhverju leyti. Þetta á hins vegar ekki við um lífefnatækni. Henni hefur ekki verið markaður neinn bás, hvorki hvað varðar mannafla né aðstöðu til rannsókna. Hins vegar eru ágætar forsendur til rannsókna á þessu sviði við ýmsar stofnanir Háskóla Íslands, svo sem Raunvísindastofnun, Líffræðistofnun, Verkfræðistofnun og Tilraunastöðina á Keldum. Einnig eru til sérfræðingar og tæki í þessum efnum á rannsóknastofnunum atvinnuveganna, svo sem Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.

Hinn 4. maí 1982 samþykkti Alþingi svohljóðandi þál. um innlendan lífefnaiðnað:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að kanna hvort hagkvæmt sé að koma á fót innlendum lífefnaiðnaði.“ Eins og ég kem að síðar er þessi þál. raunar tilefni til fsp. nú í dag frá mér til hæstv. iðnrh. Ég held raunar að menn þurfi ekki lengur að spyrja þeirrar spurningar hvort hagkvæmt sé að koma á fót þessum iðnaði. Spurningin er heldur, að ég tel, hvernig menn ætla að hefja undirbúning og hvernig þeir ætla að taka þátt í þessari atvinnumótun. Víða er hægt að leita fanga um þessi mál. Í erindi, sem Grímur Valdimarsson örverufræðingur og deildarstjóri á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins flutti á ráðstefnu Verkfræðingafélags Íslands í apríl 1982, segir m. a., með leyfi forseta:

„Í hugum margra er efna- og fóðurvinnsla úr örverum nokkuð sem heyrir framtíðinni til. Þetta er misskilningur. Afurðir örveranna hafa nú þegar verulega efnahagslega þýðingu í mörgum löndum. Söluverðmæti örveruafurða hefur á síðustu árum numið tugum milljarða dala á ári í Bandaríkjunum einum saman.“

Þessu til viðbótar má nefna að í Danmörku er umfangsmikill iðnaður á þessu sviði þar sem fyrirtækið Nova er raunar eitt stærsta fyrirtæki í heimi á sviði ensímiðnaðar.

Svona mætti lengi telja. Lýsa mætti íslenskum tækifærum, séríslenskum verkefnum, á þessu sviði sem náttúrlega beinast mjög að efnum sem falla til í sjávarútvegi og landbúnaði. Þar er gífurlegt magn hráefna sem þegar eru þekktar aðferðir, bæði hérlendis og erlendis, til að nýta og skapa milljarða verðmæti. Þetta er í fóðuriðnaði, leðuriðnaði, matvælaiðnaði, lyfjaiðnaði og í efnaiðnaði, svo sem þvottaefnaiðnaði. Og þarna mætti lengur við bæta.

Mér sýnist raunar að hið háa Alþingi og hæstv. ríkisstj. þurfi ekki lengur að velta því fyrir sér hvort líftækni og lífefnaiðnaður verði hagkvæm. Við þurfum að velta því fyrir okkur hvernig við ætlum að hefja innreið Íslendinga inn á þetta svið. Þetta er jafn óumflýjanlegt að mínu mati og bílarnir, traktorarnir og tölvurnar. Þetta er ekki spurning um hvort eða hvenær, heldur hvernig. Ég vona að hæstv. iðnrh., þegar hann svarar fsp. minni um framkvæmd þál. frá því í maí 1982, geti gefið okkur einhverjar hugmyndir um ætlun ríkisstj. á þessu sviði.