06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3376 í B-deild Alþingistíðinda. (2892)

174. mál, lífefnaiðnaður

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 315 ber hv. 4. landsk. þm. upp fsp. um framkvæmd þáltill. um innlendan lífefnaiðnað sem samþykkt var á Alþingi þann 4. maí 1982. Flm. þeirrar þáttill. var Guðmundur G. Þórarinsson þáv. þm. en hún hljóðaði svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að kanna hvort hagkvæmt sé að koma á fót innlendum lífefnaiðnaði.“ Það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur.

Þál. þessi barst iðnrn. þann 18. maí 1982. Þál. var lögð — eða virðist hafa verið lögð — í málasafn rn. og hlaut enga efnislega meðferð. Hvorki í fjárlögum 1983 né 1984 var gert ráð fyrir sérstakri fjárveitingu vegna athugana og/eða rannsókna varðandi lífefna- og/eða líftækniiðnað. Við svo búið má ekki standa og hef ég ákveðið að nú verði tekið til hendi á þessu þýðingarmikla sviði. Við eigum ekki að velta þeirri spurningu fyrir okkur hvort hagkvæmt sé að koma á fót innlendum lífefnaiðnaði eða ekki, heldur með hvaða hætti.

Fimm stofnanir hafa haft þennan málaflokk til athugunar, Háskóli Íslands, Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum, Iðntæknistofnun Íslands, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Rannsóknaráð ríkisins. Nú í mars mun starfshópur Rannsóknaráðs um lífefnaiðnað og -tækni taka til starfa. Starfshópi þessum er ætlað að gera úttekt á þróunarmöguleikum og rannsóknaþörf á þessu sviði með tilliti til íslenskra aðstæðna.

Varðandi einstaka verkþætti má geta þess að fyrir nokkrum dögum kom út skýrsla Iðntæknistofnunar Íslands um frumkönnun á framleiðslu C-vítamíns hér á landi, en slík framleiðsla mundi flokkast undir lífefna- og lyfjaiðnað. Iðnrn. og Samband sunnlenskra sveitarfélaga stóðu straum af kostnaði við þá könnun.

Fsp. hv. þm. var mjög þörf. hún vekur málið af of værum blundi. Ég þarf ekki að minna á að framkvæmdavaldinu ber að fara að ályktunum hins háa Alþingis og það er áreiðanlega ekki af vilja gert að þessi till. hefur mislagst með þeim hætti sem komið hefur í ljós. En eins og ég segi, ég hef þegar undirbúið að ýtt verði myndarlega úr vör að þessu leyti.