06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3381 í B-deild Alþingistíðinda. (2903)

179. mál, eftirlitsnefnd með framkvæmd fjárlaga

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Til er það fyrirbæri í okkar stjórnarskrá sem heitir „aðskilnaður framkvæmdavalds og löggjafarvalds“. Þessi aðskilnaður greinir á milli hvað ábyrgð snertir. Annars vegar ber Alþingi í þessu máli ábyrgð á gerð fjárlaga. Það er ekki, eins og hæstv. fjmrh. sagði áðan, „ég geri fjárlög“, heldur ber Alþingi ábyrgð á gerð þeirra. (Gripið fram í: Hann gerir frv.) Hann gerir frumvarpstillöguna. Það erum við sem gerum lögin. En það er síðan á ábyrgð hæstv. fjmrh. að framkvæma fjárlögin og þá hlýtur hver maður að sjá í hendi sér að mjög óeðlileg staða er upp komin þegar menn úr báðum verkþáttum, sem standa beggja megin þessa verkefnis, sitja orðið saman í nefnd til þess að hafa eftirlit að nafninu til með því sem er að gerast. Ábyrgð þeirra er þar með orðin óljós og óskýr og hættan á því að þeir flytji ábyrgðina á milli starfa verður of mikil til þess að maður geti í raun og veru samþykkt að svona sé staðið að málum.

Eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson benti á væri skv. starfsvenju hér á þingi ekki hægt að mæla á móti því að einhverjir tveir menn héðan af þingi hefðu verið nefndir til þess sem einstaklingar að sitja í slíkri eftirlitsnefnd. Það hefur oft gerst og ákveðin hefð fyrir því. En að það séu einmitt þessir tveir menn, vegna þeirra starfa sem þeir eiga í fjvn., sem þarna sitja, held ég að verði að skoðast með tilliti til ábyrgðarskiptingar milli löggjafa og framkvæmdaaðila mjög óeðlilegt.