06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3383 í B-deild Alþingistíðinda. (2907)

179. mál, eftirlitsnefnd með framkvæmd fjárlaga

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að ræða efnislega um hið margumtalaða gat. Það gefst tækifæri til þess síðar, eins og ég sagði áðan. En ég vil upplýsa að þessi nefnd hefur starfað að því að reyna að finna einhvern botn í þeirri ríkisfjármálaflækju sem skilin var eftir af fyrrv. ríkisstj. Það var ekki fyrr en nú að glögg mynd fengist. Ég skýrði hv. fjvn. frá meginatriðum þessa máls í morgun. Í gær varð að fresta fundi vegna þess að ég þurfti að sinna öðrum störfum á sama tíma og var búið að boða fvn.-fund. Ég sé í Þjóðviljanum í dag að það hefur þótt fréttnæmt að breytt skyldi vera um fundartíma í þeirri ágætu nefnd.

Ég veit að öllum fjvn.-mönnum er kunnugt um störf okkar Guðmundar Bjarnasonar í þessari nefnd, sem starfar á ábyrgð ráðh. Við höfum sagt félögum okkar að við mundum skýra þeim frá því, sem frá væri að skýra, þegar að því kæmi. Það hefur verið gert.