06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3379 í B-deild Alþingistíðinda. (2899)

179. mál, eftirlitsnefnd með framkvæmd fjárlaga

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Það má telja meðal tilefna þessarar fsp. að 4. jan. s. l. var frétt í dagblaðinu Tímanum sem ég vil lesa úr með leyfi forseta. Þar er haft viðtal við hæstv. fjmrh. og í því stendur m. a.:

„Þess vegna hef ég sett á laggirnar nefnd sem er undir forustu ríkisendurskoðanda. Nefndin samanstendur af formanni og varaformanni fjvn., forstöðumanni gjaldadeildar, forstöðumanni hagsýslu og ráðuneytisstjóra í fjmrn. Þessir aðilar eiga að fylgjast með framkvæmd fjárlaga frá degi til dags.“

Síðan í sömu frétt segir: „Ráðh. sagði að nefndin væri þegar byrjuð að starfa og jafnframt sagðist hann hafa aðra nefnd sér við hlið, sem í væri forstöðumaður gjaldadeildar, forstöðumaður hagsýslu og þeir fjvn.menn Lárus Jónsson, formaður fjvn., og Guðmundur Bjarnason varaformaður. Þessi nefnd ætti, sagði Albert, að fylgjast með öllum aukafjárveitingum.“

Nú vil ég taka það fram áður en lengra er haldið að ég er alls ekki að hafa á móti auknu eftirliti með framkvæmd laga. Það er raunar eitt af baráttumálum BJ að eftirlit með framkvæmdavaldi sé stóraukið. Og ég tel að sú aukna upplýsing um ástand fjárlaga sem við höfum nú fengið og liggur fyrir þingnefndum og forsvarsmönnum þingflokka nú þegar og verður kynnt Alþingi á fimmtudaginn sé til bóta og til eftirbreytni. En ég hef ákveðnar hugmyndir um aðferðirnar og ég held að þeir punktar gætu verið mikilvægir.

Í fréttinni stendur að hlutverk fyrri nefndarinnar sé að fylgjast með framkvæmd fjárlaga og hlutverki seinni nefndarinnar er lýst þannig að hún eigi að fylgjast með öllum aukafjárveitingum. Síðan hefur mér raunar sýnst að þarna sé raunar aðeins um eina nefnd að ræða enda eru þetta að mestu leyti sömu mennirnir. Að mínu mati er það hlutverk rn. að sjá um framkvæmd, en það er hlutverk fjvn. Alþingis að hafa eftirlit með að fjárlögum sé fylgt. Þarna er held ég um að ræða tvenns konar hlutverk. Það er framkvæmdin sem er ráðuneytisins og það er eftirlitið sem er fjárveitinganefndarinnar. Þess vegna tel ég ekki rétt að setja upp sameiginlega nefnd ráðuneytismanna og oddamanna fjvn. Það er innanhúsmál rn. hvers konar vinnubrögð eru notuð við að framkvæma fjárlög og að líta eftir fjárlögum þar. Ég tel að embættismannahópurinn, sem er í nefndinni samkvæmt þessari frétt sé framúrskarandi hæfur og hafi unnið gott og þarft starf. En ég tel að þeir ágætu hv. þm. Lárus Jónsson og Guðmundur Bjarnason eigi ekki að sitja í innanhúsnefnd í rn. Ég tel að þeir eigi að sitja í sinni fjvn. sem setti þessi lög og ásamt kollegum sínum þar eigi þeir að hafa eftirlit með framkvæmd. Þetta eru þær efnislegu athugasemdir sem ég vildi gera í þessu máli.

Til þess að fá fram hver „status“ nefndarinnar sé hef ég spurt hæstv. ráðh. spurninga sem ég les hér á eftir. Ég ætla mér ekki að fara út í almenna umr. út frá þessu í tilefni af því gati sem nýlega hefur fundist í fjárlögum. Til þess gefast tækifæri á fimmtudag.

Spurningarnar, sem ég bar fram til hæstv. fjmrh., eru þessar: 1. Hver eða hverjir tilnefna menn í eftirlitsnefnd fjmrn. og fjvn. með framkvæmd fjárlaga? 2. Hverjir eru í nefndinni? 3. Hvert er verksvið, vald og ábyrgð nefndarinnar? 4. Liggur fyrir samþykki fjvn. um þessa tilhögun við eftirlit með framkvæmd fjárlaga?