06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3377 í B-deild Alþingistíðinda. (2894)

174. mál, lífefnaiðnaður

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Vegna þessarar fsp. um lífefnaiðnað er rétt að fram komi af minni hálfu að ég minnist þess ekki að þessi þáltill. hafi verið fyrir mig lögð eftir að hún fékk samþykki á Alþingi 1982. Sá háttur var á hafður í sambandi við þáltill. sem vörðuðu iðnrn. að þær bárust rn. og var tekið til meðferðar af embættismönnum í samráði við mig hvert þeim var vísað. Sá háttur var á hafður þegar Alþingi hafði lokið störfum ár hvert. Ég kann ekki skýringar á því hvers vegna þessi till. hefur ekki fengið þá meðferð og komið inn á mitt borð.

Hitt er annað mál að e. t. v. hefði mig átt að reka minni til þess að till. hefði hér verið samþykkt, en það er margt sem fer fram hér og samþykkt er af Alþingi af málum — og hér er merkt mál á ferðinni — án þess að menn fylgi því eftir í einstökum atriðum í hvaða farveg viðkomandi mál fara.

Hins er svo að geta að ýmsir þættir þessara mála voru til meðferðar á þessum tíma, m. a., eins og hér kom fram, spurningin um möguleika á framleiðslu C-vítamíns, sem er orkufrek afurð. Iðntæknistofnun var falið að vinna að athugun þess máls og samdi síðan um það við Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi að þau ættu hlut þar að máli. Það var einnig settur á fót sérstakur ráðgjafahópur rannsóknastofnana í landinu til að fjalla um undirbúning og framleiðslumöguleika á sviði orkufrekra afurða. Sá hópur er, að ég best veit, að störfum í tengslum við Iðntæknistofnun Íslands.