06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3381 í B-deild Alþingistíðinda. (2902)

179. mál, eftirlitsnefnd með framkvæmd fjárlaga

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það hefur verið upplýst að fjárlögin, sem hv. þm. Lárus Jónsson, formaður fjvn., lýsti svo í desembermánuði að væru raunhæfustu fjárlög sem hér hefðu verið gerð í langan tíma og í þeim fælist forsenda sjálfrar stjórnarstefnunnar, hafa nú reynst hafa í sér fólgið stærsta gat sem um getur í fjárlagasögu íslenska lýðveldisins. Það vekur óneitanlega athygli að á sama tíma og þessi þróun á sér stað skipar hæstv. fjmrh. nefnd sem í eiga sæti formaður fjvn. og varaformaður fjvn. í krafti þessara tveggja embætta. Þeir eru skipaðir í nefndina í krafti þessara embætta en ekki sem nafngreindir þm. tilheyrandi stjórnarflokkunum.

Það er alveg ljóst í samræmi við þær þingvenjur, sem hér hafa tíðkast, að þegar svo er um að ræða ber þessum tveimur þm., formanni og varaformanni fjvn., að gefa fjvn. reglulega skýrslu um það sem nefndin kemst að, þessi sérstaka rannsóknarnefnd sem fjmrh. hefur skipað á fjárlögin. Þess vegna tel ég óhjákvæmilegt að hv. þm. Lárus Jónsson, formaður fjvn., komi hér og geri þingheimi grein fyrir hvernig stendur á því að hann sem nefndarmaður í þessari sérstöku eftirlits- og rannsóknarnefnd hefur ekki gert fjvn. fyrr en í fyrsta lagi í dag grein fyrir því mikla gati sem í ljós hefur komið á fjárlögum. Því að hér getur eingöngu verið um tvennt að ræða, annaðhvort að þessi rannsóknarnefnd hefur ekki vitað um þetta gat og þess vegna ekki reynst vanda sínum eða verkefni vaxin, eða þá hitt að formaður og varaformaður fjvn. hafa gagngert verið að leyna hv. fjvn. þessu mikla gati í fjárlögunum. Ég tel það alveg óhjákvæmilegt að hv. þm. Lárus Jónsson upplýsi hvor þessara skýringa er rétt.