31.10.1983
Efri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

42. mál, orkulög

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Brbl. sem hér eru til umr. voru sett á sínum tíma til þess að stjórnvöld gætu haft nokkurn hemil á takmarkalitlum hækkunum Landsvirkjunar á raforku. Þau voru sett af brýnni nauðsyn til þess að grípa inn í áformaða mikla hækkun á raforku frá Landsvirkjun.

Aðspurður eða að eigin frumkvæði, ég veit ekki hvort heldur var, mun hæstv. iðnrh. hafa lýst því yfir að hann legði til að frv. yrði fellt. En síðan var hann spurður hvort ríkisstj. teldi ekki óhjákvæmilegt að hafa nokkurn hemil á hækkunum á raforkuverði, og þá svaraði hann því hér rétt áðan, að það gæti verið óhjákvæmilegt að ríkisstj. gripi inn í og hefði hemil á og það væru ekki nein tök á frekari hækkunum um sinn á raforkuverði frá Landsvirkjun. Ég verð nú að segja alveg eins og er að mér heyrist nú stangast nokkuð hvað á annars horn í þessum málflutningi, því að brbl. eru sett einungis til þess að hæstv. iðnrh. geti gripið inn í þegar honum sjálfum finnst óhjákvæmilegt að gera það. Þau skylda hann ekki til þess. Hann getur samþykkt allar þær hækkanir Landsvirkjunar sem honum finnst eðlilegar og sjálfsagðar, en það veitir honum vald til að grípa inn í. Og hæstv. ráðh. var að enda við að lýsa því yfir, að það kynni að vera nauðsynlegt að grípa inn í. Samt sem áður vill hann láta fella þessi brbl., sem veita honum einmitt þá heimild sem hann bersýnilega telur nauðsynlegt að hann hafi.

Ég vil minna á að þessi brbl. voru sett í kjölfar þess að raforkuverð frá Landsvirkjun hafði hækkað um 119% á árinu 1982. Og á tímabilinu frá 1. apríl 1982 til 1. febr. 1983, ef það tæpa ár er tekið, nam hækkunin 147.7%, sem sagt á 9 mánaða tímabili, frá apríl 1982 til febrúarbyrjunar 1983. (EG: Hverjir voru nú aftur í stjórn þá?)

Jú, vissulega var þá ágæt stjórn við völd, sem ég heyri að hv. þm. minnist af nokkrum söknuði. Og ekki er hér verið að segja að þessar hækkanir hafi ekki verið óhjákvæmilegar á þessum tíma. Ég hygg að svo hafi verið. Hins vegar er þetta sagt hér fyrst og fremst til að minna á að einhvers staðar verður að stöðva sig. Og það var álit þessarar þáv. ágætu ríkisstj. að mál væri að linnti, að hækkanir sem orðnar voru 147.7% á 9 mánaða skeiði yrðu að duga um sinn og ekki væri efni til að bæta neinu við. Þess vegna voru lögin sett. Þau voru sett til að koma í veg fyrir það að Landsvirkjun hækkaði hér taxta um 30% til viðbótar við þau 147.7% sem komin voru.

Síðan þetta gerðist hefur Landsvirkjun komið fram þessari hækkun, m.a. með atbeina hæstv. núv. iðnrh., eftir að stjórnarskipti urðu. Þá er hækkunin greinilega komin yfir 180%, einhvers staðar milli 180 og 190% á liðlega einu ári. Byggingarvísitala hækkaði hins vegar á tímabilinu 1. apríl 1982 til 1. febrúar 1983 um 63%. Hún hefur vissulega hækkað eitthvað dálítið síðan, en það er greinilegt að byggingarvísitalan er ekki nema hálfdrættingur á við þessar gífurlegu hækkanir sem hafa skollið yfir af hálfu Landsvirkjunar. Það er því óhjákvæmilegt að ríkisvaldið hafi einhverja möguleika til að stemma stigu við takmarkalausum hækkunum. Og þess vegna þarf hæstv. iðnrh. að hafa þetta vald. Það hefur hann þegar viðurkennt sjálfur í þessum umr. og ætti því ekki að láta slíkt og annað eins út úr sér — að það sé best að fetla þetta frv., sem veitir honum einmitt þetta vald.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta mál, en ég vildi að lokum benda hæstv. ráðh. á það, vegna þess að ég vona að um mistök hafi verið að ræða, að þegar um er að ræða brbl., sem sett eru af ráðh. í fráfarandi ríkisstj., þá á auðvitað að taka nokkurt tillit til þess í hvorri deildinni hann situr, sá sem stóð að þessari lagagerð. Auðvitað átti að flytja þetta frv. um staðfestingu á brbl. í Nd., þar sem fyrrv. iðnrh. Hjörleifur Guttormsson á sæti, því að það getur vel farið svo, að þetta frv. komi aldrei til Nd., að það dagi uppi í nefnd, sem vel gæti verið, því að það er ekkert sem beinlínis kallar á það að frv. sé staðfest og samþykkt, ef menn ætla sér að deyða það, eins og sumir virðast ætla. Og eins gæti hitt gerst, að frv. væri hreinlega fellt hérna í deildinni, og þá fer það ekki til Nd. Þar með mundi sá maður, sem stóð fyrir setningu laganna og þekkti allra manna best þau rök sem fyrir hendi voru, aldrei fá tækifæri til að segja álit sitt á lögunum. Það væri vissulega ekki til fyrirmyndar. Ég vonast til að þetta hafi verið mistök hjá hæstv. ráðh., en engu að síður tel ég afleitt að slíkt skuli eiga sér stað.

Ég vil svo að lokum taka undir með hv. seinasta ræðumanni, Þorv. Garðari Kristjánssyni, að eðlilegast virðist vera að frv. gangi til iðnn. Mun ég styðja þá tillögu.